16.12.1978
Sameinað þing: 36. fundur, 100. löggjafarþing.
Sjá dálk 1642 í B-deild Alþingistíðinda. (1180)

54. mál, fjárlög 1979

Frsm. minni hl. (Lárus Jónsson):

Herra forseti. 2. umr. fjárlagafrv. fer nú fram á hinu háa Alþingi á seinasta degi sem til greina kemur ef ljúka á afgreiðslu fjárl. fyrir jól. Fjárlagavandinn er mikill. Marga milljarða skortir á að endar náist saman. Það eitt er víst þótt upplýsingar séu óljósar enn um tekjuhliðina. Við þessar aðstæður gerðist sá einstæði atburður, að einn samstarfsflokkurinn í ríkisstj., Alþfl., setti hinum ríkisstjórnarflokkunum nánast úrslitakosti þvert ofan í samþykkt ráðh. hans í ríkisstj. Hann samþykkti að leggja fram í ríkisstj. einum degi áður en 2. umr. átti að fara fram frv. um efnahagsmál, sem hann vissi að mikill ágreiningur er um innan stjórnarflokkanna, og krafðist þess, að afstaða til þess frv. yrði tekin samhliða fjárlagafrv. Þetta er enn eitt dæmið um þau lögmál frumskógarins sem virðast gilda í samstarfi stjórnarflokkanna. Þjóðin hefur orðið vitni að þessum átökum, þar sem sá þykist hólpinn sem best getur vegið að samstarfsflokki sínum. Þetta stjórnarsamstarf er því þjóðinni þeim mun meiri ráðgáta sem lengur líður á valdaferil núv, hæstv. ríkisstj.

Þetta tiltæki Alþfl. varð til þess, að enginn vissi í gær hér á hinu háa Alþ. hvort þessi umr, færi fram í dag eða einhvern tíma síðar eða samstarf stjórnarflokkanna splundraðist. Af þessu tilefni óskuðum við fulltrúar minni hl. fjvn. eftir skyndifundi í gærkvöld í fjvn. Ætlun okkar var að fá úr því skorið hvernig stjórnarflokkarnir hygðust standa að fjárlagaafgreiðslunni. Örugg vissa hafði borist um að fulltrúar Alþfl. höfðu neitað að skrifa undir nál. með meiri hl. Á fundinum fengust engin svör. En þegar Alþfl. var ljóst að Alþb. og Framsfl. mundu standa án hans að nál. og láta umr. fara fram engu að síður beygðu Alþfl. sig einu sinni enn í þessu stjórnarsamstarfi, eins og hann gerði 1. des., og er orðinn að algeru viðundri fyrir að fylgja þveröfugri stefnu í ríkisstj. við það sem hann lofaði í kosningum.

Við sjálfstæðismenn, fulltrúar minni hl. fjvn., erum algerlega andvígir þeirri meginstefnu sem fram kemur í frv. til fjárl. og efnahagsráðstöfunum hæstv. ríkisstj. sem kenndar eru við 1. sept. og 1. des. Við álítum að gegndarlaus skattheimta, sem er kjarni þessarar stefnu, lami framtaksþrótt einstaklinga og frjálsra félagssamtaka og dragi þannig úr þeim heildaraflafeng sem er til skipta á þjóðarskútunni. Sérstaklega á þetta við um tekju- og eignarskatta, en ríkisstj. stefnir að tvöföldun þeirra á næsta ári miðað við fjárlög í ár, og hún stefnir að því, að nær 70 kr. af hverjum 100, sem launþegar vinna sér inn, fari í opinber gjöld þegar hæsta skattþrepi er náð. Við lítum svo á, að slík ofsköttun leiði til þess að auka ópersónulegt miðstjórnarvald ríkiskerfisins á kostnað einstaklinganna í þjóðfélaginu og til aukinna undanbragða á framtölum til skatts. Við teljum einnig að gífurlegar niðurgreiðslur landbúnaðarvara og matvæta í einu eða öðru formi leysi ekki verðbólguvandann. Aftur á móti skekkja þær ráðstafanir alla verðmyndun í landinu, trufla allt verðskyn fólks og skaða þannig bæði neytendur og framleiðendur, um leið og þær fara í kringum eða falsa vísitölur, svo sem er höfuðtilgangur þeirra.

Þetta frv. og fjárlagaafgreiðslan í heild hefur eftirfarandi megineinkenni:

Hlutfall útgjalda ríkissjóðs miðað við þjóðarframleiðslu stóreykst. Fjármagnstilfærslur, einkum í formi niðurgreiðslna, fara út fyrir öll eðlileg mörk. Skattheimta eykst gífurlega. Verklegar framkvæmdir eru skornar niður. Ríkisbáknið stækkar enn og frv. gerir ráð fyrir fjölmörgum nýjum stöðum hjá ríkinu. Tekjuhalli er fyrirsjáanlegur nema með enn nýjum skattaálögum fram yfir þá nýju skatta sem nú rignir yfir menn hér á hinu háa Alþ. Ljóst er að þessi fjárlög verða því verðbólgufjárlög ef fram fer sem horfir.

