15.12.1978
Neðri deild: 34. fundur, 100. löggjafarþing.
Sjá dálk 1619 í B-deild Alþingistíðinda. (1169)

137. mál, verðjöfnunargjald af raforku

Albert Guðmundsson:

Herra forseti. Ég get því miður ekki orðið við tilmælunum um að verða mjög stuttorður. Hæstv. orkumálaráðh. sá ástæðu til þess að lesa eingöngu upp erindi frá einum þrýstihóp, en fleiri erindi hafa borist um þessi raforkumál. Ég ætla að leyfa mér, með leyfi forseta, að lesa upp grg., sem borist hefur frá Sambandi ísl. rafveitna, og þau drög, sem hæstv. ráðh. hafa borist og hann hefði gjarnan getað lesið upp samtímis.

En áður en ég les grg. þessa vil ég taka undir með hv. 9. þm. Reykv., sem mótmælir því sem rangri stefnu að halda áfram með verðjöfnunargjald á rafmagni og mótmælir því enn þá hörkulegar að hækka gjaldið úr 13% í 19%, eins og hér hefur verið lagt til. Ég vil einnig taka undir með hv. síðasta ræðumanni, 8. þm. Reykv., og samsinna málflutningi hans öllum. Hv. 9. þm. Reykv. komst þannig að orði, að það væri rangt að rafmagnsnotendur í Reykjavík væru látnir gjalda hagsýni og forustu í raforkumálum. Ég vil undirstrika þessi orð hans.

Með leyfi forseta ætla ég því að byrja á lestri þessara bréfa, sem hæstv. ráðh. hefði gjarnan mátt lesa upp með þeim áskorunum sem hann hafði tekið á móti frá fólki í Rangárvallasýslu. Fyrsta bréfið, sem ég leyfi mér að lesa upp, er þá svo hljóðandi, það er dags. 14. des., til hr. iðnrh., Hjörleifs Guttormssonar, Arnarhvoli:

„Verðjöfnunargjald af raforku.

Þar eð þér, herra ráðh., hafið lýst því yfir, að til athugunar sé að hækka svonefnt verðjöfnunargjald af raforku og nefnd hefur verið hækkunartalan úr 13% í 19% vill Sambands ísl. rafveitna vekja athygli á eftirfarandi atriðum:

Vér höfum frá upphafi talið álögur þessar á rafveitur sveitarfélaga óréttlátar og misráðnar og vísum til fyrri aths., bæði til iðnrn. og iðnn. Alþ., þar sem þetta álit er rökstutt. Frekari skýringar koma fram í meðfylgjandi grg. Það er skoðun Sambands ísl. rafveitna, að hækkun á núverandi 33% opinberu álagi á raforku, hugsanlega upp í 39%, sé orðin svo fjarri öllum skynsamlegum mörkum að lausnar á fjárhagsvanda Rafmagnsveitna ríkisins hljóti að verða að leita með öðrum ráðum en aukaálögum á raforkunotendur sveitarfélaga, svo sem bent er á í áðurnefndri grg.

Virðingarfyllst.“.

Þetta er undirskrifað af Aðalsteini Guðjohnsen, formanni Sambands ísl, rafveitna, og Örlygi Þórðarsyni framkvæmdastjóra. Þetta var einnig sent til iðnn. Alþ. Hér lýkur þessu bréfi frá 12. okt. til hæstv. ráðh. En grg., sem er dagsett sama dag, hljóðar svo. Hún er frá Sambandi ísl. rafveitna.

„Verðjöfnunargjald á raforku.

Greinargerð:

Allt frá því að lög um verðjöfnunargjald á raforku voru fyrst sett, lög nr. 96/1965, hefur Samband ísl. rafveitna mótmælt þeim, en gjaldið var tvöfaldað með lögum nr. 17/1970 og stórhækkað, í 13% á smásöluverð, með lögum nr. 83/1974. Það fyrirheit var þá gefið, að skipulag og rekstur Rafmagnsveitna ríkisins yrði endurskoðað fyrir árslok 1975, en lögin giltu aðeins til þess tíma. Síðan hafa þau þrívegis verið framlengd til eins árs í senn og ganga því úr gildi í árslok 1978.

