15.12.1978
Efri deild: 30. fundur, 100. löggjafarþing.
Sjá dálk 1578 í B-deild Alþingistíðinda. (1094)

108. mál, aukin gæði fiskafla

Stefán Jónsson:

Herra forseti. Till. sú til þál., sem hv. þm. Ágúst Einarsson flytur hér og leggur til að Alþ. feli ríkisstj. að hafa forgang um, varðandi það að stuðlað verði að auknum gæðum fiskafla og þá sérstaklega með ísun í kassa, er vissulega þess virði að Alþ. fjalli um hana. Það mun nefnilega mála sannast, að einmitt á leiðinni frá því fiskur kemur inn yfir borðstokkinn og þangað til hann kemur á vinnsluborð í frystihúsi getur verðmæti afla rýrnað ákaflega mikið. Mér segja sérfræðingar að með tiltölulega ódýrum aðgerðum væri hægt að auka stórlega verðmæti þessa afla frá því sem það yfirleitt er núna. Aftur á móti, eins og hv. flm. má vera vel kunnugt, er ekki með öllu ljóst á þessari stundu til hvaða ríkisstj. eða hvers konar máli þessu yrði vikið. En þau mál eru nú rædd annars staðar.

Mér þótti hv. þm. gera þessu máli góð skil í ræðu sinni, enda er hér um að ræða sérgrein hans, og ég er honum þakklátur fyrir þá fræðslu sem hann veitti okkur hér í d. um grundvallaratriði í þessu sambandi. Því fer að vísu víðs fjarri, að ég geti stært mig af því að hafa það sem kalla mætti brúklegt vit prívat og persónulega á þessum málum. Þó var það svo, að þegar ég vann á fréttastofu ríkisútvarpsins, þá hafði ég það aukastarf í ein fjögur ár í samvinnu við fisksölusamtökin að vinna að fræðslu um þessi mál í útvarpi, þ.e.a.s. meðferð á ferskum fiski upp úr sjó, og er minnisstætt að einmitt árið 1963 lágu fyrir upplýsingar um það, sem taldar voru áreiðanlegar, að verðmæti vertíðarafla upp úr lest hér sunnanlands á hávertíðinni var talið rýrna um 18% vegna illrar eða ófullkominnar meðferðar á fiskinum frá bátshlið og á vinnsluborð í frystihúsi. Samkv. upplýsingum hv. flm. mun að langmestu leyti hafa tekist að sneiða hjá skemmdum af þessu tagi við það að tekin var upp ísun í kassa um borð í fiskiskipum, þar sem síðan þarf ekki að hrófla við aflanum fyrr en hann er beinlínis tekinn til vinnslu á borði í frystihúsi.

Ef ég man rétt hófst fyrsta tilraunin, sem gerð var með annars konar kælingu og geymslu á fiski um borð í skipi, raunverulega 1963 með tilkomu Héðins frá Húsavík, sem Jón Ármann Héðinsson og bræður hans stóðu að því að láta byggja úti í Noregi. Þetta skip var þá, ef svo má segja, framúrstefnuskip á ýmsa lund að útbúnaði, ákaflega vandað, enda vel undirbúin smíði þess, en skipið var búið tanklest til þess að geyma í afla, og þá var fyrst og fremst hugsað til síldarinnar, til þess að geyma fisk í kældum sjó.

Hér kem ég einmitt að því, sem gerir það að verkum að ég leyfi mér að efast um það hól sem hv. frsm. og flm. bar á íslenska útvegsmenn fyrir það að fylgjast vel með nýjungum í fiskiskipasmíði erlendis. Reyndin varð sú með Héðin, að tanklestin góða kom aldrei að gagni vegna þess að þeir eigendur og útgerðarmenn stóðu einir að þessu geymsluformi og síldarmatið neitaði að taka við síld, sem geymd var í kældum sjó til söltunar, á þeirri forsendu að það hefði fækkað, eins og var komist að orði, — ekki skemmst hreistur, heldur fækkað hreistrum, eins og ég las í bréfi, á síldunum sem geymdar voru í þessum tanki, enda þótt það væri efalaust, að vikugömul síld geymd í þessum kælda sjó var jafngóð og síld veidd fyrir nokkrum klukkustundum. Vegna þess að þeir stóðu einir að þessu, þá fékkst ekki neinn þrýstingur til þess að knýja fram að það yrði þó gerð tilraun með að salta þessa síld og ganga úr skugga um hvort hún þætti ekki betri verslunarvara fyrir bragðið.