Ríkisbáknið þenst út, ef tekið er mið af hlutfalli ríkisútgjalda og þjóðarframleiðslu. Í riti Þjóðhagsstofnunar, Úr þjóðarbúskapnum, er sagt að ríkisútgjöldin verði 29% af þjóðarframleiðslunni árið 1978 og 30% 1979. Það er hækkun úr 27–28% síðustu tvö árin. Þetta eru afleiðingar efnahagsráðstafana ríkisstj. í sept. og des. að sögn Þjóðhagsstofnunarinnar. Þessi niðurstaða þarf ekki að koma neinum á óvart. Vinstri stefna felst einmitt í því að auka afskipti miðstjórnarvalds ríkisins og þrengja að fjárhagslegu svigrúmi einstaklinga og sveitarfélaga í þjóðfélaginu.

Segja má að hvorki meiri hl. né minni hl. fjvn. hafi átt auðvelt með að leggja fram nál. við núverandi aðstæður. Öll hin stærri mál frv. og ríkisfjármálanna eru í algerri óvissu. Ríkisstj. hefur ýmist lofað eða boðað margvísleg útgjöld án þess að séð sé fyrir tekjum. Ýmis dæmi má nefna þessu til áréttingar.

Ríkisstj. ákvað að verja 2 milljörðum kr. til viðbótar til verklegra framkvæmda. Enn vantar a.m.k. 1 milljarð til þess að mæta þeim útgjöldum. Ríkisstj. hefur lofað að lækka tekjuskatta um allt að 3 milljörðum kr. Þeirri skattalækkun á að mæta með því að hækka aðra skatta til jafns við lækkunina. Ríkisstj. lofaði félagslegum umbótum gegn því að launþegar afsöluðu sér 3 verðbótastigum, en það jafngildir 5 milljarða kr. útgjöldum úr ríkissjóði miðað við fyrri aðferðir við niðurgreiðslur. Þetta mun verða efnt með eins milljarðs kr. hækkun á fjárl. Engar upplýsingar liggja þó fyrir um hvernig eigi að verja þeim milljarði, að undanskildum 130 millj. kr. til dagvistarheimila. Ríkisstj. er kunnugt um, að tekjuáætlun frv. er vanáætluð um 1.5 milljarða kr. Ekkert liggur fyrir um tekjuöflun þar á móti. Ríkisstj. er kunnugt um þá staðreynd, að laun opinberra starfsmanna hækka um 3% 1. mars n.k. Fjárveitingu til þess, 1300 millj. kr., er vísvitandi sleppt. Enn er óafgreidd tekjuöflun vegna ýmissa hækkana sem orðið hafa við meðferð fjvn. og nú þegar nema 1300–1400 millj. kr., auk hækkana til framkvæmda. Allt er óráðið með fjárveitingar til Lánasjóðs íslenskra námsmanna, ráðstöfun jöfnunargjalds, skerðingu framlaga ríkissjóðs til Byggðasjóðs, afleiðingar tollalækkunar vegna ákvæða EFTA-aðildar og samnings við EBE. Þessi mál verða því að bíða 3. umr., enn fremur málefni Pósts og síma, Rafmagnsveitna ríkisins, Orkusjóðs, skipting fjárveitinga til menntaskóla, eftirlaunagreiðslur og ýmis erindi, þ. á m. ráðstöfun á olíuprósentu og ákvörðun um olíustyrk. Lánsfjáráætlun, sem átti að leggja fram í nóv., hefur ekki séð dagsins ljós.

Óvissuþættir þessarar fjárlagaafgreiðslu eru því mýmargir. Við fulltrúar minni hl. í fjvn. teljum fjölmargt fleira aðfinnsluvert og gagnstætt okkar stefnu í ráðstöfunum ríkisstj. við þessa fjárlagaafgreiðslu og mun ég ræða sumt af því nokkru nánar síðar.

Allt um þetta, þá höfum við í minni hl. fjvn. lagt okkur fram um að hafa jákvæð áhrif á þá þætti fjárlagaafgreiðslunnar sem við höfum haft möguleika til og í samræmi við það flytjum við sameiginlega brtt. á þskj. 168 með meiri hl., en áskiljum okkur rétt til að flytja eða fylgja brtt. er fram kunna að koma. Í þessu starfi höfum við haft ágæta samvinnu við fulltrúa meiri hl. Ég vil fyrir hönd okkar þakka þessa samvinnu sem er ánægjuleg, og í þessu sambandi vil ég sérstaklega þakka formanni n., hv. þm. Geir Gunnarssyni, fyrir lipurð, umburðarlyndi og réttsýna verkstjórn í n. Sannleikurinn er sá, að samvinna þm. í nefndum er Alþ., að ég hygg, til mikils sóma. Þetta á ekki síst við um fjvn., þótt stundum hlaupi snurða á þráðinn, svo sem eðlilegt er í mannlegum samskiptum. Hvað sem því líður gera fjvn.-menn sér ljóst, hvort sem þeir eru í meiri hl. eða minni hl. hverju sinni, að þeir eru að fjalla um fjármuni almennings þegar ákvarðanir eru teknar um útgjöld úr ríkissjóði. Peningar í ríkiskassanum eru komnir frá fólkinu í landinu þegar öllu er á botninn hvolft. Auðvitað ber að fara með fullri gát þegar þessum takmörkuðu fjármunum er ráðstafað. Um þetta er samstaða og samvinna meðal fulltrúa allra pólitískra flokka í fjvn. á mikilvægum sviðum ríkisbúskaparins. T.d. á þetta við um rekstur rn. og ríkisstofnana, þótt pólitískur ágreiningur sé mikill um hversu langt eigi að ganga í ríkisrekstri og afskiptum ríkisins af athöfnum einstaklinga og félaga. Ég fullyrði að það er vilji allra fjvn.manna, óháð pólitískum skoðunum, að í þeim ríkisrekstri, sem stofnað er til, sé alls sparnaðar og hagsýni gætt. Um þetta er og hefur verið ágæt samvinna, bæði í undirnefnd fjvn., sem annast mikilvægt eftirlit með því að fjárl. sé fylgt í ríkisrekstrinum og framkvæmdum, og einnig í fjvn. Mér er raunar ekki grunlaust um að almenningur á Íslandi mundi líta störf þm. og Alþ. öðrum augum en nú virðist vera ef fólk fengi gleggri fréttir og upplýsingar um gífurlegt starf og heiðarlega samvinnu þm. á mikilvægum sviðum löggjafar þrátt fyrir pólitískan ágreining að öðru leyti.

