15.12.1978
Efri deild: 31. fundur, 100. löggjafarþing.
Sjá dálk 1591 í B-deild Alþingistíðinda. (1123)

133. mál, vörugjald

Menntmrh. (Ragnar Arnalds):

Herra forseti. Mér þykir rétt að það komi fram áður en þessari umr. lýkur, að í þessu frv., sem fjallar um hækkun vörugjalds á ýmsum vörutegundum, eru m.a. ákvæði um hækkun vörugjalds á hljóðfærum. Þetta hefur nokkuð verið gagnrýnt og á það bent, að ekki væri eðlilegt að slíkir munir væru í hæsta vörugjaldsflokki. Ég er þessu sammála. Ég tel að þessu þyrfti að breyta, og ég vænti þess, að þetta verði tekið til athugunar þótt síðar verði. Í 5. gr. frv. er ráðh. heimilað að undanþiggja einstakar vörur gjaldskyldu ef sérstakar ástæður eru fyrir hendi. Þetta mál hefur verið rætt í ríkisstj. og ég held að menn séu þar sammála um að vörugjaldið þurfi að taka til nánari athugunar. (Forseti: Má ég vekja athygli á því, að það, sem hæstv. ráðh. talar um, er tilheyrandi öðru dagskrármáli.) En var ekki vörugjaldið fyrsta mál á dagskrá? (Forseti: Jú, en það er tímabundið vörugjald — er það ekki? — sem þetta á við.) Já, það er nefnilega það. Það eru tvö vörugjaldsmál. En það breytir ekki hinu, að þessi vörugjaldsmál þurfa nánari athugunar við.

Auðvitað er það ákaflega óaðgengilegt fyrir hv. þm. að fá í hendur frv. þar sem taldir eru upp tollvöruliðir í stórum stíl án þess að hægt sé að átta sér á því hvaða innihald stendur á bak við hvert númer. Þar af leiðir að þegar ríkisstj. afgreiða slík mál eða í n. fer e.t.v. ekki fram nægilega glögg og góð athugun á því, hvort hver einstakur liður á réttilega heima í slíkri upptalningu. Í tilvikum sem þessum vill það gerast, að embættismenn fái meira vald en góðu hófi gegnir að því leyti, að þeir, sem hina pólitísku ábyrgð bera, gefa sér kannske ekki nægilegan tíma til þess að kanna málin til hlítar. Ég tel að þessi vörugjaldsmál þurfi að taka til nánari skoðunar, hvort sem þar er um að ræða hið almenna vörugjald eða hið tímabundna vörugjald.

Það er rétt ábending, sem kom fram hjá forseta, að þegar um hljóðfæri er að ræða, þá mun það ekki vera nákvæmlega þetta dagskrármál sem þar um ræðir, heldur annað, en það breytir ekki því, að aths. er jafngild engu að síður. Þessi mál þarf að taka til nánari skoðunar.