Við skulum hrósa íslenskum útvegsmönnum og skipstjórnarmönnum og fiskimönnum fyrir ótalmargt annað en það, að þeir hafi fylgst vel með nýjungum og verið fljótir að tileinka sér nýjungar í gerð fiskiskipa erlendis. Þeir eru duglegir, þeir eru áræðnir, þeir kunna öllum mönnum betur að standa að verki um borð í þeim skipum sem við gerum út, en þeir eru sannarlega oft og tíðum seinir til að tileinka sér nýjungar, sem m.a. sést á því, að þeir skuli ekki einu sinni hafa fengist til þess að gera tilraun til þess að gera út færeysku maritimetýpuna af bátum hérna, þ.e.a.s. samsteypuskipin, línuskip, skuttogara og netaveiðiskip, eins og Færeyingar hafa gert þessi skip út með ágætum árangri nú í 8 ár frá upphafi. Ég vil taka heils hugar undir þá skoðun hv. flm. þessarar till., Ágústs Einarssonar, að nauðsynlegt sé að við verðlaunum fremur en við nú gerum sérstaklega góða meðferð á sjávarafla um borð í bátunum. Það tek ég undir heilshugar. Á þetta atriði var einmitt lögð ákaflega mikil áhersla undir lokin á síðustu góðu vetrarvertíðunum hér við land, frá 1961 og fram til 1965, einmitt á þeim árum þegar landburður. var af vænum þorski sunnanlands og hér við Faxaflóa, á árunum þegar stóri þorskurinn, Grænlandsþorskurinn, var tekinn í nót og bátarnir komu með upp í 110 tonn af þessum þorski, svo sannarlega glænýjum, veturinn þegar allt í einu vantaði salt til þess að verka þennan stórfallega þorsk og varð að senda hann nýjan í gúanó hér á Faxaflóahöfnunum vegna þess að það vantaði salt til þess að verka hann. Á þeim vetri var af skiljanlegum ástæðum hengt upp ákaflega mikið af fiski, þó í óvissu væri að verka hann í skreið, og jafnt úrvalsfiskur í því formi sem hann kom í land sem netamorkur og svokallaður draslfiskur. Þá var ágætur markaður, þá var ágætt verð fyrir Afríkuskreiðina okkar, prýðisverð. Mér er það minnisstætt þegar forsvarsmenn fiskkaupenda voru að kvarta undan því, að morkurnar væru keyptar svo háu verði til þess að hengja þær upp, að slagaði hátt upp í það verð sem borgað var fyrir úrvalshráefni. Þá voru svörin af hálfu Sambands skreiðarframleiðenda einfaldlega þau, að svona gott verð fengist fyrir „beinin,“ eins og þessi vara var kölluð, í Afríku.

Enn liggur sú ástæða til grundvallar fyrir tiltölulega litlum verðmun á úrvalsfiskinum og annars flokks fiski. Hv. frsm. prísaði raunverulega guð fyrir það, að þriðja flokks fiskurinn skyldi h.u.b. vera horfinn. Það er miklu minna um hann núna en áður var. Ástæðan fyrir því, hvað verðmismunurinn er lítill, er beinlínis sú, að það fæst tiltölulega gott verð fyrir þessa vöru enn í dag á markaðnum og menn fást þá ekki til þess að hugsa út í það, að ástæðan fyrir því, að við getum selt annars flokks fisk á tiltölulega háu verði, er sú, hvað við getum boðið fram mikið af fyrsta flokks fiski. Ég hygg að það sé nefnilega rétt, að þetta dæmi hafi ekki verið reiknað til enda. Ég hygg að einnig beri að þakka það, að við losnum nú við tveggja og þriggja nátta fiskinn úr þorskanetunum hér sunnanlands. Það ber að þakka, þótt ástæðan sé nú efalítið sú hryggilega staðreynd, hvað fiskigengd hefur minnkað hérna á fiskislóðinni, því það er satt, það veit ég, að þær reglur um takmarkanir, sem settar voru við netafjölda á fiskislóðinni hérna, bæði á miðum Eyjabáta og á Selvogsbankanum, voru þverbrotnar.

