15.12.1978
Neðri deild: 34. fundur, 100. löggjafarþing.
Sjá dálk 1600 í B-deild Alþingistíðinda. (1151)

Umræður utan dagskrár

Forsrh. (Ólafur Jóhannesson):

Herra forseti. Mér er ljúft að verða við tilmælum hv. 4. þm. Reykv. og gera grein fyrir því, hver háttur mun verða hafður á afgreiðslu þingmála á næstunni.

Það er stefnt að því að afgreiða fjárlög fyrir jól. Það er stefnt að því, að 2. umr. um fjárlagafrv. fari fram á morgun. Tekjuöflunarfrv, verður, að ég ætla, útbýtt hér á þingi innan tíðar og þá meina ég í dag. Mér þykir það nú í raun og veru miður, að stjórnarandstöðuformaður hefur ekki fengið að sjá handrit þeirra, en ég skal reyna að sjá til þess, að hann fái þau svo fljótt sem kostur er. Það er ætlunin að afgreiða þessi tekjuöflunarfrv. fyrir jól eða í síðasta lagi fyrir nýár, ef afgreiðsla fjárl. skyldi dragast þangað til á milli jóla og nýárs. Jafnframt er gert ráð fyrir að lögð verði fram frv. þau nokkur um félagslegar umbætur, sem rætt hefur verið um og haft hefur verið samráð um við launþegasamtökin, og þau afgreidd ef kostur verður.

Ég veit að með þessu er stefnt að miklu vinnuálagi á hv. alþm., en þeir eru því vanir fyrir jól að snör handtök séu höfð við afgreiðslu þingmála. Ég vænti þess vegna þess, að það vinnuálag, sem á þá verður lagt, ofbjóði ekki kröftum þeirra og okkur takist að afgreiða fjárlög og þau tekjuöflunarfrv., sem tilheyra, svo og frv. um félagslegar umbætur.

Það er auðvitað rétt, að það er æskilegt og hefur stundum tekist að láta lánsfjáráætlun fylgja afgreiðslu fjárl. Skýrsla um lánsfjáráætlun er í vinnslu og ég þori ekki á þessu stigi að fullyrða um það, hvort tekst að leggja fram á Alþ. á þeim skamma tíma, sem er til umráða. Að því er þó stefnt. Hins vegar hefur það auðvitað oft átt sér stað, að lánsfjáráætlun hefur ekki verið afgreidd fyrr en síðar. Ég hygg að þau tilvik séu miklu fleiri en þau, að tekist hefur að láta hana verða samferða fjárl., sem ég játa að er æskilegt og í raun og veru sjálfsagt. Ef ekki tekst að leggja fram skýrslu um lánsfjáráætlunina, sem ekki fer til samþykktar hér á Alþ. eins og menn vita, fyrir jólin, heldur aðeins þau lög sem veita heimild til lántöku, sem nauðsynleg er vegna lánsfjáráætlunar, þá mun stefnt að því, að frv, um nauðsynlegar lánsheimildir verði lögð fram nú fyrir jólin.

Þessir afgreiðsluhættir, sem ég hef gert grein fyrir, eru sammæli allra ráðh. ríkisstj. Ég vænti þess, að okkur takist þetta erfiða verk og að við fáum samþykkt fjárlög fyrir jól eða í síðasta lagi fyrir gamlárskvöld.