14.12.1978
Efri deild: 29. fundur, 100. löggjafarþing.
Sjá dálk 1557 í B-deild Alþingistíðinda. (1066)

121. mál, framkvæmd eignarnáms

Flm. (Bragi Sigurjónsson):

Herra forseti. Við höfum leyft okkur, þm. Alþfl. þessari d., að flytja frv. til l. um breyt. á l. nr. 11 frá 6. apríl 1973, um framkvæmd eignarnáms.

Í áliti nefndarinnar, sem undirbjó lög nr. 11 1973, er að því vikið að nefndin hygðist semja sérstakt frv. til l. um fjárhæð bóta vegna eignarnáms fasteigna eða sameina slíkt því frv. til l. sem nefndin samdi. Af þessu hefur þó ekki orðið og er ætlunin sú með þessu frv. að bæta úr þessu.

Í áðurgreindu nefndaráliti voru talin ýmis vandkvæði á því að taka í lög ákvæði um fjárhæð eignarnámsbóta. Stafi það m.a. af því, að ákvæði 67. gr. stjórnarskrárinnar um „fullt verð“ setji slíkri löggjöf vissar óhagganlegar skorður. Þá sé ákvörðun eignarnámsbóta margþætt og flókið viðfangsefni sem naumast verði settar tæmandi reglur um, eða a.m.k. ekki reglur sem leiði sjálfkrafa til afdráttarlausrar niðurstöðu. Því virðist varla annað og meira koma til greina en að lögfesta vissar meginreglur um fjárhæð eignarnámsbóta. Með því frv., sem hér liggur fyrir, er lagt til að svo verði gert varðandi ákvörðun eignarnámsbóta þegar fasteign er tekin eignarnámi.

Við framkvæmd eignarnáms hér á landi hefur lengi gætt mikils misræmis varðandi túlkun ákvæðis 67. gr. stjórnarskrárinnar um „fullt verð“. Í lögum nr. 61 frá 1917, um framkvæmd eignarnáms, voru ákvæði þess efnis, að verð eignar skyldi miðast við gangverð, sem eignin hefði í kaupum og sölum. Í núgildandi lögum, nr. 11 1973, er hins vegar enga slíka viðmiðunarreglu að finna. Gamla reglan þótti orka tvímælis og var túlkun ákvæða um eignarnámsbætur á ýmsan veg í úrskurðum dómkvaddra matsmanna og er svo enn.

Eitt umdeildasta atriðið í sambandi við eignarnámsbætur er það, hvort taka skuli tillit til fyrirhugaðra nota lands, eftir að eignarnám hefur farið fram og eftir að eignarnemi hefur með skipulagi og síðari framkvæmdum breytt möguleikum til nýtingar þess. Margir eru þeirrar skoðunar, að eðlilegast sé að miða eignarnámsbætur við þá raunverulegu eða eðlilegu nýtingu sem eigandi hefur af landinu þegar til eignarnáms kemur.

Á móti þessu eru borin fram þau rök, að eigandi fasteignar, sem verður að þola eignarnám, verði lakar settur en nágranni hans, sem eigi land utan þess svæðis, en njóti hagræðis, t.d. af lagningu hraðbrautar, í hækkun verðs á landi sínu. Skattfrelsi ávinnings af slíkri verðhækkun lands, sem ekki stafar af aðgerðum eiganda, hefur styrkt þessa skoðun, það er skoðun flm. frv. þessa að lögfesta beri verðaukaskatt sem skattleggi ávinninginn í þessu tilviki til ríkissjóðs. Flm. telja ekki rétt að eigandi lands njóti ávinnings vegna framkvæmda, sem ætlunin er að ráðast í eftir að land hans hefur verið tekið eignarnámi, eða ávinnings vegna framkvæmda opinberra aðila í nágrenni við hann, án þess að hann hafi átt þar nokkurn hlut að máli.

Bent hefur verið á dæmi um óeðlilega niðurstöðu matsmanna við mat á verðmæti lands, t.d. í sambandi við þarfir sveitarfélaga vegna nauðsynlegrar vegagerðar, orkuvinnslu o.s.frv. Sveitarfélögin hafa m.a. talið á sig hallað í ýmsum tilvikum með úrskurðum matsmanna á eignarnámsbótum. Má um þetta atriði vísa til niðurlags grg., sem núv. formaður Sambands ísl. sveitarfélaga, Jón G. Tómasson, samdi að tilhlutan sambandsins og send var með tillögum þess til stjskrn. Alþingis hinn 29. jan. 1975.

Ég ætla að leyfa mér, með leyfi hæstv. forseta, að lesa kafla úr þessari grg. Jóns G. Tómassonar, þar eð ég tel að hún rökstyðji mjög vel þá nauðsyn að þetta frv. er borið fram. Hann segir svo m.a.