Dæmið, sem hv. þm. Ágúst Einarsson nefndi um útgerðina á Pétri Jónssyni á netavertíðinni í fyrravetur, er merkilegt vegna þess að þar kom í ljós ekki aðeins að verðmæti afla, þrátt fyrir þennan tiltölulega litla verðmun á úrvalsvörunni og annars flokks vörunni, jókst stórlega við þessa aðferð, heldur stórminnkaði veiðarfærakostnaður með því að standa þannig að veiðunum að taka netin um borð. Ég geri ráð fyrir að ýmsir þeir útgerðarmenn, sem hafa til þess skip, því sannleikurinn mun vera sá, að þetta er ekki auðvelt nema á tiltölulega stóru netaskipi, það er ekki auðvelt að standa að veiðum á þennan hátt nema á tiltölulega stóru netaskipi, en ég hef ástæðu til þess að ætla að fleiri útgerðarmenn muni nú fara út á þessa braut, því það er ljóst mál að við getum, ef rétt er að staðið, fengið afbragðsvöru úr netunum. Við fáum fullt eins góðan fisk til vinnslu úr netunum og við fáum af línu ef þannig er að málunum staðið.

Það er efalaust rétt, sem hv. flm. sagði, að við eigum óhægt um vik að breyta a.m.k. sumum hverjum af þeim togurum sem ekki voru hannaðir með kassanotkun í huga svo það verði skip framtíðarinnar. Ég tek undir ósk hans um að þetta muni einmitt gerast á næstu 3–4 árum, að við förum að fá hin nýju skip. Hafi nokkur vitleysa verið étin upp af manni eftir mann í óhófi í stjórnmálaumr. hér á landi síðustu árin, þá er það sú, að við þurfum ekki að halda áfram að bæta við okkur nýjum skipum.

Ég geri ráð fyrir að skipin, sem hönnuð verða fyrir okkur á næstu tveimur árum og við fáum í not á næstu 3–4 árum, verði þannig úr garði gerð að við getum náð hinni bestu geymslu á aflanum um borð, og þá vildi ég gjarnan að við huguðum að því hvort ekki væri rétt að ætla þar einnig pláss undir slóg, sem nú er öllu hent í sjóinn, og undir þann smáfisk sem drepst í vörpunni hjá okkur og lendir um borð í skipunum. Honum er nú fleygt af tveimur ástæðum: Í fyrsta lagi vegna þess að ekki er geymsla um borð til þess að flytja þessi verðmæti í land til mjölvinnslu og úrvinnslu — fyrst og fremst af þeim sökum, en einnig til þess að fela hinn ótrúlega og ólögmæta feng aftur undir voðum Ægis konungs. Það er nefnilega orðið mjög aðkallandi að við festum í lög að hvert einasti uggi, hvert snifsi af lífrænum efnum, sem úr sjónum kemur um borð í skipin, verði flutt til lands, fyrst og fremst til þess að nýta fenginn til verðmætasköpunar og í öðru lagi til að auðvelda það að fylgst sé með því hvernig að veiðunum er staðið.

Ég ítreka það, að mér finnst gott að mál þessarar tegundar skuli koma til umr. inni á hinu háa Alþingi, þótt ég sé þeirrar skoðunar, að e.t.v. hefði verið rétt að búa þetta á þá lund, að sjútvrn. og stofnunum þess yrðu falin ákveðin sérstök verkefni til að standa að í þessu sambandi og þá ætlaðir til þeirra starfa fjármunir.