Á síðasta kjörtímabili hafði þáv. fjmrh., hv. þm. Matthías Á. Mathiesen, forgöngu um að bæta ríkisbókhald og skrá mannafla hjá ríkinu o.s.frv. Ég fullyrði að þetta starf hefur gerbreytt allri fjármálastjórn í ríkiskerfinu til hins betra og traustari tök eru nú á mannahaldi og fjárreiðum ríkissjóðs og ríkisstofnana en áður. Þetta hefur sparað hundruð millj. kr. af almannafé. Mér er engu að síður ljóst, að þessi nýju tæki, greiðsluáætlanir og starfsmannaskráningu, má hagnýta enn betur en gert er. Undirnefnd fjvn., sem starfað hefur yfir sumartímann að eftirliti með framkvæmd fjárl. síðan Magnús Jónsson var fjmrh., ef ég man rétt, veitir mikið aðhald í þessu efni Meiri árangri mætti ná ef fjvn. væri öll kosin til kjörtímabils hverju sinni og undirnefndum fjölgað, þannig að allir fjvn.-menn hefðu eftirlit með fjárreiðum ríkisstofnana. Einnig þarf að veita til þess fé á fjárl. að gera uppskurð á ákveðnum þáttum eftir ábendingum fjvn.-manna í samráði við ríkisendurskoðun og fjárlaga- og hagsýslustofnun. Slík fjárveiting verður e.t.v. tekin í fjárlög í ár, og ég vona að það geti orðið upphaf að því að störfum fjvn. verði breytt á þann hátt sem ég hef lagt hér til að framan, þannig að þetta eftirlit verði eflt og hagræðing aukin í ríkisrekstrinum eftir því sem unnt er.

Núv. hæstv. ríkisstj., sem tók við völdum að loknum kosningum eftir mikið og langt samningaþóf í sumar og ákall Verkamannasambands Íslands, hóf feril sinn með 15% gengisfellingu, álagningu ýmissa skatta, m.a. eignarskatts og tekjuskattsauka, og hækkun sérstaks vörugjalds úr 16% í 30% á „lúxusvarningi“, eins og t.d. sápu og hreinlætisvörum. Þá stórhækkaði hún skatta á atvinnuvegina. Þetta var ekki beinlínis það sem þeir stjórnarflokkar, sem sigruðu í kosningunum, Alþfl. og Alþb., lofuðu kjósendum sínum fyrir kosningar. Kosningaloforð krata um nýja, gerbreytta efnahagsstefnu bjuggust fáir við að yrði þannig í framkvæmd. Alþb. hafði lofað því að skapa svigrúm fyrir atvinnuvegina svo að gengislækkunarleiðin yrði óþörf. Báðir þessir flokkar lofuðu launafólki að sólstöðusamningarnir frá 1977 skyldu ganga að fullu í gildi. Þetta var, eins og menn muna, krafa og kosningaloforð sem yfirskyggði öll önnur landsmál, jafnvel sjálfstæðismál þjóðarinnar, sigra í landhelgismálinu og öryggi landsins. Þetta loforð var svikið. í riti Þjóðhagsstofnunar, Þjóðarbúskapnum, segir að laun allra launþega á árinu 1978 hafi hækkað um 33% í sept. eftir ráðstafanir ríkisstj. á því ári, en hefðu átt að hækka um 43% ef samningarnir væru að fullu í gildi. Þótt gífurlegum fjárhæðum hafi verið varið úr ríkissjóði í niðurgreiðslur og lækkun vísitölu 1. sept. og 1. des., eða svo mjög að hallarekstur verður á árinu 1978 af þeim sökum, sennilega 4–5 milljarðar, þurfti enn að grípa til nýrra og nýstárlegri aðferða til þess að eyða umsömdum vísitölustigum hinn 1. des. s.l. 3% í kaupi var þá eytt með loforði um félagslegar aðgerðir sem eiga að kosta ríkissjóð einn milljarð kr. eða fimm sinnum minna en kostar að greiða vísitöluna niður eftir gamla laginu. Þá skyldu launþegar gefa eftir 2% í kauphækkun vegna lækkunar tekjuskatta. Þetta er enn þá frumlegri aðferð til eyðingar vísitölustiga og lækkunar kaups. Tekjuskattar hafa ekki áhrif á vísitöluna samkv. núgildandi kerfi. Þess vegna hækkar ekki vísitalan neitt þótt frv. til fjárl. fyrir árið 1979 geri ráð fyrir tvöföldun tekjuskatts á næsta ári. Í stuttu máli á vísitalan að standa í stað þegar tekjuskattar hækka, en lækka þegar örlítið er gefið til baka af skattálögum. Sannast sagna eru þessir hringleikar með vísitöluna af hálfu núv. ríkisstj. með ólíkindum, enda sagði einn stjórnarsinna í umr. á Alþ. að auðvitað væri hér um að ræða hliðstæðar aðgerðir og í vor hefðu verið nefndar kauprán.