Frá fyrstu tíð hefur gjald þetta runnið óskipt til Rafmagnsveitna ríkisins, en við stofnun Orkubús Vestfjarða var ákveðið að 1/5 hluti þess skyldi renna til Orkubúsins. Sú breyting gaf ótvírætt til kynna, að fremur ætti að festa gjald þetta í sessi en að afnema það, sem þó var gefið í skyn í upphafi svo og æ síðan með því að setja lögin til aðeins eins árs.

Þá er álagning gjaldsins í prósentum ofan á tekjur af raforkusölu óeðlileg aðferð, enda lendir gjaldið þannig þyngst á þeim rafveitum sem hafa hæsta verðið fyrir. Á Norðurlöndum, þar sem settir hafa verið raforkuskattar, en þeir eru þar alls staðar mun lægri en hér á landi, eru skattarnir alls staðar settir í peningaeiningum á selda kwst., en ekki í prósentum á orkusölutekjur.

Sambandinu er kunnugt um að tillögur Rafmagnsveitna ríkisins nú til lausnar fjárhagsvanda fyrirtækisins eru fólgnar í því, að eigandi fyrirtækisins, ríkissjóður, yfirtaki hluta af skuldum og veiti einnig óafturkræf framlög til hins félagslega þáttar framkvæmda. Tillögur fyrirtækisins gera hins vegar ekki ráð fyrir hækkun verðjöfnunargjalds. Ef tvær fyrrnefndar leiðir eru valdar og þeirri þriðju bætt við, þ.e. að stöðva hina gegndarlausu aukningu á sölu Rafmagnsveitna ríkisins til rafhitunar á of lágu verði og leiðrétta stórgallaðan marktaxta, mætti koma fjárhagsstöðu fyrirtækisins á réttan kjöl og fella hið óréttláta verðjöfnunargjald niður.

Til rökstuðnings hækkunar verðjöfnunargjaldsins og annarra aðgerða til aðstoðar Rafmagnsveitum ríkisins hefur verið birtur samanburður á raforkuverði hjá Rafmagnsveitu Reykjavíkur og öðrum rafveitum sveitarfélaga. Er þar aðeins minnst á tvo taxta, heimilistaxta og vélataxta, og bent á að þeir séu 70–80% hærri hjá Rafmagnsveitum ríkisins. Þetta er rétt, en gefur ákaflega ranga og villandi mynd og staðfestir fyrst og fremst ranga gjaldskrársetningu og verðstefnu fyrirtækisins, sem á veigamikinn þátt í sívaxandi erfiðleikum fyrirtækisins á síðustu árum. Þessu til skýringar má nefna, að sala samkv. umræddum tveim töxtum nam á s.l. ári 108 gígawattstundum eða 36% af heildarsölu. Í samanburðinum er ekkert getið um sölu samkv. marktaxta og hitunartaxta með rofi, sem nam samtals 182 gígawattstundum, eða 61% af heildarsölu. Þess má einnig geta, að á s.l. 10 árum hefur sala samkv. heimilistaxta aðeins vaxið um 26% og vélataxta um 136%, en sala samkv. marktaxta jókst um 962% og um hitunartaxta um 1023% á sama tímabili. Þess er rétt að geta, að gjaldskrá Orkubús Vestfjarða er — enn a.m.k. — mjög svipuð gjaldskrá Rafmagnsveitna ríkisins. Hins vegar hefur það fyrirtæki hafið ákveðna takmörkun á rafhitun. Það hafa Rafmagnsveitur ríkisins ekki gert.

Á næsta ári mun áætlað að verðjöfnunargjald muni nema nálægt 1500 millj. kr. með óbreyttu orkuverði. Af því kæmu 1200 millj. kr. í hlut Rafmagnsveitna ríkisins, en um 300 millj. kr. í hlut Orkubús Vestfjarða. Hækkun úr 13% í 19% mundi auka gjaldið úr 1500 millj. kr. í tæpar 2200 millj. kr., eða um 700 millj. kr. Af því kæmi 560 millj. kr. í hlut Rafmagnsveitna ríkisins. Ekkert tillit er þá tekið til verðhækkana á raforku á næsta ári, en þær geta hækkað verðjöfnunargjaldið verulega.

