14.12.1978
Sameinað þing: 35. fundur, 100. löggjafarþing.
Sjá dálk 1536 í B-deild Alþingistíðinda. (1010)

16. mál, beinar greiðslur til bænda

Ólafur Ragnar Grímsson:

Herra forseti. Það er leitt að hafa ekki fengið nánari útlistanir á deildaskiptingunni í Alþfl. hjá hv. þm. Vilmundi Gylfasyni. Hann flutti hins vegar fróðlegan fyrirlestur um það, hvað gerst hefði í Alþfl. Ég reikna með að það sé jafnrétt sagnfræði og menntaskólakennarinn og sagnfræðingurinn kennir í MR fyrir hádegi. Hún fólst í því, að þegar Gylfi Þ. Gíslason lét af formennsku í Alþfl. hefði átt sér stað félagsleg bylting. Ég vil hins vegar láta það koma fram hér, að ég hef ekki séð miklar breytingar á málflutningi ýmissa þm. Alþfl. á þessu kjörtímabili frá því sem var síðast. Það hefur vakið athygli mína, að hv. þm. Vilmundur Gylfason hefur tekið upp í stórum dráttum ýmsar þær till. sem hv. þm. Gylfi Þ. Gíslason barðist hér fyrir áður, þannig að sú breyting, sem virðist hafa gerst, hefur í raun og veru ekki haft neitt annað í för með sér en það, að komin er örlítil „poppuð“ útgáfa af Gylfa Þ. Gíslasyni hér í þingsalina. (ÁG: Þetta er nú fyrir neðan beltið, Ólafur.) Ef þetta er fyrir neðan belti, þá er ég viss um að hv. þm. Vilmundur Gylfason hefur slíka æfingu í að taka og gefa þannig högg, að hann þurfi varla að kvarta undan þessu.

Mér leiðist dálítið þessi goðsögn um nýja Alþfl., vegna þess að hún er ein af þeim goðsögnum sem þessir ágætu áróðursmeistarar halda fram — áróðursmeistarar sem fyrst og fremst virðast skoða það sem verkefni sitt að setja fram einfaldar og allt of ódýrar tillögur um lausn þjóðfélagsmála. Það kemur m.a. fram í því, að hv. þm. Vilmundur Gylfason skrifar dag eftir dag leiðara þar sem hann kallar samstarfsflokka sína í ríkisstj. verðbólguflokka, án þess að hafa sjálfur haft nokkra aðra afstöðu til mála í atkvgr. hér á Alþ. en við aðrir stuðningsmenn þessarar ríkisstj. Ef hv. þm. ætlar að fara að láta orð sín þýða annað en hávaða, þá er tími til kominn að hann fari að láta verkin tala hér í þingsölum.