150. löggjafarþing — 25. fundur,  24. okt. 2019.

stjórnarskipunarlög.

279. mál
[15:54]
Horfa

Helgi Hrafn Gunnarsson (P) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég er í grunninn alveg sammála því að það er ekki sjálfkrafa tilefni til að endurskoða stjórnarskrá vegna þess eins að hún eigi sér konunglegar danskar rætur. Mér finnst það hins vegar sýna fram á þann punkt að það er hvergi nálægt því að vera róttæk hugmynd að endurskoða hana út frá því þeirri staðreynd að við höfum ákveðið að vera lýðveldi. Við erum samt sem áður lýðveldi sem á sér rætur ofboðslega djúpt í konunglegri hefð. Sú hefð er enn í gildandi stjórnarskrá, ekki jafn sterk og hún var, reyndar ekki í Danmörku heldur. Það er óumdeilt að árið 1944 hafi lýðveldisskipanin verið hugsuð þannig að við myndum setja okkur nýja stjórnarskrá, væntanlega grundvallaða á lýðveldishugsjóninni. Gildandi stjórnarskrá hefur tekið ákveðnum góðum breytingum, t.d. mannréttindakaflinn 1991, flott. En hún er enn á þessum gamla grunni og það endurspeglast í efninu sjálfu og það er vandinn sem ég vil leysa.

Forseti. Það þarf ekkert að rífa allt í tætlur og henda öllu út um gluggann til þess. Það er nóg að gera nokkrar skipulagðar og skýrar umbætur til þess. Ég skal nefna eitt atriði, bara mjög einfalt. Í 1. mgr. 92. gr. frumvarpsins segir: „Alþingi kýs forsætisráðherra.“ Er þetta eitthvað brjáluð breyting? Nei. Hún er miklu meira í anda lýðveldishugsjónarinnar en fyrirkomulagið sem við höfum núna sem byggt er á hefð sem stenst enga skoðun um leið og maður hefur tekið þátt í stjórnarmyndunarviðræðum einu sinni eða tvisvar. Þetta er svar mitt við því að dönsku ræturnar séu ekki sjálfkrafa ástæða þess að endurskoða stjórnarskrána heldur er það efnið sem er að finna í stjórnarskránni.

Valdið eins og það er hugsað er þannig að það byrjar hjá guði, bókstaflega, fer til konungs, niður til þings og þaðan til þjóðar. Lýðveldishugsjónin er þveröfug, valdið byrjar hjá almenningi. Það á að endurspeglast í hugsuninni á bak við stjórnarskrána. Það þarf ekkert, ég endurtek það, virðulegi forseti, að gera einhverjar brjálaðar breytingar til þess en það þarf að taka umræðuna um það. Ég væri rosalega til í að taka t.d. umræðu um þessa 1. mgr. 92. gr. frumvarpsins. En sú umræða á sér ekki stað vegna þess að fólk virðist vera fast í einhverjum skotgröfum út af hruninu.