Af ástæðum þeim, sem hér hafa verið raktar, ítrekar Samband ísl. rafveitna mótmæli sín gegn þeim hugmyndum sem fram hafa komið um framlengingu laga um verðjöfnunargjald af raforku og hækkun þess að auki. Á það er og bent, að gjald af þessu tagi, sem gengur beint inn í raforkuverð í landinu, leiðir til hækkunar framfærsluvísitölu og rekstrarkostnaðar atvinnufyrirtækja.“

Ég vil benda á það, vegna þess að ég kallaði fram í fyrir formanni stjórnar Rafmagnsveitna ríkisins, að með þeim hækkunartillögum, sem hann hefur nú mælt með og eru liður í skattpíningarstefnu núv. stjórnvalda, er ekki mælt af Rafmagnsveitum ríkisins. Ég vil enn fremur benda hv. þm. á að kynna sér vel það plagg sem Samband ísl. rafveitna hefur látið gera og hv. 8. þm. Reykv. minntist á og vitnaði til áðan, en þar kemur fram útreiknað meðalverð seldrar raforku hjá RARIK samkv. skýrslu um bókfærða raforkusölu 1977, og hætta svo að tala um mismun á raforkuverði því sem greitt er í Reykjavík og annars staðar.

En ég vil aðeins koma að því, að ég tel eðlilegt að þeir, sem hafa forustu um að koma hér á landi á nýjungum á ýmsu sviði, njóti þess. Með þeim hugsunarhætti, sem verið hefur hér ríkjandi, þá held ég að við byggjum enn þá við kertaljós eða olíuljós í lýsingu húsa, en notuðum kol til húsahitunar, ef sú stefna hefði verið uppi fyrr á árum að skattleggja þá hagræðingu sem skapast af því að duglegir menn taka höndum saman og samtakamáttur fólksins kemur til leiðar ýmsum nýjum framkvæmdum.

Ég vil aðeins ítreka það sem ég hef gert áður hér úr ræðustól, að Reykjavík má ekki verða eins konar skattland þjóðarinnar. Ég held að það sé kominn tími til þess, að við berjumst á móti þeim hugsunarhætti. Það, sem unnið er til hagsbóta fyrir fólkið í þéttbýli almennt og þá í þessum landshluta með samtakamætti, má alls ekki verða skattstofn strjálbýlisfólks. Til þess að fábýl héruð njóti til fulls sömu hlunninda og kjara og þéttbýlið verður að hlaupa undir bagga með strjálbýlisstöðum með fjárveitingum á fjárl. eða úr sameiginlegum sjóðum þjóðarinnar, t.d. Byggðasjóði, kannske öðrum sjóðum, en bæta ekki sífellt álögum á Reykvíkinga eða aðra þéttbýliskjarna. Þessi aukagjöld eru skattar til viðbótar annarri skattheimtu sem leggst misþungt á einstaklinginn eftir því hvar hann er búsettur, ef svona heldur áfram. Þetta verður að koma í veg fyrir. Sá skilningur verður að vera fyrir hendi, að það er ekki hægt að auka álögur á þéttbýlisbúa umfram aðra þjóðfélagsþegna, heldur láta sameiginlega sjóði standa undir þeim nýjungum sem koma fram á hverjum stað, en ekki að skattpína einstaklinginn á þeim stöðum.

