14.12.1978
Neðri deild: 32. fundur, 100. löggjafarþing.
Sjá dálk 1569 í B-deild Alþingistíðinda. (1083)

39. mál, kjaramál

Frsm. minni hl. (Ólafur G. Einarsson):

Herra forseti. Ég geri grein fyrir afstöðu minni hl. fjh.- og viðskn. Því miður hefur nál. ekki verið útbýtt í hv. þd., en ég vona að það komi ekki að sök. Ég mun þá reyna að gera ítarlegri grein fyrir afstöðu minni hl., fulltrúa Sjálfstfl. í fjh.- og viðskn., en ella.

Þetta frv. er flutt til staðfestingar á shlj. brbl. frá 8. sept. s.l. Eins og fram hefur komið varð n. ekki sammála um afgreiðslu frv. Fulltrúar stjórnarflokkanna leggja til að frv. verði samþ. með smávægilegum breytingum, en við fulltrúar Sjálfstfl. leggjum til að frv. verði fellt.

Aðaleinkenni þessara brbl. og frv. er að það, sem rétt er með annarri hendinni, er tekið aftur með hinni. Með því telur ríkisstj. að stuðlað sé að tekjujöfnun í þjóðfélaginu og efnahagsvandinn leystur í bráð. Að vissu marki má á þetta fallast. Tekjujöfnunin er þó mest sjónhverfing, leikur með vísitölu, þar sem beitt er vafasömum aðferðum, svo að ekki sé fastar að orði kveðið. Sá árangur, sem kann að nást í baráttunni við verðbólguna til áramóta, veldur auknum vanda þegar til lengri tíma er litið. Neysla er örvuð á kostnað sparnaðar, dregið er úr vinnuvilja með hækkun tekjuskatts, siðferði látið fyrir róða með afturvirkum álögum. Niðurgreiðslur eru auknar á nokkrum landbúnaðarafurðum, það brenglar enn framleiðslutilhögun milli búgreina og gagnvart öðrum atvinnuvegum og hvetur til enn meiri umframframleiðslu í landbúnaði. Vísir er kominn að margföldu gengi.

Með ákvæðum fyrsta kafla frv. telur ríkisstj. að kjarasamningar frá 1977 hafi tekið gildi. Ýmsir fylgjendur stjórnarinnar í verkalýðshreyfingunni virðast trúa þessu líka, og þeir reyna að telja umbjóðendum sínum trú um það sama. Verðbætur á laun eru þó beinlínis skertar með ákvæðum 2. gr. frv. og skerðingin getur orðið meiri en samkv. fyrri lögum. Ekki er heldur unnt að segja að kjarasamningar séu látnir gilda til fulls, þar sem kauphækkunin nær ekki aftur til 1. mars s.l. Hópur launþega lendir bæði í skertum verðbótum og tekjuskattsauka. Aðgerðir sem þessar fela að sjálfsögðu í sér afskipti af launasamningum þar sem um kaup og kjör er samið með hliðsjón af gildandi skattareglum.

Afnám sölugjalds á ýmsum matvörum er vissulega áhrifarík leið til lækkunar verðs á vísitöluvörum, en hún er kostnaðarsöm fyrir ríkissjóð. Með þessu móti má hamla gegn verðhækkunum um skeið, einkum þegar svo er staðið að verki sem hér er gert, að þær vörur sumar hverjar, sem í vísitölunni eru, fást ekki við því verði sem þar er skráð. Þetta á ekki einungis við hið fræga „kjarabótakjöt“. Í þessu sambandi verður að leggja áherslu á að allir sérfræðingar í skattamálum hafa varað við auknum undanþágum í söluskatti vegna erfiðleika á framkvæmd og innheimtu og vaxandi hættu á undanskoti frá greiðslu.

Í grg. um virðisaukaskatt, sem unnin var á vegum fyrrv. ríkisstj., er rækilega tekið fram, að nauðsyn beri til að fækka undanþágum ef virðisaukaskattur yrði tekinn upp. Aukningu undanþága verður því að túlka á þann veg, að virðisaukaskattur sé enn fjarlægari en áður og núv. ríkisstj. hafi ekki áhuga á að taka hann upp eða hafi ekki í hyggju að gera það.

Hækkun eignarskatts lendir fyrst og fremst á þeim sem eiga skuldlausar eða skuldlitlar fasteignir, því að eignarmyndun hér á landi er mest í mynd fasteigna. Af því leiðir jafnframt að eignarskattsaukinn lendir þungt á eldra fólki sem á skuldlausar fasteignir. Einnig lendir þessi eignarskattsauki með miklum þunga á þeim sem þurfa að eiga miklar fasteignir og vélar við framleiðslu sína.

Samkv. ákvæðum frv. er lagður helmingi hærri eignarskattsauki á félög en einstaklinga, en það hefur í för með sér stórfellda mismunun eftir rekstrarformi fyrirtækja. Fráleitt er að fyrirtæki greiði mismunandi skatt eftir því hvort þau eru skráð sem hlutafélög eða eru á nafni einstaklinga.

