15.12.1978
Neðri deild: 34. fundur, 100. löggjafarþing.
Sjá dálk 1607 í B-deild Alþingistíðinda. (1164)

137. mál, verðjöfnunargjald af raforku

Iðnrh. (Hjörleifur Guttormsson):

Herra forseti. Verðjöfnunargjald af raforku hefur verið lögbundið síðan á árinu 1974. Hafa lögin jafnan verið framlengd til eins árs í senn og er það enn lagt til með þessu frv. Tilgangur verðjöfnunargjaldsins hefur verið sá að draga úr rekstrarhalla Rafmagnsveitna ríkisins, og er svo enn. Á s.l. ári voru gerðar þær breytingar á lögunum, að verðjöfnunargjaldinu var skipt milli Rafmagnsveitna ríkisins og Orkubús Vestfjarða, þannig að Rafmagnsveiturnar fengu 80% gjaldsins og Orkubúið 20%, en Orkubúið tók til starfa 1. jan. 1978. Í frv. er lagt til að skipting gjaldsins verði óbreytt.

Efnisbreyting þessa frv., miðað við gildandi lög, er sú, að lagt er til að verðjöfnunargjaldið verði hækkað úr 13% í 19%. Ástæða þess er sú, að Rafmagnsveitur ríkisins hafa átt við vaxandi fjárhagsörðugleika að stríða. Rekstrarhalli þeirra hefur aukist ár frá ári þannig að verðjöfnunargjaldið hefur ekki nægt til að standa undir honum. Mismunurinn hefur æ ofan í æ verið brúaður með óhagstæðum lánum sem viðskiptavinir Rafmagnsveitnanna hafa verið látnir standa undir með gjaldskrárhækkunum umfram eðlilegar kostnaðarhækkanir. Þannig hefur skapast slíkur ójöfnuður í raforkuverði, að ekki verður lengur við unað.

Viðskiptaaðilar Rafmagnsveitnanna eru sem kunnugt er íbúar hinna dreifðu byggða og miðað við höfðatölu þeirra, sem Rafmagnsveiturnar sjá fyrir raforku, búa 48% í sveitum, 37% í kauptúnum og 15% í kaupstöðum. Í þessum tölum endurspeglast það viðfangsefni og sá erfiði markaður sem þessu ríkisfyrirtæki er ætlað að sinna, og það þarf enga spekinga til að sjá að viðfangsefnið er annað og kostnaðarsamara en gerist hjá rafveitum sem nær einvörðungu dreifa raforku um þéttbýli. En orkuöflunarþáttur Rafmagnsveitnanna hefur ekki síður verið erfiður. Þannig liggur fyrir, að á árinu 1977 var um 74% af orkusölutekjum Rafmagnsveitnanna, að verðjöfnunargjaldi meðtöldu, varið til orkukaupa, en sama hlutfall hjá Rafmagnsveitu Reykjavíkur nam t.d. aðeins 38%. Það er mönnum einnig kunnugt, að þjónustusvæði Rafmagnsveitnanna falla að miklum hluta saman við hin svokölluðu „köldu svæði“ með tilliti til jarðvarma og íbúar þeirra svæða þurfa að hita híbýli sín og vinnustaði með rafmagni eða olíu, sem kemur nokkurn veginn út á eitt kostnaðarlega séð þar eð verðlagning á raforku til húshitunar hefur verið látin haldast nokkurn veginn í hendur við kyndingarkostnað með olíu. Þannig fellur saman hátt raforkuverð til almennra heimilisnota, lýsingar og eldunar, sem er nálægt 90% hærra en hjá íbúum flestra stærstu þéttbýlisstaðanna og um 250% hærri kostnaður við húshitun. Aðstaða atvinnurekstrar á þessum svæðum er að sama skapi afleit með tilliti til orkukostnaðar.

Það er mikið talað um samkeppnisaðstöðu íslensks iðnaðar gagnvart erlendum iðnaði einnig þessa daga. En menn mættu jafnframt hafa í huga þann gífurlega aðstöðumun sem atvinnurekstri er búinn hérlendis vegna mismunar á orkuverði og þá ekki síst eftir landshlutum. Þeir, sem í alvöru tala um það sem æskilegt markmið að halda landinu í byggð sem víðast, hljóta að átta sig á að leiðrétta verður þann óverjandi mun sem einstaklingum og atvinnurekstri er búinn í orkuverði.

