14.12.1978
Neðri deild: 32. fundur, 100. löggjafarþing.
Sjá dálk 1566 í B-deild Alþingistíðinda. (1082)

39. mál, kjaramál

Frsm. meiri hl. (Lúðvík Jósepsson):

Herra forseti. Hér er um að ræða frv. til staðfestingar á brbl. Fjh.- og viðskn. Nd. varð ekki sammála um afgreiðslu þessa máls. Álit meiri hl. er á þskj. 161, og brtt., sem sá meiri hl. flytur við frv., er hins vegar að finna á þskj. 162.

Hér er um að ræða staðfestingu á brbl. sem sett voru rétt eftir að núv. hæstv. ríkisstj. tók við völdum í septembermánuði. Hér er á ferðinni löggjöf sem grípur inn á allmörg svið. Fyrstu þrír kaflar þessa frv. fjalla um kjarasamninga, greiðslur verðbóta á laun, bætur almannatrygginga og niðurfærslu verðlags og nokkuð um verðlagseftirlit. Þessir þrír kaflar frv. hafa í rauninni allir þegar verið í framkvæmd og um þá hafa þegar staðið hér á hv. Alþ. allmiklar umr. Ég sé nú ekki þörf á því að auka við þá umr. varðandi þessa þrjá kafla, enda flytur meiri hl. n. engar brtt. við þessa kafla.

IV. kafli frv. fjallar hins vegar um nýja skattlagningu og við þann kafla höfðu komið fram nokkrar brtt. Meiri hl. n. gerir brtt. við þann kafla. Það er því rétt að skýra nokkru nánar frá því, hvaða breytingar hér eru á ferðinni og hvaða upplýsingar hafa komið fram í fjh.- og viðskn. varðandi þennan kafla frv. sem snýr að þessari skattlagningu. Í fyrsta lagi er um að ræða skattgjald samkv. 8. gr. frv., en þar er um svonefndan eignarskattsauka að ræða. Hann var þannig, að ákveðið var að leggja á eignarskatt einstaklinga 50% viðbótargjald og á eignarskatt félaga 100% viðbótargjald. Till. höfðu komið fram um að gera þá breytingu á þessari skattlagningu að létta þessi gjöld eða afnema þau með öllu á þeim einstaklingum sem eru komnir á ellilaunaaldur.

Hv. þm. Matthías Bjarnason flutti á þskj. 52 till. til breytinga á þessari grein og lagði þar til að þessi eignarskattsviðauki skyldi ekki innheimtur af þeim sem væru orðnir 67 ára gamlir fyrir 1. jan. 1978. Þær upplýsingar komu fram í n., að samþykkt á þessari till. mundi jafngilda því að 2006 einstaklingar slyppu við að greiða þennan skatt og skattalækkunin samkv. till. næmi þá fyrir þá, sem eru orðnir 67 ára að aldri eða meir, 84.8 millj. kr.

Þá hafði einnig komið fram brtt. við þessa gömlu grein frá hv. þm. Jóhönnu Sigurðardóttur. Sú brtt. er á þskj. 57. Þar er gert ráð fyrir að þessi eignarskattsauki sé lækkaður á þeim sem eru með lágar tekjur. Sem sagt, eignarskatturinn er í því tilfelli tengdur við framtaldar tekjur viðkomandi aðila. Þær upplýsingar, sem fram komu í n. varðandi þessa till., voru þær, að þessi eignarskattsauki mundi í reynd lækka við samþykkt hennar um 41.1 millj. kr. og skiptast þannig, að lækkunin væri 15.5 millj. á hjón og 25.6 millj. á einstaklinga, lækkunin samtals 41.1 millj. Þær upplýsingar voru einnig gefnar, að með samþykkt þessarar till. mundi eignarskattsaukinn lækka um u.þ.b. 17.9 millj. kr. á þeim sem væru 67 ára og eldri, vegna þess að þessi till. var ekki einvörðungu miðuð við þá, sem eru 67 ára og eldri, heldur alla þá, sem eru tekjulágir.