Hversu haldgóðar eru svo þessar aðgerðir? Það er athyglisvert, að þrátt fyrir að varið yrði 20 milljörðum kr. í auknar niðurgreiðslur í einu eða öðru formi á árinu 1979 og þar að auki eytt 5% kauphækkun 1. des. s.l. með hæpnum ráðum, tvöfaldaðir séu tekju- og eignarskattar og stóraukin skattheimta á öllum sviðum í ríkissjóð, niðurskurður framkvæmda sé verulegur o.s.frv., o.s.frv., er samt svo, að verðbólgan fer naumast maður úr 40% á næsta ári nema með lögþvingun. Hver er ástæðan? Ástæðan fyrir aukinni verðbólgu er auðvitað margþætt, en frumorsaka þess verðbólgustigs, sem er milli 40 og 50%, er að leita til ársins 1974, þegar fyrri vinstri stjórn undir forsæti Ólafs Jóhannessonar hrökklaðist frá völdum.

Ríkisstj. Geirs Hallgrímssonar, sem fékk 1974 yfir 54% verðbólgu frá ársbyrjun til ársloka í arf frá vinstri stjórninni, hafði náð þeim árangri að verðbólga var undir 26% á miðju ári 1977. Á þeim tíma voru gerðir kjarasamningar, svonefndir sólstöðusamningar. Þá var samið um miklar grunnkaupshækkanir í heild og nýja útreikningsaðferð vísitölu. Hvort tveggja hlaut að leiða til mikils skrúfugangs verðlags og launa, þótt hinir lægst launuðu fengju síst ofmældan hlut. Spyrja mætti hverjir hvöttu til slíkra kjarasamninga. Svarið er einfalt. Þar voru fyrst og fremst að verki forustumenn Alþb. og Alþfl. innan launþegasamtakanna og utan.

Þegar sýnt var, að þessir kjarasamningar mundu valda slíkum víxlhækkunum launa og verðlags, að launþegar fengju einungis fleiri verðlausar krónur í sinn hlut, gerði ríkisstj. Geirs Hallgrímssonar ráðstafanir til þess að stöðva eða draga úr þessari óheillaþróun. Samþykkt voru lög frá Alþingi um takmörkun vísitöluskrúfunnar, skattalækkun og niðurskurð ríkisútgjalda í febr. s.l. Þessum lögum var ekki vel tekið, eins og kunnugt er. Fremstir í flokki þeirra, sem brutu þessi lög niður og aðrar viðnámsaðgerðir fyrri ríkisstj. gegn verðbólgu, voru forustumenn Alþb. og Alþfl., bæði innan launþegasamtakanna og á pólitískum vettvangi. Óraunhæf kosningaloforð þeirra um samningana í gildi hafa að vísu fært launþegum fleiri, en jafnframt verðminni krónur í vasann, og verðbólgan hefur magnast. Nú glíma þeir við verðbólgudraug, sem þeir áttu drýgstan þátt í að vekja upp sjálfir, og hafa nú brugðið á það ráð að fara í kringum vísitöluákvæði kjarasamninga til þess að taka aftur af launþegum það litla sem þeir þóttust bæta þeim upp með efndum að hluta á loforðinu um samningana í gildi.

Allt frá því að núverandi stjórnarsamstarf hófst hafa farið fram hatrammar deilur milli stjórnarflokkanna innbyrðis. Í raun og veru virðist þeim fyrirmunað að ná samkomulagi í nokkru máli nema eftir yfirlýsingar í ræðum eða dagblöðum, sérstökunum bókunum í þn. eða beinum hótunum. Ræður formanna þingflokka Alþfl. og Alþb. við 1. umr. fjárl. báru þess glöggt vitni. Till. og umr. um skattamál, vaxtamál og landbúnaðarmál, svo að eitthvað sé nefnt, eru með sama marki brenndar. Fjárlagafrv. var ekki lagt fram fyrr en löngu eftir þingbyrjun. Við 1. umr. kom fram að verulegur ágreiningur um gerð frv. hafði tafið framlagningu þess. Í grg. með frv. komu fram fyrirvarar í 9 liðum og talsmenn stjórnarflokkanna boðuðu enn fleiri. Jafnvel hæstv. fjmrh. sjálfur hafði fyrirvara um ýmis atriði frv. Þeir fyrirvarar, sem taldir voru í grg., voru eftirfarandi:

1. Aðferð við skattheimtu. Heildarupphæð skatta skyldi þó ekki vera lægri en allir samanlagðir þeir skattstofnar, sem fyrir voru, mundu gefa af sér og auk þess skattauka-, sértekju- og eignarskattar og lúxusskattar, m.a. á hreinlætisvöru, sem lagðir voru á í sept., eftir að núv. ríkisstj. kom til valda. Um þennan fyrirvara hefur staðið illvígur styrr milli stjórnarflokkanna allt fram á þennan dag, og virðist ekki samkomulag um neitt nema þá stefnu að þyngja enn skattbyrðina á fólki.