Ég hef orðið var við sívaxandi óróa fólks víða um land á undanförnum missirum vegna öfugþróunar í þessum efnum, og veit ég að aðrir hv. alþm. hafa einnig tekið eftir þessu. Sem ráðh. orkumála hef ég fengið mörg bréf og tilmæli um að beita mér fyrir leiðréttingu. Sú ríkisstj., sem ég er fulltrúi fyrir, hefur líka einsett sér að vinna að jöfnun raforkuverðs. Hingað komu í alþingishúsið í gær þrír Rangæingar og höfðu meðferðis undirskriftalista með nöfnum 1318 sýslunga sinna sem gera kröfu um leiðréttingu á orkuverði. Ég tel rétt að vitna í formála þessa undirskriftaskjals sem fyrir 100 árum hefði verið kallað bænaskrá og á fjórtánda hundrað manns í þessari sýslu hafa ritað nöfn sín undir. Ég tek þetta sem dæmi, því að fleiri slíkir listar hafa borist iðnrn. á síðustu mánuðum, m.a. frá minni heimabyggð, Neskaupstað. Orðsending Rangæinganna er þannig, með leyfi hæstv. forseta:

„Við undirritaðir íbúar í Rangárvallasýslu mótmælum harðlega því óheyrilega háa raforkuverði sem nú er að ofbjóða gjaldþoli fjölmargra viðskiptavina Rafmagnsveitna ríkisins. Nú er svo komið, að þar sem t.d. ein fyrirvinna er fyrir fjölskyldu og hitað er upp með raforku neyðist fólk til þess að flytja í burtu, þar sem hitakostnaðurinn er algerlega óviðráðanlegur og ekkert í líkingu við það sem annars staðar þekkist, og þetta gerist þrátt fyrir það að menn eru hvattir til þess að nota þessa innlendu orku, enda er raforkan orðin verulega dýrari heldur en olía sem flutt er inn langt utan úr heimi á uppsprengdu verði, en raforkan er framleidd í héraðinu og flutt um stuttan veg.

Sá óheyrilegi verðmunur, sem er á raforku eftir því hvar menn búa á landinu, er með öllu óþolandi. Í því sambandi er rétt að benda á að allar meiri háttar rafveitur eru reistar fyrir framlög úr sameiginlegum sjóðum landsmanna eða með erlendum lántökum sem öll þjóðin er ábyrg fyrir. Með hvaða rétti er þá þegnunum mismunað? Jafnframt er rétt að benda á að þeir aðilar, sem eru að reyna að halda uppi iðnaði og annarri starfsemi, verða algerlega ósamkeppnisfærir og hljóta að gefast upp fyrr en síðar, en það leiðir til fólksflótta og stórkostlegrar byggðaröskunar.

Þetta ástand er með öllu óþolandi. Það er því krafa okkar, að þegar í stað verði gerðar ráðstafanir til úrbóta.“

Við þessum aðstæðum, sem eru tilefni þessarar orðsendingar, hefur verið rætt í ríkisstj. að bregðast með tvennum hætti: annars vegar með beinu fjárframlagi ríkisins til Rafmagnsveitnanna, sem a.m.k. nemi 600 millj. kr. og iðnrn. hefur gert till. um í tengslum við lánsfjáráætlun, og hins vegar með framlengingu og þeirri hækkun verðjöfnunargjaldsins sem lögð er til með þessu frv. Breytt skipulag raforkuiðnaðarins, sem ríkisstj. stefnir að, verður væntanlega spor í sömu átt, en leysir engan veginn allan vanda. Orkusparnaður og bætt orkunýting, sem unnið verður að á vegum iðnrn., bygging fjarvarmaveitna og aðrar nýjungar í orkumálum geta einnig hjálpað til, en þær varða auðvitað marga fleiri en þá sem nú búa við mest misrétti um raforkuverð.

Aðalatriðið við meðferð þessa máls nú er að sjálfsögðu það að ná fram nokkurri leiðréttingu eða a.m.k. að tryggja að ekki þurfi að auka mismun á raforkuverði frá því sem nú er, en í það stefnir ef ekki er andæft með þeim aðgerðum sem ég hef hér gert grein fyrir.

Áætlað er að þau 6%, sem gjaldið á að hækka um samkv. þessu frv., gefi um 700 millj. kr. í viðbótartekjur, en gera má ráð fyrir að óbreytt verðjöfnunargjald gefi um 1500 millj. kr. Með þessum auknu tekjum er stefnt að því, að Rafmagnsveiturnar geti dregið úr annars fyrirsjáanlegum gjaldskrárhækkunum vegna aukins tilkostnaðar á árinu 1979 og þannig verði minnkað bilið sem nú er á gjaldskrá RARIK og annarra rafveitna í landinu.

Varðandi Orkubú Vestfjarða hefur það við hliðstæða örðugleika að etja, enda gjaldskrá Orkubúsins svipuð og gjaldskrá RARIK. Ekki er þó gert ráð fyrir að Orkubúið fái beint fjárframlag frá ríkissjóði, enda er lánabyrði þess léttari en hjá Rafmagnsveitunum. Má minna á að við stofnun Orkubúsins yfirtók ríkissjóður um 3/4 af áhvílandi skuldum Rafmagnsveitnanna á Vestfjörðum. Hins vegar mun á næstu árum vaxa mjög olíukostnaður Orkubúsins, eða allt þar til Vesturlína verður tengd, en iðnrn. hefur lagt til að það verði gert síðla árs 1980.

Ég treysti á stuðning hv. alþm. við þetta frv. þótt ég geri mér fulla grein fyrir að margir hefðu kosið aðrar leiðir og aðrir viljað stiga stærra skref til verðjöfnunar en hér er að stefnt sem áfanga að marki.

Ég legg til að þessu frv. verði að lokinni umr. hér í hv. þd. vísað til 2. umr. og hv. iðnn.