15.12.1978
Efri deild: 31. fundur, 100. löggjafarþing.
Sjá dálk 1593 í B-deild Alþingistíðinda. (1130)

23. mál, tímabundið vörugjald

Ragnhildur Helgadóttir:

Herra forseti. Ég gleðst yfir þeirri hugmynd, sem ég heyri að hér hefur komið fram hjá hæstv. menntmrh. í þessu tilfelli, þar eð hann lýsir yfir að hann vilji gjarnan lækka vörugjald á hljóðfærum. Það er sannarlega mjög tímabær till. því svo dýrt er orðið áð kaupa hljóðfæri fyrir þá sem gjarnan vilja flytja tónlist sjálfir á heimilum sínum. Það má segja að það sé alls ekki fyrir fólk með venjulegan fjárhag, svo dýrt er orðið að kaupa hljóðfæri, sérstaklega stór hljóðfæri, eins og t.d. píanó.

En það var ekki af þessu tilefni sem ég kvaddi mér hljóðs, herra forseti. Það var vegna þess að í sambandi við þetta mál hef ég séð ástæðu til þess að bera fram fsp. til hæstv. iðnrh. Mér þykir, eins og hv. 5. þm. Norðurl. v., rétt að fresta afgreiðslu þessa máls til að koma til móts við hugmynd hæstv. menntmrh. Mér finnst afar skynsamlegt að fresta málinu af þeim sökum.

Hitt er annað mál, að það liggur fyrir, að ástæðan til flutnings þessa máls, til hækkunar hins tímabundna vörugjalds, er sú, að bæta á ríkissjóði upp tekjumissi vegna tollalækkana sem munu verða nú um áramótin. Í því sambandi vaknar ein mikilvæg spurning og hún er þessi: Til hvaða aðgerða ætlar ríkisstj. að grípa til þess að vega á móti tollalækkun á innfluttum iðnaðarvörum? Ríkisstj. hefur boðað að hún muni grípa til aðgerða af þessum sökum. Nú eru ekki margir dagar til áramóta og ekkert hefur heyrst um hvað það er sem hæstv. ríkisstj. ætlar að gera. Í samstarfsyfirlýsingu stjórnarflokkanna var þegar tekið fram, að samkeppnisaðstaða iðnaðarins yrði tekin til endurskoðunar og spornað yrði, eins og þar segir, með leyfi hæstv. forseta, með opinberum aðgerðum gegn óeðlilegri samkeppni erlends iðnaðar, m.a. með frestun tollalækkana. Síðar hefur komið fram, eins og alþjóð er kunnugt, að tollalækkunum verður ekki frestað, en þess í stað hefur ríkisstj. lýst því yfir, að hún mun sækja um framlengingu á samningi um EFTA- aðild og samningi við Efnahagsbandalagið þegar samningurinn á að renna út. Þetta kemur m.a. fram í aths. við fjárlagafrv. Þar er vísað til samstarfssamningsins með þessum orðum, með leyfi hæstv. forseta.

„Í frv. er gert ráð fyrir lækkun aðflutningsgjalda í samræmi við samning um aðild Íslands að EFTA og samning við EBE. Í samstarfssamningi stjórnarflokkanna er gert ráð fyrir, „að samkeppnisstaða íslensks iðnaðar verði tekin til endurskoðunar og spornað með opinberum aðgerðum gegn óeðlilegri samkeppni erlends iðnaðar, m.a. með frestun tollalækkana.“ Ekki er fullráðið með hvaða hætti þetta verður gert. Sérstök nefnd þriggja rn. hefur málið til athugunar.“

Ég spyr nú, herra forseti: Er ástæða til þess fyrir mig að halda áfram rökstuðningi fyrir þessari fsp. minni, ef hæstv. iðnrh. hefur ekki tök á því að vera hér í salnum? Eða vill hæstv. forseti skjóta málinu á frest þangað til hæstv. ráðh. getur verið hér inni til að upplýsa þetta mál? Ég skil það mætavel, að hæstv. ráðherrar séu önnum kafnir. Hæstv. iðnrh. er sjálfsagt í Nd. að svara fsp. um verðjöfnun raforku. Það er mikilvægt mál, en þetta er líka mjög mikilvægt og eðlilegt að fjöldi manna spyrji um þetta. (Forseti: Ég geri ráð fyrir að það verði tækifæri til þess að ræða þetta síðar þannig að ráðh. heyri.) Má ég þá, herra forseti, gera hlé á ræðu minni, hún er að vísu ekki löng, en fá að ljúka henni þegar hæstv. ráðh. hefur tök á því að vera við. (Forseti: Ég geng ekki út frá því sem vísu, að hæstv. ráðh. geti verið við í dag. — Gripið fram í: Verður ekki málinu frestað? — Forseti: Við tökum ákvörðun um hvað við gerum í þessu.) Ég vil þá leyfa mér að fara þess á leit, að umr. verði ekki lokið nema tækifæri verði til þess að fara örlítið nánar út í þetta atriði sem ég hef vakið athygli á.