14.12.1978
Sameinað þing: 35. fundur, 100. löggjafarþing.
Sjá dálk 1535 í B-deild Alþingistíðinda. (1008)

16. mál, beinar greiðslur til bænda

Geir Hallgrímsson:

Herra forseti. Ég kveð mér hljóðs til þess að beina því til þeirrar n., sem fær þessa þáltill. til meðferðar, að n. flýti afgreiðslu till. Bendi ég á í því sambandi, að eðlilegt er að afgreiðsla þessarar þáltill. verði ekki seinna á ferðinni en afgreiðsla þess frv. til l. um breyt. á lögum um Framleiðsluráð landbúnaðarins sem um getur á þskj. 147 og hæstv. landbrh. hefur flutt sem stjfrv.

Það kom fram í máli 1. flm. þáltill., hv. þm. Eyjólfs K. Jónssonar, að umr. um þessa þáltill. hefðu lengi staðið, nokkuð á annan mánuð, og því fremur er ástæða til þess að flýta nefndarstörfunum. En því til viðbótar vil ég rifja upp niðurlagsorð í ræðu hv. 1. flm. Eyjólfs Konráðs Jónssonar, þar sem hann einmitt flutti rök að því, að þessi mál tengdust mjög saman.

Á þessum fundi hafa enn fremur hv. flm. og aðrir ræðumenn bent á að auðvitað skiptir það máli til þess að leysa vandamál landbúnaðarins, hvernig háttað er fyrirkomulagi á vinnslu, dreifingu og sölu landbúnaðarafurða. Og það er vissulega margt, sem hér hefur verið bent á, sem leiðir hugann að því, að endurbætur í þeim málaþáttum verði mjög til þess að leysa vandamálið í heild þannig að bæði hag framleiðenda og neytenda sé betur borgið en nú.

Ég sé ekki ástæðu til þess að lengja þessar umr., en vil þó leggja á það áherslu, að skoðun mín er sú, að það sé engin trygging fyrir bændur þótt samvinnuform sé á þeirri verslun sem hefur það verkefni að sjá um vinnslu, dreifingu og sölu afurða þeirra innanlands eða erlendis. Því miður getur samvinnufyrirtæki, eins og hvert annað fyrirtæki, stirðnað ef það nærist ekki af þeim jarðvegi sem skapast í samkeppni og með samanburði við aðra hliðstæða starfsemi. Það eiga hvorki kaupmenn né samvinnufyrirtæki að hafa kverkatak á bændum, eins og hv. þm. Páll Pétursson komst að orði. Það eiga engir að hafa kverkatak á bændum. Það eiga engir aðilar hér á Íslandi að hafa kverkatak á neinum hópi landsmanna.