14.12.1978
Efri deild: 29. fundur, 100. löggjafarþing.
Sjá dálk 1560 í B-deild Alþingistíðinda. (1068)

109. mál, takmörkun loðnuveiða

Flm. (Ágúst Einarsson):

Herra forseti. Ég hef leyft mér að bera fram á þskj. 120 svo hljóðandi þáltill.:

„Alþingi ályktar að fela ríkisstj. að beita sér fyrir að loðnuveiðar verði takmarkaðar á sumar- og haustvertíð vegna aukinnar slysahættu. Einkum verði afla- og hleðslutakmörkunum beitt á loðnuveiðiskip.“

Ég vil rökstyðja þessa tillögu í nokkrum orðum. Öryggismál sjómanna hafa verið mjög til umræðu í fjölmiðlum nú að undanförnu. Má þar minna á nýútkomna skýrslu sjóslysanefndar varðandi rek gúmbjörgunarbáta og þær umræður sem hafa spunnist um það mál. Einnig er ástæða til að nefna ályktanir sjómannasamtakanna nú síðustu daga um öryggis- og heilbrigðismál sjómanna um borð í skipum. Kröfur sjómannasamtakanna um öryggismál skiptast að meginefni í 4 þætti: Í fyrsta lagi er gerð krafa um að í öllum gúmbjörgunarbátum verði komið fyrir örbylgjusendum, sem mundi stórauka líkindi á björgun manna úr sjávarháska. Í öðru lagi eru gerðar sérstakar kröfur um öryggisloka við línu- og netavindur. Í þriðja lagi, að sérstakur öryggisútbúnaður verði við skut skipa til að afstýra því að sjómenn falli útbyrðis. Þess má geta, að eftir hörmulegt slys um borð í skuttogara fyrir nokkrum árum er skylda að sérstakur útbúnaður sé við hliðið fyrir ofan skutrennu á öllum nýsmíðum. Í fjórða lagi er gerð krafa af hálfu sjómannasamtakanna um bætta veðurþjónustu.

Undir þessa tillögu sjómannasamtakanna ber að taka. Þetta eru sjálfsagðar kröfur þeirra manna sem hætta lífi sínu við atvinnu sína.

Ég held að allir hv. deildarþm., sem unnið hafa á sjó, hafi oft undrast hversu fá slys eiga sér stað á fiskiskipaflotanum. Það er vart hægt að hugsa sér hættulegri vinnustað en um borð í fiskveiðiskipi. En sjómenn okkar eru best þjálfaða starfstétt landsins og kemur það einnig fram í slysatíðni á sjó.

En tilefni þessarar þáltill. eru öryggismál loðnuveiðisjómanna. Það er mat sjómanna, Siglingamálastofnunar svo og útgerðarmanna loðnuveiðiskipa, að það þurfi að grípa í taumana með bættri reglugerð varðandi sumar- og haustvertíð. Þó að talað sé í daglegu máli um sumar- og haustvertíð, þá er það nokkuð villandi. Það er ekkert sumar þar sem loðnuveiðiskipin eru á veiðum. Veiðisvæðið er norður í höfum, milli Íslands, Jan Mayen og Grænlands. Þetta er íshaf, kaldur sjór, mikið ísrek og mikil hætta á ísingu. Hefur oft áður verið bent á þá slysahættu sem skapast við þessar veiðar. Mér þykir sérstök ástæða til að vekja athygli hér á hinu háa Alþingi á þætti Hjálmars R. Bárðarsonar siglingamálastjóra í þessum málum. Hann hefur í áraraðir barist ötullega fyrir öryggismálum fiskveiðiflotans. Hjálmar ritaði fyrir skömmu grein um þessi mál, um hleðslu loðnuveiðiskipa, þar sem hann bendir á ýmis atriði. Þar segir hann m.a. með leyfi hæstv. forseta:

„Reynslan sýnir, að á loðnuveiðum nú eru skip hlaðin meira en gert er ráð fyrir við útreikninga á stöðugleika skipanna í hlöðnu ástandi. Ástæðan er að sjálfsögðu sú, að vegna samkeppninnar um aflamagn taka skipstjórnarmenn meiri áhættu en talin er hófleg af þeim sem meta stöðugleika. Þarna er um að ræða þrýsting sem hvílir á skipstjórnarmönnum að standa sig vel frá veiðisjónarmiði. Þótt það kunni að vera illa þokkað af sumum, þá er mér ekki grunlaust um að mörgum skipstjórnarmanni væri kært að þessum þrýstingi yrði að einhverju leyti létt af þeim með því að ákveðið væri með valdboði viss hámarkshleðsla hvers skips.“

Mér er einnig sérstök ánægja að geta þess hér, að Farmanna- og fiskimannasambandið hefur nýlega skipað þrjá menn, valinkunna skipstjórnarmenn, í nefnd til viðræðna við Siglingamálastofnun um bætt skipulag í þessum efnum. Vert er að geta þess hér, að hleðslutakmarkanir þær, sem í gildi eru, gilda vitanlega einnig fyrir loðnuveiðiflotann. Í reglugerð, sem er reyndar frá árinu 1963, segir svo, með leyfi hæstv. forseta: „Eigi má lesta skip dýpra en að efri brún þilfars við skipshlið.“

Nú er það svo, að reynsla undanfarinna ára hefur sýnt að það hefur gengið illa að framfylgja reglum um hleðslutakmarkanir skipa, og þá liggur beinast við að leita að öðrum leiðum til að ná þessu markmiði, sem ég tel að allir séu sammála um, að hleðsluhættunni verði takmörk sett.

