15.12.1978
Efri deild: 31. fundur, 100. löggjafarþing.
Sjá dálk 1596 í B-deild Alþingistíðinda. (1140)

131. mál, flugvallagjald

Frsm. minni hl. (Eyjólfur K. Jónsson):

Herra forseti. Eins og menn heyrðu er hæstv. samgrh. hinn montnasti yfir þessu máli. Hann talar um að mikilvægum áfanga sé náð þegar verið er að leggja gífurlegar byrðar á fólkið sem þarf að ferðast, — og auðvitað kemur það verst við fátæka fólkið sem þarf að ferðast bæði innanlands og sem betur fer geta margir ferðast til útlanda líka. Hann segir að verði aðstaða farþeganna stórbætt fyrir það að þetta gjald skuli á lagt. Það er auðvitað rétt, að þetta á að renna til flugmála. Hvers vegna er þetta nauðsynlegt til flugmálanna nema vegna þess að hæstv. ráðh. hefur ekki getað fengið fjárveitingar á fjárl. sem nægðu?

Það er eins með þetta og með vegamálin. Ég hef nú boðið þessum hæstv. ráðh. með lagafrv. að reyna sjá honum fyrir eins og 2 milljörðum. Hann er ekki enn farinn að þiggja það í vegina, einfaldlega vegna þess að þegar það mál var hér upphaflega flutt, þá gat hann ekki stutt það eins og flestir eða allir aðrir þm., af því að ég var 1. flm., þvældist fyrir því á síðasta degi þingsins í þessari hv. d., ætlaði að halda uppi málþófi, þannig að ekki væri hægt að ljúka þingi. Það var þá fyrir tilstuðlan þess ágæta forseta, sem d. nú hefur kosið sem aðalforseta, að honum var gert það ljóst að þó að hann talaði alla nóttina, þá mundi málið ganga til atkv.

Svo kemur hann hingað og er montinn af öllu saman: Þetta er stórkostlegur áfangi! Ekkert orð um það, að þetta íþyngi eitthvað fluginu og flugstarfseminni. Það veit hæstv. ráðh. bókstaflega ekki nokkurn skapaðan hlut um. Og svo segir hann: Ég skil þetta samkomulag svo og svo, samkomulag sem stjórnarflokkarnir hafa gert sín á milli. — Hann skilur það svo og svo. Ekki er hann nú viss um það. Hann bætir svo við: Ég vænti þess, að þetta verði svona og svona. — Hann hefur ekki einu sinni nokkra minnstu vissu fyrir því að fá fé á fjárl. Það er ekki búið að ganga frá því enn þá. Mér skilst það m.a.s., að fjvn. sé nú að klofna, stjórnarflokkarnir þar, og allt sé í hreinustu óvissu.

Nei, þetta er nokkuð langt gengið, þessi kokhreysti. Og ég endurtek, að ef ráðh. ætla að hefja almennar umr. með þessum hætti, þá er ég til í að taka þátt í þeim í alla nótt um ótal málefni, bæði skattamál og annað slíkt, og ef þessi hæstv. ráðh. ætlar að koma hér í þriðja sinn upp í pontuna til að hælast um og mikla sjálfan sig á kostnað samráðh. sinna, þá skal ég tala við hann í alla nótt.