150. löggjafarþing — 25. fundur,  24. okt. 2019.

stjórnarskipunarlög.

279. mál
[15:59]
Horfa

Helgi Hrafn Gunnarsson (P) (andsvar):

Virðulegur forseti. Það fyrsta sem ég er ósammála hv. þingmanni um er það hvort nú sé tækifæri til að fara í djúpar umræður. Það er nefnilega hægt akkúrat núna og hvet ég hv. þingmann til að setja sig á mælendaskrá og taka þessa djúpu umræðu núna. Ég er til og ég veit að fleiri þingmenn eru til, þó að þetta sé bara hin svokallaða 1. umr. Þetta er stórt mál og það er alveg þess virði að ræða það almennilega við 1. umr. Ég hvet hv. þingmann til þess að taka djúpa umræðu um það.

Hvað varðar þessar mörgu leiðir, meintu, í frumvarpinu til að kalla fram þjóðaratkvæðagreiðslu þá kannast ég ekki við að þær séu margar. Það er ein sem hefur verið svolítið rædd, sem er málskotsréttur forseta. Til hvers er hann ef málskotsréttur kjósenda er til staðar hvort sem er? Það er umræða sem alveg má taka. Ég skil það ekki sjálfur, ég veit ekki af hverju forseti ætti að senda eitthvað í þjóðaratkvæðagreiðslu sem kjósendur geta sjálfir kallað fram með undirskriftum 10% kjósenda nema ef það ákvæði er þannig úr garði gert að það sé líklegt til að ýmist draga úr getunni til að kalla fram þjóðaratkvæðagreiðslur eða til að ómerkja þjóðaratkvæðagreiðslur sem yrðu haldnar.

Þar kem ég að síðasta punktinum sem hv. þingmaður nefndi sem varðaði það að gera skilyrði um þátttöku í þjóðaratkvæðagreiðslum. Ég skil hvað hv. þingmaður er að fara. Það er hins vegar að mínu mati mjög hættuleg nálgun að ætla að setja slík skilyrði um þátttöku eða ákveðið hlutfall eða eitthvað því um líkt vegna þess að það hefur áhrif á þátttökuna sjálfa, það hefur áhrif á lýðræðislega umboðið sjálft. Með öðrum orðum, að með því að sniðganga þjóðaratkvæðagreiðslu eru kjósendur búnir að taka ákvörðun. Það finnst mér í grundvallaratriðum vera slæmt. Mér finnst að það eigi að vera ákvörðun að mæta á kjörstað og tjá vilja sinn, að það eigi ekki að vera ákvörðun að sitja heima, gera lítið úr þjóðaratkvæðagreiðslunni, kvarta undan því hvað þessir og hinir eru miklir vitleysingar og halda partí á sama tíma. Mér finnst það ekki jákvætt. En það er eitthvað sem ég sé alveg fyrir mér að myndi gerast.

Við eigum að vilja hafa sem mesta þátttöku. Það þýðir, fólk á bara að vita það, að það skal bara mæta á kjörstað ef það vill að á sig sé hlustað. Hvað varðar 10%, (Forseti hringir.) nú hef ég því miður ekki meiri tíma, virðulegi forseti, hefur það sýnt sig, t.d. í umræðu um þriðja orkupakkann, að 10% eru ekki of lágt viðmið. Þetta er ágætisþröskuldur nú þegar. Þetta er ekkert róttækt. Þetta er ekkert flókið, þetta er ekkert vandamál.