Á síðasta þingi voru samþykkt ný skattalög. Þar var haft að leiðarljósi, að ekki yrði um afturvirkni skattlagningar að ræða. Með athöfnum núv. ríkisstj. er hins vegar snúið við blaði. Úr því verður skorið, hvort lagasetning sem þessi fær staðist. Það verður fróðlegt að fylgjast með hversu ljúflega einstakir þm. stjórnarflokkanna rétta upp hendur með þessum ákvæðum frv.

Sérstakur 6% skattur er lagður á atvinnurekstur með því að skerða afskriftir. Þessi skattur er ekki frádráttarbær frá tekjum. Hann kemur því eins út fyrir fyrirtæki og lagður væri sérstakur skattur á vörunotkun og vinnuaflsnotkun. Frá afkomusjónarmiði fyrirtækisins skiptir ekki máli hver af þessum leiðum er farin. Skatturinn ræðst af því, hvernig fyrirtæki hafa talið fram, þar sem nýting afskriftaheimilda ræðst iðulega af afkomu fyrirtækjanna.

Með því að tvískipta vörugjaldi er í reynd gerð tilraun til að flokka vöru eftir því hvort um munaðarvöru er að ræða eða nauðsynjavarning. Þetta er eitt af því varhugaverðasta í afskiptum stjórnmálamanna af frjálsu neysluvali einstaklinga, þ.e. að segja þeim hvað sé nauðsynjavara og hvað munaðarvara. Ríkisstj. tekur sér vald til að segja hvað sé gott og hvað sé slæmt. Árangurinn lýsir sér m.a. í því, að skriffæri, hreinlætisvörur ýmsar og tæki til tónlistariðkana eru talin munaður. Á sama tíma er ríkisvaldið að efla tónmennt og greiða tannviðgerðir barna af almannafé. En þetta á víst að bæta lífskjörin. Ríkisstj. gæti eins sagt: Hættið að leika á hljóðfæri og hættið að skrifa, borðið meira kjöt og smjör og þá munu lífskjörin batna.

Tekið er upp tvöfalt gengi með 10% gjaldi á andvirði yfirfærslu fyrir dvalarkostnaði erlendis. Þetta er gert í blóra við yfirlýsingar gagnvart alþjóðastofnunum.

Ákvæðið um hið tvöfalda gengi á að gilda til ársloka 1979.

Afgreiðsla þessa frv. hefur dregist nægilega lengi til þess að sönnun hefur fengist fyrir því, að brbl., sem nú er leitað staðfestingar á, bættu enn á efnahagsvandann. Þetta sýnir þróunin, sem varð til 1. des. s.l., og þær ráðstafanir, sem þegar hefur verið gripið til. Ég hygg að segja megi að undrun ríkisstj. hafi orðið meiri en annarra, hve verðbólgan varð miklu meiri í nóv. en reiknað hafði verið með. Það segir einnig sína sögu um úrræðaleysi ríkisstj., að um leið og rætt er þetta frv. og frv, til fjárl. fyrir árið 1979 hafa verið samþ. lög um ráðstafanir 1. des. s.l. þar sem eitt rekur sig á annars horn í forsendum um þróun kaupgjalds og verðlags.

Brtt. meiri hl. n. skipta í sjálfu sér engu máli. Þær eru lítilvægar, en þó til bóta. Við leggjum til í minni hl., að brtt. hv. þm. Matthíasar Bjarnasonar á þskj. 52 verði samþ. Verði svo gert mun eignarskattsauki á þá, sem orðnir eru 67 ára, lækka um tæpar 85 millj. kr., eins og kom fram hjá hv. frsm. meiri hl. Till. hv. þm. Jóhönnu Sigurðardóttur um breytingu á sömu grein gengur of skammt. Sú till. er tengd við tekjur manna og þá ekki eingöngu þeirra sem orðnir eru 67 ára. Till. felur í sér lækkun eignarskattsauka um rúmlega 41 millj. kr., eftir því sem upplýsingar bárust n., en aðeins 18 millj. af því eru hjá þeim sem orðnir eru 67 ára. Till. meiri hl. um breytingu á 8. gr. þýðir hins vegar lækkun um 35 millj. Við tökum fram í minni hl. n., að ef meiri hl. er fyrir því í hv, þd. að afla þeirra tekna, sem hér er stofnað til, þá sé skynsamlegra að gera það með skyldusparnaði, og þess vegna mælum við með að till. á þskj. 53. frá hv. þm. Albert Guðmundssyni verði samþykkt.

Herra forseti. Ég þarf ekki að hafa miklu fleiri orð um þetta mál. Hin óraunhæfu kosningaloforð stjórnarflokkanna frá s.l. vori eru ein meginorsök þess vanda sem nú er glímt við. Það fer best á því, að stjórnarflokkarnir leysi sjálfir þá hnúta sem þeir hafa bundið.