2. Lögð skyldi sérstök áhersla á að lækka rekstrarkostnað ríkisins um 1 milljarð frá útgjaldaáformum samkv. frv. Ekkert hefur bólað á mótuðum till. í þessu efni þótt samstaða sé um aðhald og sparnað á þessu sviði í fjvn.

3. Fyrirvari var um lækkun tolla samkv. samningum við EFTA og Efnahagsbandalagið. Þessi tollalækkun hefur í för með sér tekjutap ríkissjóðs að upphæð 2 milljarðar kr. samkv. nýrri áætlun, en var metin 1350 millj. kr. í frv. Óljóst er enn hvort þessi tollalækkun verður framkvæmd.

4. Stefnt var að 20% magnminnkun verklegra framkvæmda í frv. Svigrúm var talið til þess að hækka fjárveitingar um 2 milljarða. Þetta var gert löngu áður en sást hvernig heildardæmi ríkissjóðs kæmi út, og verður niðurskurðurinn 12% að magni til samkv. því í A-hluta fjárl. á sviði verklegra framkvæmda.

5. fyrirvari var um ráðstöfun jöfnunargjalds, en 1/3 þess, 333 millj. kr., á samkv. frv. að renna í ríkissjóð, en ekki til stuðnings iðnaði. Að auki renna 91 millj. kr. til þess að standa undir venjulegum útgjöldum ríkissjóðs. Gjaldið á að gefa 1000 millj. kr. í tekjur og greiðist uppsafnaður söluskattur af því, samtals 500 millj, kr. Einungis 76 millj. kr. af þessu gjaldi ættu þá að fara til iðnþróunar. Ekki liggur fyrir enn hvort þessi ráðstöfun verður endurskoðuð af stjórnarflokkunum.

6. fyrirvari er um lánsfjáröflun til orkumála. Lánsfjáráætlun er ekki komin fram og ekkert vitað um stefnuna á þessu sviði og í raun ekki vitað hvort þessi áætlun kemur fram fyrir þinglok nú í jólaleyfi.

7. fyrirvari er um niðurgreiðslur á vöruverði. Nú hafa niðurgreiðslur verið auknar um sem svarar 1/2% til vísitölulækkunar. Áætlað er að þetta kosti 750 millj. kr. umfram það sem ákveðið er í frv., og er þetta komið inn í till. fjvn. Samkv. frv. er ákveðið að lækka niðurgreiðslur á móti á næsta ári og létta þannig útgjöldum af ríkissjóðinum 2800 millj. kr. Engar upplýsingar fást um hvenær þetta verður gert og ekki heldur hvernig né hvaða áhrif þetta hafi á verðlag.

8. fyrirvari er um styrkja- og útflutningsbótakerfi landbúnaðarins. Fyrirheit er í frv. um endurskoðun á styrkja- og útflutningsbótakerfi landbúnaðarins, en ekkert bólar á till. í þessu efni.

9. fyrirvari er um hversu há skattvísitala skuli vera á næsta ári. Samkv. frv. átti hún að hækka um 43% frá árinu 1978. Laun hækka samkv. aths. frv. um 50–51% á sama tíma. Með þessari breytingu skattvísitölu hefði álagning orðið 3700 millj. kr. hærri á næsta ári. Innheimta þessa sérstaka skatts af kaupmáttaraukningu launþega hefði numið 3 milljörðum á árinu 1979. Ef hverfa á að því að láta skattvísitöluna hækka jafnt og launatekjur hækka milli áranna þýðir það þriggja milljarða kr. tekjutap á tekjuhlið fjárlagafrv.

Þegar þannig er staðið að framlagningu fjárlagafrv. og ákvörðunum um grundvallaratriði við fjárlagaafgreiðsluna af hálfu ríkisstj. er örðugt, svo að ekki sé meira sagt, fyrir fjvn.-menn, bæði í meiri og minni hl., að vinna að afgreiðslu málsins á þinglegan hátt. Slík vinnubrögð eru ósamboðin Alþ. og má raunar segja að þau séu óþingræðisleg.

Með fjárlagafrv. er stefnt að hrikalegri hækkun skatta, einkum tekju- og eignarskatta. Áætlaðar tekjur af þessum sköttum í sjálfu frv. hækka sem hér segir miðað við fjárlög í ár: Eignarskattur einstaklinga úr 920 millj. í 1 milljarð 733 millj. eða um 93.9%, tekjuskattur einstaklinga úr 11 milljörðum 950 millj. í 23 milljarða 265 millj. eða um 94.7%. Eignarskattur á félög hækkar úr 980 millj. upp í 2286 millj. eða um 133.3%, og tekjuskattur á félög hækkar úr 3.1 milljarði í 6 milljarða eða um 93.5%. Í þingræðum hafa svo komið fram fyrirætlanir stjórnarflokkanna um að gera skyldusparnaðinn að hátekjuskatti og er, að mér skilst, frv. um þetta þegar komið fram. Þetta þýðir að nálægt 70 kr. af hverjum 100 eru teknar af tekjum manna til sveitarfélaga og ríkis þegar komið er í hæsta skattþrep. Augljóst er að svo gífurleg skattheimta á tekjur dregur úr sjálfsbjargarviðleitni manna til vinnu og hvetur mjög til að finna ráð til þess að komast undan svo gegndarlausri skattheimtu. Þótt unnt sé að benda á dæmi þess erlendis, að slíkir jaðarskattar séu til, þá er á það að benda, að þar er um að ræða miklu hærri tekjur, sem skattlagðar eru með þeim hætti, en ætlunin er að gera hér á landi.

