152. löggjafarþing — 46. fundur,  3. mars 2022.

leit að olíu og gasi í lögsögu Íslands.

[10:48]
Horfa

Sigmundur Davíð Gunnlaugsson (M):

Herra forseti. Helsti veikleiki Vesturlanda í viðbrögðum við innrás Rússa í Úkraínu og þeim afleiðingum sem menn sjá fyrir sér á alþjóðasamfélagið af þeim sökum, hefur verið hversu háð sérstaklega Evrópa er orku frá Rússlandi, ekki hvað síst gasi. Það hefur því verið bent á mikilvægi þess að Vesturlönd verði sjálfum sér nóg um orkuframleiðslu. Það er ljóst að það mun ekki bara gerast með því að setja upp vindmyllur um allar trissur. Það er hins vegar mikilvægt að þessi lönd nái að færast í auknum mæli úr kolabruna yfir í olíu og þó sérstaklega gas. Þess vegna er mikil umræða um það í Bandaríkjunum og mörgum Evrópulöndum núna að þau lönd sem geta, þurfi að auka orkuframleiðslu sína. Forseti Bandaríkjanna lýsti því yfir í fyrradag að hann myndi losa um verulegar varabirgðir landsins af olíu. Menn ræða nú aftur gas- og olíuvinnslu í Alaska. Í Bretlandi er mikil umræða um nauðsyn þess að nýta þær auðlindir sem þar eru, ekki hvað síst í formi gass. Norðmenn hafa nú fyrir fáeinum vikum gefið út 53 ný leitar- og vinnsluleyfi fyrir olíu og gas í norskri lögsögu. Kemur ekki til greina að mati hæstv. ráðherra að hverfa frá áformum um að leggja bann við rannsóknum og vinnslu olíu og gass í íslenskri lögsögu? Þessi áform ríkisstjórnarinnar voru aldrei skynsamleg, þau hafa ekki gert neitt fyrir umhverfið en nú er þetta líka orðin spurning um stöðu Vesturlanda í breyttum heimi.