14.12.1978
Efri deild: 27. fundur, 100. löggjafarþing.
Sjá dálk 1538 í B-deild Alþingistíðinda. (1015)

124. mál, skipan innflutnings- og gjaldeyrismála

Frsm. (Jón Helgason):

Herra forseti. Fjh.- og viðskn. hefur fengið frv. til l. um breyt. á l. um skipan innflutnings- og gjaldeyrismála til meðferðar.

Frv. þetta gerir ráð fyrir ótímabundinni framlengingu ákvæðis 6. gr. laga nr. 77/1977 um leyfisgjöld af innflutnings- og gjaldeyrisleyfum. Sú breyting er þó gerð, að fram að þessu hefur helmingurinn af tekjum af leyfisgjöldum runnið til gjaldeyrisbankanna til að standa straum af kostnaði við úthlutun leyfanna, en samkv. þessu frv. verður það nú 1/3, þar sem það er talið nægja til að standa undir þessum kostnaði. Ástæðan fyrir því er einkum sú, að með hækkuðum ferðamannagjaldeyri hafa tekjur af leyfisgjöldum af honum stórhækkað, en þar er leyfisgjaldið langhæst eða 1.75%. Þess má einnig geta, að nú er samkv. beiðni hæstv. viðskrh. verið að athuga hagræðingu í vinnubrögðum við úthlutun þessara leyfa og væri vissulega vonandi að sú athugun bæri þann árangur að hægt yrði að lækka þennan útgjaldalið.

Fjh.- og viðskn. leggur til að frv. verði samþykkt óbreytt, en þeir Eyjólfur Konráð Jónsson og Jón G. Sólnes skrifa undir nál. með fyrirvara. Geir Gunnarsson var fjarverandi afgreiðslu málsins.