Þá hafði einnig komið fram brtt., sem snertir þessa grein, frá hv. þm. Albert Guðmundssyni, en brtt. hans er á þskj. 53. Sú brtt. er allmiklu víðtækari en hinar, því að hún gerir í rauninni ráð fyrir að þeim sköttum, sem hér er um að ræða, ekki aðeins í 8. gr., heldur öðrum greinum frv., verði öllum breytt í skyldusparnað og verði í formi skyldusparnaðar. Á þessa till. gat meiri hl. n. ekki fallist.

Þá kom fram í n. till., sem n. barst í rauninni frá fjmrh. varðandi þessa grein, um að svonefnd skattleysismörk varðandi eignarskattinn, sem eru nú þannig að einstaklingur má eiga 8 millj. kr. skuldlausar áður en hann kemur til með að borga eignarskatt og hjón mega eiga 12 millj. kr. skuldlaust áður en kemur til skattlagningar, yrðu hækkuð sem nemur 50%, eða að einstaklingurinn mætti eiga sem skuldlausa eign 12 millj. kr. og hjón 18 millj. kr. Það var upplýst, að samþykkt slíkrar till. mundi leiða til lækkunar á þessum skatti sem næmi í kringum 35 millj. kr., ef þessi skattalækkun væri einvörðungu bundin við þá sem eru orðnir 67 ára eða eldri og öryrkja. Meiri hl. n. tók upp þessa till. og hana er að finna sem fyrstu till. meiri hl. n. á þskj. 162. En sú till. er þannig:

„Við 8. gr. frv. bætist ný mgr. er verði 2. mgr. og orðist svo:

Hjá þeim mönnum, sem náð höfðu 67 ára aldri fyrir 1. jan. 1978 eða áttu rétt til örorkulífeyris á árinu 1977, skal álagður eignarskattsauki samkv. a-lið 1. mgr. lækkaður um 16 þús. kr. hjá einstakling og um 24 þús. kr. hjá hjónum.“

Þetta jafngildir því sem ég var að lýsa, að skattleysismörkin væru færð upp varðandi eign. Samþykkt þessarar till. mundi þýða það, að þessi eignarskattsauki lækkaði sem sagt um 35 millj. kr. hjá þessum aðilum. En alls er skatturinn hjá þeim, sem eru orðnir 67 ára og eldri, 84.8 millj. kr. Það ber að geta þess, að upplýsingar voru gefnar um það, að af þessum skatti þeirra, sem orðnir eru 67 ára og eldri, er allmikill hluti hjá þeim sem eiga allmiklar eignir og hafa býsna drjúgar tekjur, þó að þeir séu orðnir 67 ára eða eldri. Þannig vorum við upplýstir um, að af þessum 2006 aðilum greiddu 155 einstaklingar 35.7 millj. af heildarskattinum, 84.8 millj.

Með þessu hef ég gert grein fyrir því, hvaða afstöðu meiri hl. n. tók varðandi skattlagningu samkv. 8. gr., um eignarskattsaukann. N. leggur sem sagt til að gerð verði nokkur breyting á greininni í samræmi við það sem ég hef hér lýst, þ.e.a.s. skatturinn verði lækkaður hjá þeim sem eru komnir á eftir- og ellilaunaaldur eða eru öryrkjar.

Þá er í þessum kafla frv. einnig um skattlagningu að ræða, þar sem er hækkun á tekjuskatti á hærri tekjum einstaklinga og einnig hækkun á tekjuskatti í atvinnurekstri. Það er samkv. 9. og 10. gr. frv. Þar gerir n. till. um nokkrar breytingar. Þær breytingar, sem er að finna á þskj. 162 frá n. varðandi 9. gr. og eins varðandi 10. gr., eru fyrst og fremst um að færa orðalag laganna til fulls samræmis við það sem ákveðið hafði verið í reglugerð við setningu brbl. Í rauninni er þarna ekki um efnisbreytingu að ræða frá því sem framkvæmt hefur verið varðandi þessa skattlagningu, heldur á að taka þarna af allan vafa um það, að lögin og reglugerðin fari saman í þessum efnum.