Það er að mínu mati ekki óeðlilegt, að það verði unnið að því að ákvarða þann hámarksafla sem hvert skip megi koma með að landi. Einnig kemur í því sambandi vel til álita, að þessum takmörkunum verði beitt á ákveðnum tímum og ákveðnum svæðum. Það mætti hugsa sér að beita þessu á þeim tíma þegar veður eru hvað verst, og svæðaskipting hefur einnig marga kosti, þar sem kuldaskil í sjónum eru á ákveðnum svæðum og þegar komið er í heitari sjó hér norðvestur af landinu er ekki eins mikil hætta á ísingu, sem er það hættulegasta við þessar veiðar.

Einnig er vert að vekja athygli á hleðslu loðnuveiðiskipa hvað varðar hleðslu framan í skipum, sérstaklega þegar mannaíbúðir eru frammí, þá getur verið mikið hættuspil að hlaða skipin mikið fram úr. Að mínu áliti kæmi einnig til greina að kanna hvort setja eigi loðnuveiðibann á smæstu skip á hættulegustu tímum og svæðum. Nú er það svo, að á sumar- og haustvertíð og reyndar á vetrarvertíð líka eru smærri bátar allt niður í 200–300 tonna báta, á þessum veiðum, og gæti komið til álita að setja einhverjar stærðartakmarkanir á báta, a.m.k. þá sem veiða á sumar- og haustvertíð. Á vetrarvertíð er hættan mun minni, þar sem veiðisvæðið er nær landi, a.m.k. þegar komið er fram í byrjun febrúarmánaðar. Þó álít ég að farsælast yrði að takmarka afla á hvert skip í hverri veiðiferð fyrir sig. Það yrði tiltölulega auðvelt að hafa eftirlit með því. Ef sú leið yrði farin, þá yrði að kanna hvert skip fyrir sig og ákvarða hámarkshleðslu út frá því. Það þarf varla að nefna það hér, að óyfirbyggð skip hafa ýmsa sérstöðu sem taka verður tillit til, en það Ég hef það eftir sjómönnum, sem hafa stundað haustog sumarveiðarnar þarna norður frá, að bátarnir séu yfirleitt, þegar afla gefur, hlaðnir langt umfram það sem hæfilegt er. Má hver sem vill lá aflaskipstjórunum okkar það eða ásaka sjómennina fyrir það að hlaða vel þegar afla gefur. Það hefur alltaf fylgt þessu starfi, í fyrsta lagi mun vera almennt mat, að yfirbyggð skip eru betur í stakk búin að stunda veiðar við erfið skilyrði.

Varðandi þá tillögu að setja hámarksafla á hvert skip í hverri veiðiferð, þá kemur aðvitað alltaf fyrir að einhver umframafli komi óviljandi og jafnvel viljandi, sem yrði gerður upptækur, eins og við þekkjum dæmi um í sambandi við fyrri þorskveiðibönn og síldveiðibönn og fleiri veiðitakmarkanir. Í sambandi við þennan upptekna afla þykir mér sérstök ástæða að vekja athygli á hugmynd Hjálmars R. Bárðarsonar um að aflaverðmæti þess umframafla, sem að landi bærist og yrði gerður upptækur, rynni í Ekknasjóð drukknaðra sjómanna. Ég álit að þessi hugmynd sé mjög góð, og ef sú leið yrði farin, sem ég er að rekja, mundi ég mæla með því, að þessi leið yrði farin, frekar en það sem nú er gert, að aflaverðmæti upptæks afla er látið renna í ríkissjóð, einmitt að láta þennan umframafla renna í Ekknasjóð drukknaðra sjómanna. Það tengir þetta mál því markmiði, sem við erum að reyna að ná með þessum takmörkunum, að bjarga mannslífum.

Mér þykir einnig ástæða til að vekja athygli á nauðsyn þess, að varðskip sé haft hjá loðnuveiðiflotanum þegar skilyrði veiðanna eru vægast sagt mjög erfið. Þetta er mjög mikilvægt atriði sem tengist bæði öryggissjónarmiðum og almennri þjónustu við loðnuveiðiflotann. Það er að mínu mati ekki óeðlilegt, að þarna sé varðskip tímabundið eða eftir því sem best á við bundið við loðnuveiðiflotann. Satt að segja höfum við á undanförnum árum verið mjög aftarlega í þeirri þróun að láta stærri skip fylgja fiskveiðiflota okkar. Þar sem loðnuflotinn eða togaraflotinn veiðir yfirleitt á sömu slóðum og mörg skip eru í hnapp yrði þetta til mikilla bóta fyrir sjómenn og útgerð landsmanna, ef af yrði.

Ég vil að lokum vekja athygli á því, að það er raunhæfur möguleiki að það komi snöggleg ísing, sem er algeng við veiðar í norðurhöfum þar sem loðnuveiðibátarnir eru að veiðum, og þá er mikil hætta á því, að ekki einn, heldur fleiri loðnuveiðibátar farist á einni nóttu. Þetta þýddi stórslys sem gæti kostað tugi manna lífið. Við skulum ekki bíða eftir slíkum stórslysum. Það er því von mín, að allir aðilar sem hér eiga hlut að máli, sjómenn, Siglingamálastofnun, útgerðarmenn og hv. alþm., beri gæfu til þess að stuðla að minnkun þessarar miklu slysahættu sem ég hef hér lýst.

Ég vil að lokum, hæstv. forseti, leyfa mér að gera tillögu um að þessari þáltill. verði að lokinni þessari umr. vísað til hv. sjútvn.