14.12.1978
Efri deild: 27. fundur, 100. löggjafarþing.
Sjá dálk 1540 í B-deild Alþingistíðinda. (1021)

7. mál, ráðstafanir vegna breytingar á gengi íslenskrar krónu

Ólafur Ragnar Grímsson:

Herra forseti. Ég stóð að áliti meiri hl. n. með fyrirvara. Mér þykir rétt við 2. umr. þessa máls að gera örlitla grein fyrir því, í hverju sá fyrirvari er fólginn. Ég ætla hins vegar að hafa mál mitt stutt, þótt vissulega væri tilefni til þess að ræða ítarlega um þær umr. sem fram fóru í n., og þær athuganir sem þar voru gerðar á ákvarðanatöku í því efni að ráðstafa því fé sem hér er til umr.

Því miður bárust n. ekki þær upplýsingar sem hún óskaði eftir. Fljótlega í meðferð n. um þetta mál hét ráðuneytisstjóri sjútvrn. að kanna möguleika á því, að n. fengi til skoðunar þá áfangaskýrslu um frystihús á Suðurnesjum sem er fyrsta skrefið til grundvallar úthlutun fjár sem hér er til umr. Þegar það gekk ekki eftir var gefið fyrirheit um það, að útdrætti úr þessari skýrslu yrði komið til n., en það var ekki heldur gert. Við höfum því ekki upplýsingar um það, á hvaða forsendum sá starfshópur, sem sjútvrn. skipaði til þess að gera úttekt á frystihúsunum, byggir starf sitt, einkum og sér í lagi að hve miklu leyti þar er um að ræða það sem ég vil kalla rekstrarlegar forsendur sem miða að því að skapa varanlegan grundvöll fyrir því, að þessi frystihús séu þannig úr garði gerð að þau séu hagkvæmari rekstrareiningar í tæknilegu og framleiðslulegu tilliti ekki síður en í rekstrarlegu tilliti. Jafnframt var það mjög óljóst í n., hvernig miðaði úttekt á frystihúsum í öðrum landshlutum en á Suðurnesjum. Það kom fram í n. í nóvembermánuði, að þeirri úttekt mundi verða lokið fyrri hluta desembermánaðar, en það hefur ekki verið gert.

Ég er ekki að átelja það, að úttektin taki langan tíma. Hins vegar finnst mér nauðsynlegt að Alþ. fái í hendur þær skýrslur sem úthlutun þessa fjár grundvallast á. Samkv. þeim upplýsingum, sem fram komu í n., er það fyrst og fremst vinna starfshópsins, sem rn. skipaði, sem verður lögð til grundvallar ákvarðanatöku Fiskveiðasjóðs. Ég hef þó ekki viljað tefja meðferð málsins í þessari d., þótt ég hefði kosið að fjh.- og viðskn. d. hefði fengið þau gögn, sem lofað var að afhenda, og við hefðum fengið ítarlegra og betra yfirlit um hvers konar ákvarðanatöku er þarna í raun og veru að ræða.

Ég held að það kerfi, sem beitt hefur verið í þessum efnum, hafi leitt til þess, að tilflutningur verulegra fjármuna hafi átt sér stað frá þeim frystihúsum, sem betur eru rekin og betur standa í rekstrarlegu tilliti og þjóðhagslega séð væri jafnvel hagkvæmara að efla enn frekar, til frystihúsa sem í sjálfu sér eru vonlausar eða vonlitlar rekstrareiningar af margvíslegum ástæðum. Þótt frystiiðnaður á Suðurnesjum eða í öðrum landshlutum sé allra góðra gjalda verður hlýtur það að vera höfuðmarkmið fjármagnsráðstafana af þessu tagi að koma frystiiðnaðinum, hvar sem hann er á landinu, í það skipulega og tæknivædda form að hann skili arði án slíks fjármagnstilflutnings hvað eftir annað sem hefur orðið mjög tíður í kjölfar þeirra tíðu gengisfellinga sem hér hafa átt sér stað. Ég hef því margvíslegar efasemdir um það, að hér séum við á réttri braut, þótt það kunni að vera rétt, að tæknilega betur sé staðið að keyrslunni á þessari braut nú en áður.

Ég vil við afgreiðslu þessa máls lýsa þeim fyrirvara mínum, að áður en málið sé endanlega afgreitt frá þinginu liggi miklu skýrar og ljósar fyrir það mat á frystihúsunum sem nú er verið að framkvæma, hvers eðlis það sé og hver er grundvöllur þess. Í trausti þess, að Nd. muni halda áfram því starfi sem hafið var í fjh.- og viðskn. þessarar d., og mér er fullkunnugt um að nm. í Nd. hafa fullan áhuga á því, hef ég ekki viljað leggjast gegn því, að málið væri afgreitt héðan, þótt ég hefði kosið að fjh.- og viðskn. hefði gefið sér lengri tíma og fengið upplýsingar um hina raunverulegu ákvarðanatöku sem liggur að baki ráðstöfun þessara fjármuna svo sem okkur var lofað.