Öll kurl eru þó ekki komin til grafar í skattaæði ríkisstj. Í grg. með efnahagsfrv. hennar 1. des. segir að ríkisstj. sé að athuga veltuskatta á ýmiss konar rekstur, fjárfestingarskatt og aukinn eignarskatt. Samt segir svo um stöðu atvinnuveganna í aths. sjálfs fjárlagafrv.:

„Vegna slakrar afkomu fyrirtækja í mörgum atvinnugreinum að undanförnu er reiknað með að álagning tekjuskatts félaga aukist töluvert minna en sem nemur áætlaðri almennri veltubreytingu milli áranna 1977 og 1978.“

Spyrja mætti því í samræmi við þetta, hvort ríkisstj. stefni vísvitandi að stöðvun fyrirtækja og atvinnuleysi með gegndarlausum álögum á atvinnureksturinn sem hún hefur þegar ýmiss beitt sér fyrir eða virðist stefna að. Hvort tveggja ofsköttun einstaklinga og atvinnurekstrar leiðir til minnkandi framtaks og atvinnu, minni þjóðartekna og versnandi lífskjara.

Ein af forsendum fjárlagafrv. var 20% magnminnkun verklegra framkvæmda í höfnum, skólabyggingum, heilsugæslustöðvum, nýbyggingum vega o.s.frv. Í framkvæmd guggnuðu stjórnarflokkarnir á svo miklum niðurskurði. Niðurskurðurinn varð þó að magni til 12%, eins og ég sagði áðan, miðað við fjárlög 1978, en sennilegra er að hann verði enn meiri í raun, þar sem verðbólgan er lágt áætluð í þeim útreikningum. Engin tilraun er gerð til niðurskurðar í rekstrarútgjöldum ríkissjóðs og ríkisstofnana þrátt fyrir frómar óskir í aths. frv. um 1 milljarð í niðurskurð, sem þó væri einungis 0.6% af rekstrargjöldum frv. og 0.7% ef frá eru dregnar niðurgreiðslur.

Þetta er merkileg niðurskurðarstefna, þegar höfð er í huga gagnrýni fulltrúa Alþfl. og Alþb. í fjvn. á fyrra kjörtímabili. Þá sagði hv. þm. Sighvatur Björgvinsson við afgreiðslu fjárl. 1978: „Allt, sem ríkisbáknið þarf til framfærslu, er látið ósnert.“ Og þegar hann ræddi um framkvæmdir í skólabyggingum, höfnum, sjúkrahúsum o.s.frv. sagði hann: „M.ö.o.: niðurskurðarstefnan, sem talað er um að sé fólgin í þessu frv., er fyrst og fremst á þessum sviðum. Það eru skornar niður framkvæmdir og sú þjónusta þar sem fólkið fær áþreifanlega sönnun fyrir því, að fjármunir, sem það leggur til sameiginlegra þarfa, komi að gagni.“

Sömu hugsun má finna í öllum sameiginlegum nál. fulltrúa þessara flokka um fjárlagafrv. hvert einasta ár á fyrra kjörtímabili. Þetta segir sína sögu um pólitíska ábyrgð í stjórn og stjórnarandstöðu. Ljóst er að ákvarðanir þessara flokka um niðurskurð á fjármagni til verklegra framkvæmda nú sanna að þeir hafa ákveðið að ganga lengra á þeirri braut en áður hefur verið gert og gera þannig fyrri gagnrýni sína um þessi efni að algerri markleysu.

Mjög athyglisvert er að fyrir fjvn. liggur till. frá meiri hl. um að skerða framkvæmdamagn í nýbyggingum vega og brúa um 12% frá fyrra ári. Þetta er gert á sama tíma sem skattar á umferðina eru hækkaðir langt umfram verðbólgu og bensíngjald í Vegasjóð á að hækka um tæplega 68% eða rúmlega 3 milljarða kr. Framlag ríkissjóðs til Vegasjóðs, sem í fjárl. 1978 er 1305 millj., er skorið niður um tæplega 1 milljarð á sama tíma. En áfram er haldið stórauknum álögum á umferðina í ríkissjóð.

Beint framlag ríkissjóðs til Byggðasjóðs í frv. er skorið niður um þriðjung; ef mið er tekið af heildarútgjöldum frv. í fyrra og fjárlagafrv. nú. Lög sjóðsins eru beinlínis brotin og ráðstöfunarfé hans skorið niður um 1130 millj. kr., þótt reynt sé að klóra í bakkann með bókhaldskúnstum.

