23.10.1978
Neðri deild: 6. fundur, 100. löggjafarþing.
Sjá dálk 102 í B-deild Alþingistíðinda. (110)

6. mál, stjórnarskipunarlög

Utanrrh. (Benedikt Gröndal):

Herra forseti. Ég óska aðeins eftir að segja örfá orð út af þeim efasemdum um mál þetta sem fram komu hjá hv. 1. þm. Austurl. Hann virðist því miður ekki hafa veitt þessu máli mikla athygli undanfarin ár. Það er, eins og hann sagði sjálfur, auðvitað gamalt — næstum því jafngamalt endurreisn Alþingis. Það hefur nú verið flutt ár eftir ár hér á þinginu og þá aðallega af Alþfl.-mönnum, þó að þetta geti aldrei orðið flokksmál af neinu tagi. Jafnframt því hafa Alþfl.-menn á undanförnum þingum flutt fjöldamörg önnur frv. um breytingar á starfsháttum Alþingis og verður að líta á það í samhengi. Á þessu þingi eru einnig komin fram önnur frv. þar sem Alþfl.-þm. benda á nýjar leiðir í störfum Alþ., en ég verð að minna hinn reynda þm. á, að hér er til umr. frv. til breytinga á stjskr., en það er ekki hægt að setja inn í það ákvæði um breytingar á sjálfum starfsháttunum. Það heyrir til þingsköpum og hlýtur því að vera sér á báti.

Það er rétt hjá honum, að eins og nú standa sakir væri ekki hyggilegt að rjúka til að samþ. þetta frv., heldur er það fyrst og fremst lagt fram til áherslu þessu máli í sambandi við þá nefnd, sem samkvæmt ákvörðun þingsins er að byrja að endurskoða stjskr. og á að gera það á stuttum tíma. Það er fullkomlega réttmætur tilgangur með frv. að fylgja slíku máli eftir einmitt á þeim tíma er verið er að vinna að því. Ég hef ekki svigrúm hér áður en fundi lýkur til að fara nánar út í þau mörgu atriði um breytta starfshætti Alþ. sem við höfum lagt til.

Það er mikil töf í nefndaskiptingu eða nefndafargani í báðum deildum. Það er blindur maður sem ekki sér að nefndaskipan Alþ. er orðin gjörsamlega óvirk. Það eru til n. hér sem starfa vel, aðrar gera það ekki. Kerfið í heild er löngu orðið úrelt og þarf að breytast. Það þarf að gera breytingu sem snertir raunverulegt starfssvið Alþ. þannig að vegið verði upp á móti því valdi sem Alþ. hefur misst sökum tækni nútímans og hins flókna þjóðfélags sem við búum í.

Það hefur verið bent á fjöldamargt annað, m.a. að það sé óvenjuleg sérréttindi, sem hvergi eru til í veröldinni mér vitanlega, að þm. fái að flytja langar framsöguræður með ályktunartillögum. Líklega eru 80–90% af þeim tillögum, sem eru nú fluttar, til að koma hugmyndum á framfæri, sem er réttmætur tilgangur og allt í lagi með það. En það ætti að vera nóg að hafa umr. um till. sem nefndir telja ástæðu sem varða stjórnarskrá, utanríkis- eða varnarmál, sem eru annars eðlis.

Það er að sjálfsögðu gott að menn hafi ótakmarkað ræðufrelsi. En við skulum horfast í augu við þá staðreynd, jafnvel þó að einhver segi að það sé ólýðræðislegt, að ræðufrelsi hefur verið á síðari árum og kannske e.t.v. alla tíð herfilega misnotað. Með meira eða minna innantómu rifrildi milli manna og milli flokka hefur verið eytt tíma til einskis í stórum stíl. Það væri til mikilla bóta ef hægt væri að gera á því einhverjar lagfæringar. Ég efast ekki um að það verði hægt með samkomulagi allra aðila og svo að lýðræðisleg sæmd sé viðhöfð.

Varðandi deildaskiptinguna eru vinnubrögðin aðeins ein hlið á málinu. Áhrifin á stjórnarmyndanir eru þegar orðin svo stór kafli í hrakfallabálki íslenskra ríkisstjórna síðan 1932, að ómögulegt er að ganga fram hjá því. Og því er ekki auðvelt að komast fram hjá á nokkurn annan hátt betur en með því að setja þingið í eina deild. Deildaskiptingin er búin að vera fjötur um fót heilbrigðum stjórnarháttum og eðlilegri ríkisstjórn hér á landi það lengi, að við getum ekki gengið fram hjá því aðeins af því að Danir þurftu að koma þessari deildaskiptingu á 1874.

Fjölmargt annað mætti nefna. Ég geri fastlega ráð fyrir því, að 1. þm. Austurl. viti það betur en nokkur maður sem nú situr á Alþ., hversu mikið af tíma og orku ráðh. deildaskiptingin tekur, að þeir skuli þurfa að eltast við mál sín í gegnum sex umr. og hvaða skapvondur þm. sem er geti staðið upp og heimtað við 6 umr. að ráðh. séu viðstaddir. Það er að fara illa með tíma ráðh. Ég hef horft á þetta í 20 ár, svo ég er ekki að kvarta fyrir eigin hönd, heldur annarra. Fleira gæti ég nefnt.

Ég vil að lokum aðeins ítreka það, að komið hefur fram í málflutningi Alþfl. undanfarin ár að við hugsum okkur sameiningu Alþ. í eina deild eins og Alþ. var á árum Jóns Sigurðssonar og þangað til danska konungsveldið þurfti að breyta þessu. Við hugsum okkur það sem einn lið og í samhengi með víðtækari breytingum. Það er ekki eðlilegt að Alþingi Íslendinga sé eina þjóðþingið í stórum hluta heims, sem við þekkjum til, sem hefur ekki þurft að breyta starfsháttum sínum meira en við höfum gert. Í flestum nágrannalöndum okkar eru nefndir sem sitja svo að segja samfleytt við þetta verkefni, en við höfum ekki snert á þessu verkefni síðan 1972, þegar við breyttum þingsköpunum, og hv. þm. man hversu langan aðdraganda það hafði. Ég hvet hann til að líta á þetta mál í dálítið bjartara ljósi en hann gerði í ræðu sinni.