15.12.1978
Neðri deild: 34. fundur, 100. löggjafarþing.
Sjá dálk 1629 í B-deild Alþingistíðinda. (1174)

137. mál, verðjöfnunargjald af raforku

Albert Guðmundsson:

Herra forseti. Vegna ræðu þeirrar, sem hv. 3. þm. Suðurl. flutti sem framlag til þessara umr. og gerði lítið úr þeirri krónutöluhækkun sem hér væri um að ræða, þá er ég hræddur um að hann hafi misreiknað sig þegar hann vitnaði í hækkun á eigin rafmagnsreikningi. 6% til viðbótar við 19% er mikil hækkun. Þar sem við eigum báðir sæti í flugráði, þá vil ég benda honum á að upphæð sú, sem nú á að taka af landsmönnum með 19% álagi samkv. þessu frv. og er umfram það sem 13% hefðu gefið, er rúmlega sú upphæð sem lagt er til að fari til flugmála samtals á næsta fjárhagsári. Til flugmála er gert ráð fyrir fjárveitingu að upphæð 600 millj. kr. til framkvæmda, þá á ég við fyrir utan lánsfjáráætlun.

Þá vil ég einnig harma þá fullyrðingu hæstv. iðnrh., að ekki sé mark takandi á grg. Sambands ísl. rafveitna og þar með samþykkt borgarráðs Reykjavíkur frá því í dag. Og ég verð að segja að ég tel það ábyrgðarleysi af ráðh. að taka svona til orða. Hjá Sambandi ísl. rafveitna vinna samviskusamir fagmenn, sem eru þekktir að vönduðum vinnubrögðum. Ég mun óska eftir frekari grg. frá Sambandi ísl. rafveitna vegna ummæla hæstv. orkumálaráðh.