14.12.1978
Efri deild: 29. fundur, 100. löggjafarþing.
Sjá dálk 1562 í B-deild Alþingistíðinda. (1069)

109. mál, takmörkun loðnuveiða

Stefán Jónsson:

Herra forseti. Að minni vitund er það vafalaust að þakka ber hv. þm. Ágúst Einarssyni fyrir það mál sem hann hefur hér reifað og lagt fram. Að vísu er ég ekki persónulega kunnugur loðnuveiðunum þarna á norðurslóð, þar sem við nú stundum þær á haust- og sumarvertíð, en nógu kunnugur þó persónulega síldveiðunum og hleðslu síldarbátanna frá því í gamla daga, og hér er um samsvarandi tæknilegt vandamál að ræða í sambandi við fermingu eða hleðslu þessara veiðiskipa okkar.

Ákveðin gleði, ákveðið kapp, sem gerir það að verkum að menn taka það sem báturinn ber, og svo eru ákaflega mikil verðmæti í húfi. En hér er um svo langa siglingarleið að ræða frá hinum nyrstu miðum og til hafnar á Íslandi, að gert getur mörg veður slæm á þeirri siglingu, og eins og hv. flm. og frsm. sagði, þá er sjórinn þarna kaldur, ekki bara að haustinu, heldur einnig að sumrinu, þannig að dæmi eru um ísingu á þessari fiskislóð að sumri til. Ég hef það eftir fiskiskipstjóra, sem þarna hefur stundað veiðar nú í þrjú ár, að skip hans hafi ísað undir ágústlok á siglingu frá Jan Mayen-slóðinni og upp til Siglufjarðar með fullfermi.

Ég hygg að hv. flm. hafi alls ekki ýkt hættuna sem sjómenn okkar eru í á þessum slóðum, þar sem vissulega er hugsanlegt að farist geti fleiri skip en eitt og fleiri en tvö og allur sá floti sem við höfum þarna úti í slæmu veðri á þessari slóð er í hættu með áhöfnum. Ég felli mig vel við hugmyndina um það, að gefið verði formlegt leyfi á hvert skip fyrir því sem því er leyfilegt að flytja til hafnar á veiðunum þarna norður frá. Væri þá hugsanlegt að heimildirnar eða leyfin, sem út yrðu gefin, yrðu miðuð við svæði hverju sinni þannig að annað gildi á vetrarveiðunum þegar loðnan er komin upp á grunnslóð fyrir Austfjörðunum og hér fyrir Suðurlandinu og stutt til hafnar þannig að hættan, sem liggur í því, hversu langt er til hafnar, sé þó a.m.k. miklu minni með tilliti til þess, hvernig veðurspárnar eru hjá okkur.

Ég tók nú til máls um þessa till. til þál. e.t.v. fyrst og fremst vegna þess, að mig langaði að rifja upp till. sem fram kom af hálfu íslensks hugvitsmanns og áhugamanns um þessi mál í lok síðasta stóra síldveiðitímabilsins hjá okkur í kringum 1962, þegar Gísli heitinn Halldórsson verkfræðingur hafði teiknað og raunar látið hanna nælonhvali, sem hann kallaði, sem hann ætlaðist til að síldveiðiskipin hefðu með þarna norður eftir og dældu í aflanum og síðan yrðu dráttarbátar látnir draga þá til lands. Þá voru skipin smærri en nú tíðkast og farmar smærri sem fluttir voru til lands. Mig minnir að þessar nælonslöngur í hvalslíki, sem hann hafði falið Du Pontverksmiðjununum amerísku að útbúa í tilraunaskyni, hafi átt að taka frá 300 og upp í 1500 tonn af síld. Ætlunin var síðan að síldveiðiskipin okkar eða veiðiskipin okkar, sem hann sagði að væru allt of dýr tæki til þess að standa í „transporti“ á fiski norðan úr höfum, hefðu þessi ílát með sér merkt hverju skipi og verksmiðjurnar önnuðust síðan að safna þeim saman og koma til lands á sína ábyrgð, en keyptu úti á miðunum.

Það var nú svo með þessa hugmynd Gísla heitins Halldórssonar, að henni var tekið fagnandi, man ég var, af hálfu útgerðarmanna sem ræddu hana glaðlega sín í milli, en flestir létu það þó fylgja með, að þessu yrði náttúrlega aldrei í verk komið. Þó man ég eftir því, að einn íslenskur útgerðarmaður spáði öðruvísi fyrir þessari hugmynd Gísla. Það var Einar Sigurðsson. Hann lagði að mönnum að taka þessa hugmynd til alvarlegrar athugunar, vegna þess að hér yrði e.t.v. hægt að leysa á einfaldan hátt mjög svo þýðingarmikið efnahagslegt atriði í sambandi við afla á bræðslufiski af fjarlægum miðum.

Ég er næstum því alveg viss um að við munum ekki geta fengið til fiskveiða þarna á norðurslóð svo stór skip eða svo sterk að þeim geti ekki orðið hætta búin í vondum veðrum á siglingu til hafnar á Íslandi og að það er full nauðsyn að kveða á um það í lögum, hvaða öryggisráðstafanir skuli viðhafðar í sambandi við veiðar á loðnu þarna norður frá.

Herra forseti. Ég ætlaði ekki að ræða þetta mál frekar, en endurtek aðeins þakklæti mitt til hv. þm. Ágústs Einarssonar fyrir að hafa reifað þetta mál hér á þingi.