14.12.1978
Neðri deild: 32. fundur, 100. löggjafarþing.
Sjá dálk 1565 í B-deild Alþingistíðinda. (1078)

136. mál, Iðntæknistofnun Íslands

Iðnrh. (Hjörleifur Guttormsson):

Herra forseti. Við það frv., sem hér er til umr., er litlu að bæta umfram það sem segir í aths. frv.

Með frv. er gert ráð fyrir að ákvæði til bráðabirgða í lögum nr. 41 frá 1978, um Iðntæknistofnun Íslands, þess efnis, að iðnaðargjald, sem samkv. lögum nr. 64/1965 skal renna til stofnunarinnar, verði framlengt um eitt ár. Hefur iðnaðargjaldið verið 2% af kaupi verkafólks og fagmanna hjá iðnfyrirtækjum. Er gert ráð fyrir að það verði óbreytt frá því sem verið hefur.

Ráð hafði verið fyrir því gert, að í stað gjaldtöku iðnaðargjalds frá og með næstu áramótum kæmi bein fjárveiting í fjárlögum. Vegna erfiðrar fjárhagsstöðu ríkissjóðs er í fjárlagafrv. fyrir árið 1979 hins vegar ekki gert ráð fyrir því, heldur er tekjum af jöfnunargjaldi samkv. lögum nr. 83 1978 ætlað að standa undir niðurfellingu iðnaðargjaldsins auk kostnaðarhækkana að hluta við rekstur stofnunarinnar milli ára. Segja verður, að sú var aldrei ætlunin með jöfnunargjaldinu, þótt gert hafi verið ráð fyrir að Iðntæknistofnunin kynni að njóta tekna af því til nýrra viðfangsefna. Til þess að koma í veg fyrir að áhrif jöfnunargjaldsins til eflingar iðnþróunar verði þannig stórlega skert með því að það sé notað til þess að borga niður fyrir ríkissjóð kostnað af starfsemi sem þegar er í gangi, er óhjákvæmilegt að mínu mati að framlengja ákvæði 45. gr. laga nr. 64/1965 um eitt ár.

Ég sé ekki ástæðu til að orðlengja þetta frekar og er það till. mín, að að lokinni þessari umr. verði frv. vísað til hv. iðnn.