„67. gr. stjórnarskrárinnar kveður á um að við eignarnám skuli koma fullt verð fyrir. Ekki er þetta hugtak skýrt nánar í stjórnarskrá né heldur í lögum um framkvæmd eignarnáms nr. 11/1973. Í lögunum eru ekki heldur settar fram neinar leiðbeiningarreglur um hvernig meta skuli fjárhæð eignarnámsbóta. Í eldri lögum frá 1917 var hins vegar ákvæði þess efnis, að matsverð eignar skyldi miðast við gangverð sem eignin hefði í kaupum og sölum. Meðal fræðimanna var þetta ákvæði umdeilt, og var bent á að gangverð eignar þyrfti ekki alltaf að vera sama og fullt verð og lagareglan því tæpast í samræmi við ákvæði stjórnarskrárinnar. Nefndarmenn eru þeirrar skoðunar, að við eignarnám eigi eignarnámsþoli ekki að eiga tilkall til endurgreiðslu sem er miðuð við væntanleg eða fyrirhuguð not lands eftir að sveitarfélag hefur með skipulagi og síðari framkvæmdum breytt möguleikum til nýtingar þess, en þetta viðhorf hefur verið þungt á metum við verðlagningu samkv. matsgerðum. Nefndin telur hins vegar að miða beri eignarnámsbætur við þá raunverulegu eða eðlilegu nýtingu eiganda sem eigandi hefur af landinu þegar til eignarnáms kemur. Nauðsyn er að um þetta verði sett skýr löggjöf, og vekur nefndin þá athygli á að orðalag stjórnarskrár megi ekki útiloka að metnar verði sanngjarnar bætur og eftir þeim sjónarmiðum sem nú var lýst.

Í þessu sambandi er rétt að benda á að norsk lög frá 26. jan. 1973 kveða á nm bætur fyrir eignarnámstöku á fasteignum. Lögin setja fram eftirfarandi meginreglur til viðmiðunar:

1) Verðlagning miðast við notkun fasteignar þegar beiðni um eignarnám kemur fram.

2) Taka ber tillit til breytinga á notkun eignar, sem eðlilegt er að reikna með eftir aðstæðum á staðnum, en með hliðsjón af þeirri starfsemi eða þeim tilgangi sem notkun eignarinnar hefur verið tengd.

3) Ekki ber að taka tillit til möguleika á verðhækkun eignar í framtíðinni.

4) Ekki ber heldur að taka tillit til þess, þótt eignarnemi hefði viljað kaupa eignina hærra verði vegna sérstakra þarfa hans, ef eignarnámsheimild hefði ekki verið fyrir hendi.

5) Ekki ber að meta verðbreytingar, sem leiðir af tilgangi eða markmiði eignarnámstökunnar né heldur af framkvæmdum eða starfsemi, hvorki þegar gerðum eða fyrirhuguðum, sem eru í tengslum við eignarnámstökuna.

6) Heimilt er að taka tillit til þess, ef framangreindar reglur leiða til verulega lægra matsverðs á eign en almennt gildir um hliðstæðar eignir í héraðinu, og þá miðað við venjulega notkun þeirra með hliðsjón að reglum 1.–5. tölul. hér að framan. Í slíku tilviki ber ekki að taka tillit til verðhækkana sem stafa af framkvæmdum eða fyrirhuguðum áformum hins opinbera um notkun lands.

Með þeim takmörkunum, sem nú hefur verið greint frá, skulu eignarnámsbætur miðaðar við söluverðmæti eða notkunarverðmæti eignar. Í stjórnarskrá Noregs, 105. gr., er ákvæði um „fullt verð“ hliðstætt því sem er í 67. gr. stjórnarskrár Íslands. Mjög hefur því verið umdeilt í Noregi, hvort framangreindar reglur eignarnámslaganna frá 1973 séu í samræmi við ákvæði stjórnarskrárinnar, en ekki er vitað að á gildi laganna hafi enn reynt fyrir dómstólum.“

Síðan þessi grein var rituð hefur það gerst, að Hæstiréttur Noregs hefur fjallað um þetta mál, eins og segir í aths. við 1. gr. frv.:

„Þess skal getið, að Hæstiréttur Noregs hefur skorið úr því, að áðurnefnd lagaákvæði fari ekki í bága við ákvæði norsku stjórnarskrárinnar.“

Eins og menn munu sjá, sem lesa frv. og bera það saman við það sem ég hef nú sagt, er það sniðið mjög eftir norskum lögum um þetta atriði sem nú hefur reynt á fyrir dómstólum Noregs að samræmast 105. gr. stjórnarskrár þeirra, sem er nær eða alveg shlj. 67. gr. stjórnarskrár okkar. Það ætti þannig að vera nokkuð ljóst og öruggt, að hér er ekki verið að flytja frv. sem rekst að neinu leyti á 67. gr. stjórnarskrárinnar, en er flutt til þess að matsmenn og síðar dómendur hafi gleggri og skipulegri ákvæði eftir að fara í sambandi við mat á eignum, sem þarf að taka eignarnámi.

Ég vil geta þess fyrir þá n., sem kynni að skoða þetta mál vel, að ég hef í höndum ljósrit af héraðsdómi og síðar hæstaréttardómi Noregs um þetta mál og er fús til að ljá viðkomandi n. þau gögn til athugunar um leið og sú n., sem málið gengur til, fjallaði um það milli umr.

Ég hef ekki lengra mál um þetta frv., en legg til að að lokinni umr. verði því vísað til félmn., sem ég hygg að sé eðlilegt þar sem þetta mál hlýtur að snerta mjög mikið málefni sveitarfélaga.