Ég vil koma að ræðu hv. þm. Pálma Jónssonar. Hann talar um, eins og kemur reyndar fram í grg. frá Sambandi ísl rafveitna, að það sé orðin árleg venja að framlengja gildistíma þessa verðjöfnunargjalds í staðinn fyrir að láta það falla niður eins og til stóð. En í þetta skipti á að hækka það úr 13% í 19%. Ég hefði fyrir fram talið óeðlilegt og jafnvel óhugsanlegt, þrátt fyrir þátttöku hv. þm. í stjórn RARIK, að hann yrði þátttakandi í þeirri skattpíningarstefnu sem kemur í ljós með þessari hugsun og þessa frv. Ég vil líka minna á það, að þegar fyrrv. formaður RARIK, Helgi Bergs, kom á fundi hjá iðnn. hv. Ed. s.l. ár, þegar ég átti þar sæti, þá varaði hann við þeirri stefnu, sem fólst í verðjöfnunargjaldtökunni, og taldi að aðrar tekjulindir væru eðlilegri, að farið væri frekar eftir þeim hugmyndum, sem ég gat um áðan, að eigandi fyrirtækisins, ríkissjóður, sæi fyrirtækinu fyrir tekjum á annan hátt, sem jöfnuðust niður á landsmenn alla réttlátar en verður með þessu verðjöfnunargjaldi. En hann var líka mjög á móti þeim hugmyndum sem þá voru uppi um Orkubú Vestfjarða, og ég gæti trúað að einmitt tilkoma Orkubús Vestfjarða hafi orðið til þess að sá góði maður sagði af sér stöðu formanns í þeirri nefnd sem þá mælti með Orkubúi Vestfjarða. Ég er alveg viss um að fleiri hefðu fylgt honum hefði það þá legið fyrir, að til stóð að taka 20% af verðjöfnunargjaldinu eingöngu fyrir þann landshluta.

Ég skal ekki hafa þessi orð fleiri. Nú get ég farið að stytta mál mitt, eins og hæstv. forseti óskaði í upphafi. En ég sem borgarráðsmaður minni hl. undirstrika það, vil leyfa mér að ljúka þessu máli mínu með því að lesa upp, eins og áður hefur verið gert í kvöld, þá samþykkt sem ég stóð að með meiri hl. og borgarráð var algerlega sammála um í dag. Borgarráð skrifaði hæstv. iðnrh. bréf, sem er dags. 15. des., og ég ætla að leyfa mér að lesa það, ef hæstv. forseti veitir mér leyfi til, en það hljóðar svo:

„Hr. iðnrh. Hjörleifur Guttormsson,

Arnarhvoli,

Reykjavík.

Eftirfarandi ályktun var samþ. með shlj. atkv. á fundi borgarráðs í dag:

Borgarráð Reykjavíkur mótmælir þeim fyrirætlunum, sem felast í frv. er nú hefur verið lagt fram á Alþ., að hækka verðjöfnunargjald af raforku úr 13% í 19%. Í því sambandi bendir borgarráð á að Rafmagnsveita Reykjavíkur á við fjárhagsvanda að stríða, þar sem stjórnvöld hafa undanfarin ár ekki leyft umbeðnar hækkanir á rafmagnsverði í Reykjavík. Af þeim sökum hefur Rafmagnsveita Reykjavíkur neyðst til að taka erlend lán sem íþyngja nú rekstri fyrirtækisins. Sú fyrirætlan að leggja nú á aukið verðjöfnunargjald mundi þýða 300 millj. kr. aukagjald á notendur Rafmagnsveitu Reykjavíkur. Borgarráð óskar því eindregið eftir því að mál þetta verði tekið til endurskoðunar og athugunar að nýju.

Virðingarfyllst.

Egill Skúli Ingibergsson,

borgarstjórinn í Reykjavík.“

Ég vil taka undir þessa samþykkt borgarráðs hér á hv. Alþ. og skora á þm. að kynna sér vel, kynna sér miklu betur hvað hér er á seyði áður en Rafmagnsveitu Reykjavíkur eða íbúum hér í fjölbýliskjarna á suðurodda landsins er íþyngt á þann hátt sem nú er lagt til á þessu sviði, og það er ekki bara á þessu sviði, heldur á margan annan hátt, sem vakið hefur furðu mína og furðu almennings hér í þessum þéttbýliskjörnum, því að sama gildir um bæði síma, útvarp, sjónvarp, litsjónvarp, hitaveitu og nú rafmagn með enn auknum álögum. Þessu vil ég mótmæla.