150. löggjafarþing — 129. fundur,  29. júní 2020.

breyting á ýmsum lögum er varða eignarráð og nýtingu fasteigna .

715. mál
[14:11]
Horfa

Haraldur Benediktsson (S):

Herra forseti. Ég leyfi mér, þrátt fyrir aðstæður hér í þinginu, að blanda mér örlítið í þessa umræðu, en ég átti þess ekki kost að vera við 1. umr. málsins. Það var lagt fram í upphafi Covid-hremminga og ég átti ekki kost á því að taka þátt í þeirri umræðu. En það eru samt nokkrir þættir sem ég vildi gjarnan hnykkja á. Í öllum aðalatriðum vil ég segja, um það þingmál sem hér er til afgreiðslu, að í því felst að koma skikki á upplýsingagjöf um jarðasölu, landstærðir, skipulag og skráningar sem ég held að sé til mikilla bóta. Í öðru lagi er verið að gera tilraun til þess að stíga inn í það umhverfi sem jarðasala er í í dag. Ég er ekkert endilega algerlega sannfærður um að það sé besta leiðin sem þar er reifuð en látum reyna á hvernig til tekst. Ég held að þær hömlur eða þær reglur sem þar eru settar snerti yfir höfuð ekki almenna jarðasölu í landinu, ég hef ekki áhyggjur af því sérstaklega.

Mín skoðun kjarnast um það að sjálfstæðir eignabændur séu besta búsetuformið í sveitum. Það þarf ekki að draga neitt fleiri sannanir fyrir því en bara að skoða söguna. Þegar bændur á Íslandi fara að verða sjálfseignarbændur almennt, hér upp úr 1900, fer búskapur fyrst að eflast í sveitum. Það er bara kjarninn í allri þeirri nálgun sem ég vil að við höfum í huga hvað varðar jarðaviðskipti á Íslandi. Nú háttar þannig til, það er gráglettni örlaganna, að sá sem hér stendur er afkomandi fátæks leiguliða stóreignamanns sem safnaði jörðum á Snæfellsnesi. Það var reyndar mjög góður landsdrottinn og mjög vel talað um hann í minni fjölskyldu, en það er ekki alltaf sjálfgefið. Það versta sem getur komið út úr inngripum í jarðaviðskipti og því ástandi sem nú getur áfram þróast, eins og margt bendir til, er að við eignumst fleiri og fleiri leiguliðabújarðir á Íslandi. Það er versta staða sem hægt er að komast í. Þess vegna hefði ég viljað nálgast þetta inngrip, eða breytingar á reglum um jarðasölu á Íslandi, miklu meira út frá forsendum þeirra sem ætla að búa í sveitinni og byggja hana. Ég held nefnilega að sú nálgun sem hér er sé ekkert endilega eina nálgunin sem við þurfum að beita. Við þurfum miklu frekar og ekkert síður að skoða skattalegt umhverfi bújarðaviðskipta.

Ég á góðar vonir um það, virðulegur forseti, að eitt lítið þingmál hér, um meðferð söluhagnaðar og meðferð skuldabréfasölu bújarða, geti jafnvel verið meira inngrip og meira öryggisnet fyrir þá sem vilja sitja og halda bújörðum í rekstri áfram en þær breytingar sem hér eru. Það er ýmislegt í viðskiptaumhverfi bújarða, þar sem ævisparnaður bænda og þeirra fjölskyldna liggur, sem taka mætti betur utan um til þess að tryggja áframhaldandi búsetu og búskap. Fyrir þessu hafa menn verið lokaðir í allt of langan tíma.

Ég ætla ekkert að fara nánar út í það tímans vegna en það er annar þáttur til viðbótar sem ég sakna úr þessari breytingu en var að sönnu ekki í frumvarpinu sem upphaflega var lagt fram. Ég hafði talað fyrir því, þegar menn færu í þessi mál, að menn tækju utan um skyldur jarðeigenda. Okkur þykir það sjálfsagt í lögum um fjölbýlishús, og í annarri löggjöf sem við erum að setja, að þeir sem halda á tilteknum verðmætum hafi ákveðnar skyldur. Það vantar samantekt, ég er ekki að segja að það vanti almennt í löggjöf, það er hægt að lesa slíkt í lögum um girðingar, í lögum um hafréttarmál o.s.frv., að tekið sé utan um skyldur jarðeigenda og þar af leiðandi þeirra sem sitja jarðirnar í þeirra umboði.

