14.12.1978
Sameinað þing: 35. fundur, 100. löggjafarþing.
Sjá dálk 1531 í B-deild Alþingistíðinda. (1001)

16. mál, beinar greiðslur til bænda

Albert Guðmundsson:

Herra forseti. Það hefur komið fram í umr. um þetta mál og ráðh. hefur staðfest við mig persónulega, þó ég hafi ekki heyrt hann segja það hér úr ræðustól, að útflytjendur á landbúnaðarafurðum hafi ávallt tekið umboðslaun af þeim hluta í útflutningi landbúnaðarafurða sem er niðurgreiðsla til bænda, en ekki einvörðungu af því verði sem fæst fyrir vöruna frá kaupanda. Samband ísl. samvinnufélaga hefur því umboðslaun af skattpeningum þjóðarinnar. Hve lengi hefur Samband ísl. samvinnufélaga tekið slíka umboðslaunaþóknun af niðurgreiðsluupphæðinni? Hvað hefur Sambandið fengið háa upphæð í slíkum aukagreiðslum, sem annars hefðu lækkað verð vörunnar eða hækkað verð til bænda? Og hvað á þetta að ganga lengi? Næst má spyrja: Hvað heitir svona þóknun á máli hreinsunardeildar Alþfl.? Þessi auðgunaraðferð Sambandsins er varin af þeim þm. hér á hv. Alþ. sem telja sig talsmenn bænda. En ég verð að segja alveg eins og er, að mér finnst koma betur og betur í ljós að þessi svokölluðu talsmenn bænda eru það alls ekki, heldur talsmenn þess auðhrings sem heitir Samband ísl. samvinnufélaga.