21.11.1974
Neðri deild: 10. fundur, 96. löggjafarþing.
Sjá dálk 315 í B-deild Alþingistíðinda. (222)

33. mál, samræmd vinnsla sjávarafla

Guðlaugur Gíslason:

Herra forseti. Þó að mér gefist tækifæri til þess að ræða um þetta frv. í n., ef því verður vísað til sjútvn., og þá eins að sjálfsögðu við 2. umr., vil ég fara um það nokkrum orðum við 1. umr.

Frv. þetta er ekki stórt í sniðum og lætur ekki mikið yfir sér, en ég vil mjög benda á að það er mjög stefnumarkandi í vissum atriðum. Það er svo að fram að þessu hefur það verið látið viðgangast að rn. hafa gefið út leyfi til vissra veiða. Ég hygg, að það sé byggt á þeim ákvæðum 1. um heimild til togveiða sem þar er að finna um friðunarreglur. Hvort nokkur ákvæði er beint að finna í l. að öðru leyti er mér ekki kunnugt um og hef ekki skoðað og skiptir ekki máli. En frv. þetta gengur lengra en áður hefur tíðkast og á ég þar við þá heimild, sem farið er fram á í 2. gr. um takmörkun vinnslustöðva, bæði byggingu nýrra stöðva og aukningu þeirra sem fyrir eru. Ég hygg að þetta séu ákvæði, sem ekki er að finna í neinum lögum, enda væri rn. og ráðh. ekki að biðja um samþykkt þessa frv. ef slíkt væri fyrir hendi.

Ég tel að málið sé allt í heild mun stærra en frv. gefur tilefni til að ætla og þurfi því að skoðast mjög vel. Það þarf enginn að ætla sér það, að ef á að fara að binda í lögum að það þurfi heimild rn. bæði til veiða og vinnslu á vissum tegundum fisks og annarra sjávardýra á vissum stöðum í kringum landið, þá hlýtur það að leiða til þess að það vakna upp kröfur annars staðar á landinu en t.d. á Breiðafirði, Ísafjarðardjúpi og Húnaflóa um að veiðisvæðin, t.d. humarsvæði fyrir Suðurlandi og rækjuveiðisvæðin fyrir Suðurlandi, verði þá einnig vernduð fyrir veiðum annarra báta og skipa en þar eru skrásett. Það er útilokað annað, ef frv. verður samþ. eins og það er lagt fyrir, að það verði settar nokkuð fastar reglur um veiðiheimildir á vissum tegundum, sem sóst er eftir, þannig að það verði sami réttur um land allt, að aðeins þeim bátum, sem skrásettir eru á hinum ýmsu stöðum kringum landið skuli veittar þessar veiðiheimildir. Ég hygg að þetta gæti orðið nokkurt ágreiningsmál ef þannig fer, en engan vafa tel ég á því að einmitt þessi krafa muni koma fram ef þetta frv. verður samþ. óbreytt.

Þá vil ég benda á það sem fram kemur í grg. með frv., en mér hafði ekki verið kunnugt um það, sem þar er, en þar segir að til þess að geta öðlast veiðileyfi eða fengið rækju- og skelfisksveiðileyfi á ákveðnum svæðum séu kröfur um að eigendur og skipstjóri báts hafi verið búsettir á viðkomandi svæði í eitt ár. Ég held að það sé ákaflega hæpið að láta það sjást hér á Alþ. að maður með skipstjórnarréttindi, þótt þar sé um minnstu réttindi að ræða, megi ekki stunda veiðar á tilteknum stöðum við landið. Ég held að þetta fái ekki undir nokkrum kringumstæðum staðist, sú hugsun sem þarna er á bak við, að það eigi að fara að svæðisbinda einnig skipstjórann á viðkomandi bát. Það hefur, eins og ég sagði áður, verið í framkvæmd svo að veiðileyfi hafa verið gefin út til tiltekinna skipa á ýmsum veiðum, en ég hef aldrei vitað áður að skipstjóri væri einnig svæðisbundinn. Ég hélt að skipstjóraréttindi, hversu smá sem þau eru, giltu um allt landið, og einhvern veginn hefur maður það á tilfinningunni, að ef ætti að fara að svæðisbinda t.d. iðnréttindi í vissum greinum við vissa landshluta, yrði það talin nokkur skerðing á þeim réttindum sem menn öðlast sem þau réttindi hafa. En eins og ég segi, ég hef aðstöðu til að skoða þetta frv. nánar í n. og gera mínar aths. við það þar, en ég vil bara undirstrika að hér er um mjög stefnumarkandi frv. að ræða, sem ég tel að Alþ. þurfi vel að skoða. Við vorum einu sinni búnir að losa okkur við þessi fjárfestingarhöft öll í landinu og þá skipulagningu, sem þar var um að ræða, og ég tel að beri að fara varlega í það að taka slíka stefnu upp aftur að nýju hér á Alþingi.