Virðulegur forseti. Með minn bakgrunn og mína þekkingu á þessu máli er það í sjálfu sér ekki vandamálið hver er að kaupa þessar jarðir og af hvaða þjóðerni þeir eru heldur hvernig þeir fara með þær og hvernig þeir rækja skyldur sínar í samfélögunum. Halda menn við girðingum? Eru menn að halda við framræslu lands sem hefur áhrif á ræktunarskilyrði annarra bújarða? Sinna menn skyldum sínum sem landeigendur til að hreinsa lönd sín á haustin? Það væri mikið framfaraskref eitt og sér að taka utan um skyldur jarðeigenda í löggjöf um jarðamál. Það stæði þá á einum stað að ef þú átt jörð þá hefurðu ákveðið hlutverk og þér ber að rækja það. Það verður náttúrlega meiri háttar mál fyrir þá sem eru kannski að kaupa jarðir í tugatali að halda utan um það að rækja þessar skyldur sínar, en við eigum ekki að gefa afslátt af því. Þó að menn geti stöðu sinnar vegna safnað bújörðum þá getum við ekki endilega horft með blinda auganu á það að þeir ræki ekki skyldur sínar gagnvart þeirri mikilvægu eign. Á því byggist í raun og veru lím samfélagsins allt.

Það er ekki endilega skilaverð á dilkakjöti sem ræður búsetu fólks, hvort það vill halda áfram búskap í sveitum landsins. Þar eru að sjálfsögðu þættir eins og fjarskipti og samgöngur, og líka fámennið og hvernig er að komast af við þá sem eiga jarðir sem kannski eru fallnar úr búskap, hvernig gengur að smala lönd á haustin, viðhalda girðingum og slíkir þættir sem þurfa að vera í lagi. Það eru skyldur jarðeiganda, það er skattalegt umhverfi bújarðaviðskipta sem mér finnst skipta miklu meira máli en nákvæmlega jarðalögin sjálf og takmörkun á eignarhaldi og fjölda jarða sem menn vilja koma sér saman um.

Menn tala í öðru orðinu um að hér eigi að ríkja sem mest frjálsræði og það hefur ríkt eitt mesta frjálsræði í Evrópu í viðskiptum með bújarðir á Íslandi frá árinu 2004. Það er samt þannig að lánastofnanir á Íslandi telja ekki allar bújarðir vera þess verðugar að taka í þeim veð og menn eru að lenda í vandræðum með að byggja upp jarðir sínar og viðhalda þeim. Það er síðan önnur umræða um starfsumhverfi landbúnaðar o.s.frv., en þetta er samt staðreynd málsins.

Þegar ég hitti kollega mína þá vísa ég til þess að ég sé í bændastétt og þá skilja þeir ekki svar mitt þegar ég segist ekki vita hve jörðin er stór sem ég á. Í menningu landanna í kringum okkur vita menn upp á hár, næstum upp á fermetra, hvað jarðirnar eru stórar. Það vantar bara í okkar menningu. Þess vegna hefur það væntanlega verið látið danka, sem hér er verið að taka á, að skrá þessa hluti. En í því endurspeglast líka bara viðhorf til bújarða sem ég er að lýsa. Íslenskir bændur vita ekki alltaf hve stórar jarðirnar eru en það þykir líka mikið alvörumál í þessum löndum að eiga bújörð og hvernig farið er með hana og það snertir eðlilega hjörtu fólks. Þannig er það líka hér á landi, það eru líka Sjálfstæðismenn sem hafa áhyggjur af því hvernig jarðamál og jarðasölur hafa verið að birtast okkur hér á landi undanfarin ár. Ég er bara að draga það fram að þegar maður ræðir við kollega sína um jarðaviðskipti þá furða menn sig almennt á því að við setjum ekki ríkari kröfur þar um. Er ég þá að tala fyrir höftum og miðstýringu? Nei, ég er ekki að gera það. Ég er að tala um að rekstrarumhverfi landbúnaðar, skyldur landeigenda, skyldur jarðeiganda og umhverfi þeirra sé almennt og gagnsætt.

Þess vegna óttast ég ekki þær breytingar sem hér er verið að leggja til í þessu frumvarpi og meiri hluti allsherjar- og menntamálanefndar leysir hér úti í sínu nefndaráliti. Ég óttast það ekki en ég held að menn ættu samt að hafa augun á því og halda þessu verki áfram því að ég held að við séum komin af stað í mjög mikilvægan leiðangur að fara aftur ofan í þennan mikilvæga málaflokk. Ég vil taka undir með hv. þingmönnum sem hér hafa talað, ég held að það sé miklu meira sem sameinar okkur í þessum efnum en sundrar okkur. Við megum ekki láta einhvern málflutning um að hér sé verið að búa til einhverja miðstýringu eða að á hinn bóginn sé eitthvað mikið frelsi — þetta eru fyrst og fremst praktísk mál sem við þurfum að leysa og ræða okkur til enda. Þetta er ágætt upphaf á þeirri vegferð.