14.12.1978
Neðri deild: 32. fundur, 100. löggjafarþing.
Sjá dálk 1571 í B-deild Alþingistíðinda. (1084)

39. mál, kjaramál

Albert Guðmundsson:

Herra forseti. Frsm. meiri hl. hv. fjh.- og viðskn. þessarar hv. d. hefur nú mælt með samþykkt þessa frv. til l. um kjaramál lítið breytt frá því að það var lagt fram af hæstv. ríkisstj. Ég hef flutt brtt. við þetta slæma frv., sem meiri hl. hv. n. hefur ekki séð sér fært að taka til greina, en brtt. mínar voru tilraun til þess að breyta eignarskattsauka og tekjuskattsauka í skyldusparnað, hætta við þá tekju- og eignaupptöku sem frv. gerir ráð fyrir. Þessi ríkisstj. hefur þegar hlotið nafn meðal þjóðarinnar og kallast „skattpíningarstjórn,“ svo að engum skyldi bregða þótt tilraun mín til að koma í veg fyrir upptöku eigna og tekna fólks nái ekki fram að ganga — tekna sem fólk hafði þegar gert ráð fyrir að hafa til ráðstöfunar eftir að hafa goldið sitt til sameiginlegra þarfa í þjóðfélaginu. Samþykkt á brtt. minni hefði þýtt viðurkenningu fólks á tímabundinni fjárþörf ríkissjóðs og fólk hefði þá af þegnskap, þegnskyldu, ekki haft á móti því að hjálpa ríkisstj. út úr þessum tímabundna vanda hennar, en hún hefur sjálf ætlað sér tveggja ára tímabil til þess að rétta hag ríkissjóðs.

Ég harma þessa árás á eignir fólks, bæði fasteignir og ráðstöfunarfé. En við hverju átti þjóðin að búast? Þetta er vinstri stjórn undir forustu komma. Takmark þeirra er að brjóta niður sjálfstæði einstaklingsins. Þeir vita að það gera þeir best með því að ráðast á eignir einstaklinga í þjóðfélaginu. En ég vil lýsa furðu minni á því, að þeir skuli hafa til þess stuðning hinna samstarfsflokkanna í ríkisstj.