Það er ákaflega margt sem lýtur að meðferð aflans í landi fyrir utan frystinguna sem verða mætti til þess að auka verðmæti hans. Meginástæðan fyrir því, að okkur hefur ekki tekist eins og Norður-Norðmönnum í skreiðarverkun, sem þurrka fisk til sölu á Ítalíumarkaði, markaði í Grikklandi, og í Norður-Evrópu, er ekki sú, að við höfum ekki jafngott hráefni til þess að herða í þessu skyni og kunnum ekki til þeirra verka. Meginástæðan er veðráttan hjá okkur, þar sem við hengjum upp skreið okkar, harðfisk okkar á vetrarvertíð eða síðari hluta vetrar og eigum hann undir frostum. Fiskurinn má ekki frjósa, þá verður hann að svartri skreið sem ekki er nógu góð til þess að selja á hina dýru markaði. Mér er kunnugt um það, að einstakir framtakssamir hugvitsmenn hafa gert tilraun með það að herða fisk á þessum tíma með þeim hætti, að frostinu er bægt frá honum. Það hefur verið sett plastrjáfur yfir hjallana og hitað undir lítils háttar, þannig að ekki hefur frosið fiskurinn á meðan hann er að harðna. Þetta hefur verið ákaflega kostnaðarsamt með þessum frumstæðu aðferðum sem þeir hafa notað, þannig að vonlítið er e.t.v. að þurrka á þann hátt mikið magn af fiski á vetrarvertíð. En fullkomin ástæða er til þess að ætla að hægt væri að gera þetta á hagstæðari hátt, sérstaklega þó þar sem nóg er af heitu vatni og þyrfti ekki beinlínis að kynda með olíu undir slíkum hjöllum.

Við komum sannarlega allmiklum fiski í dágott verð sem svartri Afríkuskreið á sínum tíma og gátum tínt úr stundum, þar sem vel tókst til og vel viðraði — eins og í Grindavík, að mig minnir 1956. Þá tókst að tína úr 15% af því, sem upp var hengt um veturinn, og selja á Ítalíumarkað fiska sem ekki höfðu frosið og fékkst fyrir ágætisverð. En yfirleitt miðuðum við skreiðarframleiðslu okkar við það að framleiða 3. og 4. flokks vöru og stóðum að þessu af ómyndarskap og stundum af óskaplegum sóðaskap. Mér er það minnisstætt einn veturinn af þessum sem ég fyrr tilgreindi, að ég vann á vegum sölusamtakanna að þessum fræðslumálum um meðferð á fiski að við sáum fisktegund í stórum hjöllum hér sunnalands, — staðinn vil ég ekki nafngreina, því þar býr gott fólk, — þar sem þorraufsinn var orðinn ýmist rauður eða grænn á lítinn. Ég man eftir stórum keiluförmum í Sandgerði sem komu að landi um miðjan janúar, en voru hengdir upp í marsbyrjun úr kösinni þar sem þeir höfðu legið fram að þeim tíma, — þá barst þar á land mikill afli og var lítið um vinnuafl, — og þegar eigendur þessa fisks voru spurðir að því, hvort úr þessu yrði nokkurn tíma matvara, þá var svarið það: Keilan er þannig gerð, væni minn, að það er svo sterkt á henni roðið. Hún heldur þessu. — Við höfum vafalaust spillt miklu fyrir okkur með göslarahætti og skeytingarleysi einmitt í meðferð þess afla sem við höfðum ekki vinnuafl eða afköst í frystihúsunum til að koma í verðmæta vöru, en mynduðumst þó við að verka úr eitthvað sem hægt væri að kalla matvæli til sölu. Við höfum vafalaust spillt stórlega fyrir okkur á erlendum mörkuðum með þessum hætti og einnig spillt viðhorfi fólks, sem að þessari matvælaframleiðslu vann, með því að setja það í að vinna á þennan hátt. Það er geysilega mikilsvert atriði fyrir okkur að brýna það fyrir vaxandi fjölda fólks, sem vinnur í fiskiðnaðinum, að það er að framleiða matvæli, það er að framleiða mat sem á að bjóða öðru fólki að borða. Þetta er ákaflega þýðingarmikið atriði í sambandi við vöruvöndun, að þeir einstaklingar, sem við þetta vinna, geri sér grein fyrir þessu. Enginn góður maður vill láta það um sig spyrjast, að hann gefi manni slæman fisk í soðið — hvað þá selji honum hann. Og ég efast ekki um að ákaflega þýðingarmikið atriði í sambandi við það mál, sem hv. þm. Ágúst Einarsson reifar hér, sé einnig þetta: að veita fólkinu okkar tilsögn í meðferð á þessu hráefni og vekja hjá því metnað til þess að framleiða góðar vörur.

Herra forseti. Ég ítreka það, að ég tel þetta gott mál og ákaflega þýðingarmikið atriði fyrir þm. þessarar hv. d. að sérfræðingur á þessu sviði, sem þarna hefur reynsluna, Ágúst Einarsson, skyldi flytja þetta mál hér og gera grein fyrir því á þann hátt sem hann gerði.