15.12.1978
Efri deild: 31. fundur, 100. löggjafarþing.
Sjá dálk 1593 í B-deild Alþingistíðinda. (1129)

23. mál, tímabundið vörugjald

Menntmrh. (Ragnar Arnalds):

Herra forseti. Ég skil ekki aths. hv. þm. Er hann að óska eftir því, að málinu sé frestað vegna þess að ég hafi farið á mis við það sem stóð í dagskránni? Er það þess vegna sem hann er að óska eftir frestuninni? (Gripið fram í). Ég tók það fram áðan, að ég væri sannfærður um að við nánari athugun gætu menn verið sammála um að ákveðnir liðir í vörugjaldi gætu hugsanlega verið á annan veg. Þ. á m. eru hljóðfærin, sem ég tel að beri nú allt of hátt vörugjald. (Gripið fram í.) Ég tók það hins vegar fram, að vegna þess að hæstv. fjmrh. hefur bersýnilega heimild til þess í lögum að gera þar breytingu á og þá breytingu verður að undirbúa og ekki hefur enn gefist ráðrúm til þess, þá sjái ég ekki ástæðu til þess að vera að flaustra því af á þessum dögum, meðan verið er að afgreiða öll þessi mál, og treysti hæstv. fjmrh. til að standa fyrir þeirri breytingu og endurskoðun sem þörf er á að gera.