Það er athyglisverð byggðastefna sem fram kemur í þessum niðurskurði á öllum framangreindum sviðum: verklegum framkvæmdum í höfnum, skólum og sjúkrahúsum, vegagerð og framlögum til Byggðasjóðs. Í því sambandi má minna á að fyrrv. ríkisstj. stórefldi Byggðasjóð og hefur hann reynst mikil lyftistöng atvinnulífs í byggðum landsins.

Rekstrarliðir ríkisbáknsins þenjast stöðugt út á kostnað fjárfestingarþáttanna. Þetta er auðvitað nokkuð mismunandi á milli einstakra stofnana. Lengst virðist gengið í hækkun rekstrarútgjalda á skrifstofum ráðh. sjálfra, aðalskrifstofum rn., eða allt upp í 116% á einni skrifstofunni. Rekstur ríkisspítalanna hækkar um 75.4% eða 4760 millj. kr. Er þá gert ráð fyrir að velta sem svarar 940 millj. kr. af lyfjakostnaði og sérfræðiþjónustu yfir á herðar sjúklinganna sjálfra. Enn hefur ekki að fullu verið gert upp dæmið um fjölgun starfsmanna í þessum stofnunum.

Fleiri dæmi verða ekki nefnd hér um þenslu ríkisútgjalda hjá einstökum stofnunum. Er þó af nógu að taka.

Sérstök ástæða er til að minna á málefni Íþróttasjóðs. Íþróttasjóður hefur tvíþættu hlutverki að gegna: annars vegar að standa undir stofnkostnaðarhluta ríkissjóðs við byggingu íþróttamannvirkja og hins vegar að úthluta kennslustyrkjum til íþróttafélaga eins og sjóðurinn hefur fé til í samræmi við starfsskýrslur íþróttafélaganna. Samkv. frv. er fjárveiting til Íþróttasjóðs óbreytt eða 247 millj. Þegar ákveðið var af ríkisstj. að verja 2 milljörðum kr. til viðbótar til verklegra framkvæmda ákvað meiri hl. fjvn. að 75 millj. kr. skyldu ganga til Íþróttasjóðs. Enn fremur hefur fjvn. gert till. um 5 millj. kr. þar til viðbótar, þannig að samtals nemur hækkun framlaga til Íþróttasjóðs um 30% frá fjárl. þessa árs. Þar af eiga 24 millj. kr. að ganga til kennslustyrkja. Hér er vitaskuld um svo lága upphæð að ræða þegar þess er gætt, að fjárþörf sjóðsins til að standa við skuldbindingar sínar nemur um 600 millj. kr. þrátt fyrir verulegan niðurskurð á ýmsum nýjum framkvæmdum, að nánast er hlægilegt. Kennslustyrkir verða svo lágir í hlut hvers íþróttafélags, að spurning fer að verða um hvort það taki því að deila þeim út. Þessi afgreiðsla er því dapurlegri þar sem fjmrh. fór um það sérstökum orðum í fjárlagaræðu sinni að efla þyrfti og styrkja íþróttastarfið í landinu.

Í fjárlagafrv. er ákveðið að framlög ríkissjóðs til fjárfestingarsjóða séu skorin niður um 10% eða 993 millj. kr. Í veigamiklum atriðum þýðir þetta að lagðir eru nýir skattar á atvinnuvegina. Í ríkissjóð renna þannig 620 millj. af launaskatti í stað þess að launaskattur á að renna til Byggingarsjóðs ríkisins. Lánamöguleikar húsnæðismálastjórnar minnka, en ríkissjóður fær nýjan tekjustofn. Framlag til Byggingarsjóðs verkamanna er einnig skert í samræmi við þessar reglur, og er það í annað skipti sem þessi vinstri stjórn hefur skorið niður framlög til sjóðsins á nokkurra mánaða valdatíma sínum. Á sama tíma eru fluttar ótal ræður af hálfu óbreyttra þm. í stuðningsliði ríkisstj. um nauðsyn þess að efla Byggingarsjóð verkamanna.

Athygli vekur að enn hafa ekki sést lagafrv., hvað þá að samþykkt hafi verið lög sem kveða á um þennan niðurskurð, en framlög til ýmissa af þessum sjóðum eru lögbundin. Hlutverki þeirra er því í vaxandi mæli velt yfir á herðar einstaklinga og sveitarfélaga.

Ráðstöfun þess hluta söluskatts, 1% af 20, sem lagt var á til þess að draga úr upphitunarkostnaði þeirra sem kynda hús sín með olíu og til þess að hraða nýtingu innlendra orkugjafa til húshitunar, hefur oft verið harðlega gagnrýnd af talsmönnum Alþb. og Alþfl. Tekjur af þessu olíugjaldi, sem svo hefur verið nefnt, eru áætlaðar 3200 millj. kr. Samkv. frv. er ætlunin að greiða einungis 680 millj. kr. í olíustyrk og hafa styrkinn óbreyttan í krónutölu til hvers íbúa, sem býr í olíuupphitaðri íbúð, 10500 kr. á mann. Fram hefur komið í fjvn. hugmynd um að hækka þetta um 230 millj. kr. eða um 33%, sem auðvitað nær ekki verðlagshækkun. Þótt það yrði samþykkt yrði heildarupphæð olíustyrks einungis 910 millj. kr. Áættað er að verja 700 millj. kr. í jarðhitaleit og hitaveituframkvæmdir af þessum tekjum. Eftir standa 1590 millj. kr. af olíugjaldinu sem renna til ríkissjóðs ef þessi verður niðurstaðan.

