14.12.1978
Efri deild: 29. fundur, 100. löggjafarþing.
Sjá dálk 1564 í B-deild Alþingistíðinda. (1070)

109. mál, takmörkun loðnuveiða

Alexander Stefánsson:

Herra forseti. Ég vil aðeins standa hér upp og taka undir með síðasta ræðumanni og þakka flm. fyrir þessa till. til þál. Hér er hreyft máli sem hefur verið mikið til umr. meðal manna og allir virðast sammála um að eitthvað þurfi að gera. Þess vegna tek ég undir það, að hér er hreyft máli á réttan hátt, og ég vonast til að það verði til þess, að eitthvað verði farið að gera raunhæft í þessu þýðingarmikla öryggismáli fyrir sjómannastéttina.

Ég vil einnig taka undir þá hugmynd, sem kom fram í framsögu hv. flm., að sá afli, sem yrði gerður upptækur miðað við ákveðnar reglur, yrði lagður í sérstakan sjóð til styrktar ekkjum sjómanna. Þetta er mjög athyglisverð hugmynd sem ég vil taka undir og vænti að yrði fylgt eftir þegar að því kæmi, að settar yrðu reglur um það, svo að þessi hugmynd gæti orðið að veruleika, þó við náttúrlega viljum allir að þessar aðgerðir verði til þess, að ekki þurfi að gera upptækan afla.