15.12.1978
Efri deild: 31. fundur, 100. löggjafarþing.
Sjá dálk 1592 í B-deild Alþingistíðinda. (1128)

23. mál, tímabundið vörugjald

(Frsm. minni hl. Eyjólfur K. Jónsson):

Herra forseti. Eins og hv. dm. er kunnugt höfum við í stjórnarandstöðunni lagt okkur fram um það að greiða fyrir því, að þingstörf gætu gengið með eðlilegum hætti miðað við óeðlilegar aðstæður, sem menn vita að hér eru, og veit ég að t.d. formaður fjh.- og viðskn. mun staðfesta að við, sem höfum starfað með honum þar, höfum síður en svo talið eftir okkur að vinna seint og snemma og greiða fyrir framgangi mála. Nú kemur það í ljós hér, að einn af ráðh. hefur ekki hugmynd um hvað felst í brtt. hæstv. ríkisstj. um skattlagningu, — hefur ekki hugmynd um það. Hvernig á að una við svona vinnubrögð? Ef þessi hæstv. ráðh. kemur fram undir réttum dagskrárlið og ættar að gagnrýna skattlagningu sem hann sjálfur stendur að, þá er auðvitað ljóst mál að við hljótum að flytja brtt., og ég ætla mér að flytja brtt. einmitt í þá átt að fella niður vörugjald af hljóðfærum. Ég vona þá að ráðh. standi með mér í því að koma henni hér í gegn við 3. umr., en til þess þarf svigrúm. Ég játa að ég þekki ekki svo þessi númer í tollskrá að ég geti hér og nú á stundinni flutt slíka brtt., en ég geri ráð fyrir að allir skilji það, að þegar svona vinnubrögð eru hljótum við að óska eftir frestun þessa máls og flytja brtt. okkar á mánudaginn kemur. Ég er þess raunar fullviss, að formaður fjh.- og viðskn. mun styðja mig í því, að þessu máli verði nú frestað svo að svigrúm gefist. Drátturinn er ekki sök stjórnarandstöðu, heldur eins ráðh., sem hefur ekki hugmynd um hvaða mál hann er að flytja.