150. löggjafarþing — 25. fundur,  24. okt. 2019.

stjórnarskipunarlög.

279. mál
[15:56]
Horfa

Birgir Ármannsson (S) (andsvar):

Hæstv. forseti. Það er kannski ekki færi á því núna að fara í miklar og djúpar umræður um það. En það er vissulega breyting sem hv. þingmaður nefnir varðandi 92. gr. Ef við horfum á stjórnkerfisbreytingar eða breytingar á völdum eða áhrifum í samfélaginu, sem leiðir af tillögum stjórnlagaráðs, hugsa ég að meginbreytingin varði ekki forseta, ríkisstjórn, þing eða aðra slíka. Meginbreytingin er fólgin í því að gert er ráð fyrir mjög mörgum leiðum til að kalla fram þjóðaratkvæðagreiðslur. Ég held að það sé kannski það sem við getum kallað róttækast í þeim efnum.

Ég veit að hv. þingmaður hefur mikinn áhuga á því sviði, en ég velti fyrir mér hvort tillögur stjórnlagaráðs, og ég hef áður látið þau sjónarmið í ljósi, séu fullróttækar, að gera ráð fyrir jafn mörgum leiðum til að kalla fram þjóðaratkvæðagreiðslur og þar er gert ráð fyrir. Það skorti skýrari þröskulda gagnvart því að tryggt sé að ekki sé efnt til þjóðaratkvæðagreiðslu nema tiltekinn hluti kjósenda geri þá kröfu og að áhrifin verði ekki bindandi nema tiltekinn hluti kjósenda annaðhvort samþykki það sem lagt er fyrir í þjóðaratkvæðagreiðslunni, hafni því eða þá að farið sé út í beina þátttökuþröskulda, þannig að tryggt sé að niðurstöður þjóðaratkvæðagreiðslna um hin og þessi mál mótist af raunverulega ríkum vilja í samfélaginu en ekki, hvað á að segja, vilja tiltekins minni hluta sem getur skákað í skjóli áhugaleysis annarra.