151. löggjafarþing — 57. fundur,  18. feb. 2021.

Fjarskiptastofa.

506. mál
[15:03]
Horfa

samgöngu- og sveitarstjórnarráðherra (Sigurður Ingi Jóhannsson) (F):

Virðulegi forseti. Það er áskorun að tryggja að löggjöf þróist í takt við tímann. Það á sérstaklega við á sviði fjarskipta þar sem breytingar eru mjög örar og þingið hefur sjálfsagt orðið vart við að fjölmörg mál hafa komið til kasta þess á því sviði.

Hér mæli ég fyrir frumvarpi til laga um Fjarskiptastofu. Frumvarpið felur í sér heildarendurskoðun á lögum um Póst- og fjarskiptastofnun. Gildandi lög um stofnunina eru komin nokkuð til ára sinna og þarfnast endurskoðunar. Á síðasta ári var lögð talsverð vinna í að greina verkefni Póst- og fjarskiptastofnunar. Í kjölfarið var ákveðið að endurskoða lögin um stofnunina en það var reyndar fleira sem kallaði á endurskoðun laganna því að ýmis nýleg lög, ekki síst á sviði fjarskipta- og netöryggismála, hafa og hafa haft mikil áhrif á hlutverk stofnunarinnar og þau verkefni sem henni er ætlað að sinna. Leiddi framangreind greiningarvinna jafnframt til þess að ákveðið var að leggja til að eftirlit með lögum um póstþjónustu yrði flutt til Byggðastofnunar, m.a. að danskri fyrirmynd. Samhliða frumvarpi þessu verður því lagt fram frumvarp um breytingar á lögum um póstþjónustu og lögum um Byggðastofnun sem felur í sér flutning eftirlits með póstþjónustu frá Póst- og fjarskiptastofnun til Byggðastofnunar.

Virðulegi forseti. Meginmarkmið frumvarpsins er að setja á fót nýja stofnun sem mætir væntingum og þörfum samfélagsins í heimi fjarskipta og netöryggis, en á næstu árum munu verkefni stofnunarinnar á ýmsum sviðum, t.d. á sviði netöryggismála, aukast til muna. Þá er opnað fyrir aukna möguleika stofnunarinnar til að styðja við framþróun á sviði fjarskipta, t.d. með því að styðja við verkefni er snúa að nýsköpun og fræðslu á sviði fjarskipta og netöryggis. Lagt er til að stofnunin beri heitið Fjarskiptastofa og ber frumvarpið því það nafn.

Með frumvarpinu er stofnuninni settur skýr rammi sem endurspeglar hlutverk hennar og gerir henni kleift að takast á við þær öru breytingar sem eru á málefnasviðum stofnunarinnar. Meginverkefni stofnunarinnar snúa að fjarskipta- og netöryggismálum, en póstmál eru í dag aðeins um 6% af starfsemi hennar. Sérstaklega skal bent á að lagt er til að stofnuninni verði heimilað að taka þátt í rannsóknum og þróunarstarfi og einnig er lagt til að hlutverk stofnunarinnar og aðkoma að almannavörnum verði skilgreind betur en í gildandi lögum. Í því samhengi verði stofnunin ráðgefandi fyrir stjórnvöld, skapist almannavarnaástand hér á landi, og fái hún heimildir til að gefa fjarskiptafyrirtækjum fyrirmæli til að tryggja fjarskiptasamband á tilteknum svæðum í almannavarnaástandi. Það er rétt að geta þess að við fengum upplifun af þessu í desemberveðrinu 2019.

Þess skal getið að frumvarpið felur ekki í sér innleiðingu EES-gerða, en hins vegar ber að hafa í huga að gildandi lög um stofnunina, sem og póst- og fjarskiptalöggjöf almennt og tengt regluverk, byggist að miklu leyti á samevrópsku regluverki. Eru því mörg ákvæði óbreytt frá gildandi lögum um Póst- og fjarskiptastofnun, en þau eru nr. 69/2003. Þær breytingar sem felast í frumvarpinu eru í samræmi við markmið fjarskiptaáætlunar. Með skýra sýn og metnaðarfull markmið að leiðarljósi náum við árangri og náum fram jákvæðum áhrifum fyrir samfélagið allt.

Þess ber að geta að ákvæði frumvarpsins styðja jafnframt við það markmið frumvarps til nýrra fjarskiptalaga, sem nú er í þinglegri meðferð, að hvetja til hagkvæmrar uppbyggingar fjarskiptainnviða. Samkeppni, hagkvæm uppbygging og öryggi eru þeir lykilþættir sem stjórnvöld leggja megináherslu á, en jafnframt er mikilvægt að löggjöf haldi í við tækniþróun og styðji ávallt við framþróun á íslenskum fjarskiptamarkaði.

Ég vil leggja áherslu á mikilvægi þess að löggjöf á sviði fjarskipta sé skynsamleg og feli í sér jafnvægi á milli hagsmuna neytenda og markaðsaðila. Á samkeppnismarkaði þurfa leikreglur að vera skýrar fyrir markaðsaðila hverju sinni. Með frumvarpi þessu er leitast við að einfalda lagalega umgjörð þeirrar stofnunar sem gegnir lykilhlutverki í framkvæmd og eftirliti með fjarskiptum og netöryggismálum hér á landi þannig að hún geti mætt væntingum og þörfum samfélagsins.

Virðulegi forseti. Ég hef nú gert grein fyrir efni frumvarpsins í stórum dráttum og legg til að því verði að lokinni þessari umræðu vísað til hv. umhverfis- og samgöngunefndar og 2. umr.