150. löggjafarþing — 107. fundur,  20. maí 2020.

olíu- og eldsneytisdreifing.

573. mál
[19:36]
Horfa

Fyrirspyrjandi (Ari Trausti Guðmundsson) (Vg):

Herra forseti. Ég vil byrja á því að þakka hæstv. ráðherra fyrir svörin. Þessar umræður yfir höfuð eru allar ágætar að stofni til. Aðeins um fáein atriði. Ég held að þjóðaröryggisráð eða vinna á þess vegum sé hinn rétti vettvangur til þess að koma skikki á það sem ég kalla birgðastöðu í landinu. Ég er ekki að tala um daglega eða vikulega eða mánaðarlega notkun á þessum orkugjafa heldur þær birgðir, varabirgðir, sem þurfa að vera, yfirlit yfir þær, staðsetning, magn og annað slíkt. Það þarf að vera heildrænt skipulag þannig að ef eitthvað gerist eins og gerðist í vetur, sé hægt að bregðast við með réttum hætti.

Að lokum varðandi eftirfylgni vegna olíuslysa. Til eru viðbragðsáætlanir af ýmsu tagi við mengunarslysum. Það eru þá yfirleitt fyrstu viðbrögð. En það sem er jafn mikilvægt í raun og veru til að koma í veg fyrir sem allra mest tjón af völdum slíkra mengunarslysa er að eftirfylgni eða eftirlit sé líka skipulagt með einhverjum hætti; að tekin séu sýni, að fylgst sé með, við skulum segja grunnvatni, ám eða öðru slíku, gróðurfari eða hvaðeina. Þarna er ákveðið verk að vinna eins og ég held að atburðirnir í vetur hafi kennt okkur. Eins og ég nefndi þarf ekki mikla framsýni til að sjá að snjóflóð, skriðuföll, eldgos, jarðskjálftar eða annað slíkt gera það að verkum að það reynir á birgðastöðu vegna raforkuframleiðslu, hita og annars slíks í húsum og fleira. Þannig að hér er verk að vinna.