Eina efnisbreytingu gerir þó n. varðandi 10. gr. frv., en þar leggur n. til að ákveðið verði að fella niður skatt samkv. þessari grein sé skatturinn undir 15 þús. kr. Þar er fyrst og fremst um að ræða hinn svonefnda fyrningarskatt, þar sem fyrningarupphæðum á framtali er breytt og þær reiknaðar síðan sem tekjur til viðbótar við áður framtaldar tekjur. Þær hafa leitt til þess, að ýmsir aðilar, sem virðast ekki hafa ýkjamiklar tekjur, lenda í talsverðum skatti. Það er t.d. mjög áberandi, að bændur landsins lenda í þessum skatti mjög margir. Þegar fyrningarnar eru teknar út af rekstrarframtölum þeirra, þá hækka tekjur einstaklinganna allverulega og þeir lenda því allmargir í þessum skatti. Sama er að segja um bifreiðarstjóra. Þeir njóta einnig allmikilla fyrningarafskrifta, og þegar tekjur þeirra hafa verið hækkaðar í samræmi við þessi brbl. sem fyrningunum nemur, þá er það mjög áberandi hvað skatturinn leggst mikið á bifreiðarstjóra eða eigendur bifreiða. N. vildi mæta þeim aths., sem fram höfðu komið varðandi þetta atriði, með þessari breytingu, sem er um að fella niður skatt samkv. þessari grein sem er undir 15 þús. kr. Talið er að þetta leiði til þess að skattur samkv. þessari grein muni lækka um u.þ.b. 23 millj. kr., en hins vegar falli út úr skattgreiðslunni um 2400 aðilar. Ég tel mjög líklegt að það yrði allmikið um að þeir, sem þarna ættu hlut að máli, væru bændur og eins bifreiðaeigendur, en fleiri geta vissulega fallið undir þetta ákvæði.

Aðrar efnisbreytingar er í rauninni ekki að finna í till. meiri hl. fjh.- og viðskn. Þessar eru þær helstu sem ég hef þegar gert grein fyrir.

Ég sé ekki ástæðu til þess að taka upp almennar umr. um þessi mál, þau hafa öll verið rædd svo mikið áður. Það væri þá kannske aðeins að gera grein fyrir því til frekari skýringar, vegna þess að það er einkum skatthluti þessa frv. sem hefur verið til umr., að samkv. þessari skatttöku má gera ráð fyrir að verði þessi skattur innheimtur á næsta ári í því formi sem hér er gert ráð fyrir, þá muni eignarskattsaukinn með 50% álagi hjá einstaklingum nema í kringum 630 millj, kr. og eignarskattsviðaukinn hjá félögum sem er 100%, um 1250 millj. kr. Sérstakur skattur á háar tekjur einstaklinga er talið að muni nema um 600 millj. kr. og hinn svonefndi fyrningarskattur mundi nema á heilu ári um 1700 millj. kr. Breytingarnar á hinu tímabundna vörugjaldi, sú breyting að hækka vörugjaldið upp í 30% á þar tilgreindum vöruflokkum, mundi gefa um 1700 millj. kr. á heilu ári. Þá er gert ráð fyrir að gjald vegna ferðalaga til útlanda samkv. 17. gr. frv. mundi gefa á næsta ári, ef framlengt yrði, um 1600 millj. kr. Þau nýju gjöld, sem felast í þessu frv., og hér er um gjald á heilu ári að ræða, mundu nema um 7480 millj. kr. En þó ég hafi nefnt þessi gjöld á ársgrundvelli fela þessi brbl. ekki í sér ákvörðun um að öll þessi gjöld verði framlengd allt næsta ár, þó að um það hafi verið rætt að það verði gert eða jafngildi þess, e.t.v. í öðru formi.

Ég hef þá gert grein fyrir afstöðu meiri hl, fjh.- og viðskn. til frv. Hún mælir með samþykkt frv. með þeim breytingum sem ég hef gert grein fyrir og meiri hl. n. flytur á þskj. 162.