Lánasjóður íslenskra námsmanna hefur gert nákvæma grein fyrir því, að fjárþörf sjóðsins til þess að hann geti veitt lán til þess að brúa 85% af umframfjárþörf námsmanna er 700 millj. kr. hærri en framlög samtals í fjárlagafrv. nema. Í útgjöldum frv. er gert ráð fyrir rúmlega 2230 mill j. kr. í þessu skyni, auk lántöku að upphæð 400 millj. kr. Ef farið væri að fyrri till. núv. hæstv. menntmrh. Ragnars Arnalds um að fullnægja 100% umframfjárþörf yrði fjárvöntunin um 1200 millj. kr. Námsmenn leggja einnig mikla áherslu á að tekið sé tillit til framfærslukostnaðar barna sem þeir hafa á framfæri, en til þess þyrfti að auka fjárveitingu um 200 millj. kr. Samkv. þeim upplýsingum, sem fram hafa komið í fjvn., er einungis ætlunin að auka framlag til Lánasjóðsins með því að ábyrgjast honum 700 millj. kr. lán í viðbót við þá lánsheimild sem fyrir er í frv. Lántökur til sjóðsins yrðu því 33.3% af heildarframlögum, sem er meira en tvöfalt hærra hlutfall en áður. Ekki verður veitt fé til þess að hægt sé að taka tillit til barna á framfæri og þaðan af síður farið eftir till. hæstv. núv. menntmrh. á Alþ. þegar hann var í stjórnarandstöðu, ef afgreiðsla þessa máls verður með þessum hætti.

Framangreind dæmi um óraunsæi og vanáætlun í útgjöldum og tilhneigingu ríkisstj. til þess að krækja í einn milljarð þar og einn hér sýna hvert er stefnt með þessari fjárlagaafgreiðslu. Auk ofsköttunar á atmenning og atvinnurekstur er seilst í skatta sem áður gengu til ýmissa félagslegra verkefna, eins og t.d. íbúðabygginga. Þannig er þrengt að einstaklingum og sveitarfélögum, bæði með beinni skerðingu skattstofna og með því að ofbjóða gjaldþoll þegnanna með sköttum í ríkissjóð.

Sömu óraunsæju vinnubrögðin eru viðhöfð við undirbúning og afgreiðslu þessara fjárl. og 1974, en þá var vinstri stjórn við völd. Þá var ákveðið við fjárlagaafgreiðslu að lækka niðurgreiðslur á árinu 1974 um 500 millj. kr. og þannig skilinn eftir óleystur vandi sem frestað var að leysa við fjárlagaafgreiðsluna. Enn fremur voru þá umsamdar launahækkanir á fjárlagaárinu ekki teknar með til útgjalda. Nú er hið sama uppi á teningnum. Frestað er þeim vanda til næsta árs að lækka útgjöld til niðurgreiðslna um 2800 millj. Betur að ekki fari eins og á árinu 1974, en þá ákvað ríkisstj. að hækka niðurgreiðslur í stað þess að lækka þær.

Í gildandi fjárl. var áætlað fyrir samningsbundnum launahækkunum og verðbótahækkunum að auki miðað við ákveðnar forsendur. Þetta er nauðsynleg forsenda þess, að hægt sé með góðu móti að hafa eftirlit með þessum greiðslum og nota fjárl. þannig sem eftirlits- og stjórnunartæki. Þessu er ekki að heilsa nú. Meira að segja er ekki ætlað fyrir 1300 millj. kr. útgjöldum vegna samningsbundinnar 3% launahækkunar ríkisstarfsmanna 1. mars, eins og ég sagði áðan. Samtals er hér í raun um vanáætlun útgjalda að ræða um 4.2 milljarða, ef raunsætt væri staðið að fjárlagaafgreiðslunni. Ef fara ætti hliðstætt að um fjárlagaafgreiðslu fyrir 1979 eins og gert var fyrir yfirstandandi ár ætti einnig að áætla fyrir útgjöldum sem verða á árinu 1979 vegna ákvæða vísitölubindingar launa og bóta almannatrygginga. Sú upphæð nemur rúmlega 9 milljörðum kr, ef verðlag hækkar um 5% á þriggja mánaða fresti, eins og gengið er út frá í grg. með frv. ríkisstj. að 1. des. ráðstöfununum.

Undanfarin ár hefur náðst sá árangur í bættum vinnubrögðum í fjárlagagerð þrátt fyrir mikla verðbólgu, að minnkað hefur það bil sem er milli ríkisreiknings og fjárlaga. Hækkun útgjalda ríkissjóðs reyndist þannig miðað við niðurstöður ríkisreiknings frá fjárl. í prósentum. 1974 reyndist hækkunin frá fjárl. til ríkisreiknings 37.1%, 1975 21.6%, 1976 16.1% og 1977 10.2%. Sú heildarmynd kemur út úr þessu dæmi, að það hefur tekist að færa fjárlagagerðina í raunsæjara horf á undanförnum árum miðað við raunveruleg ríkisútgjöld. Því miður eru horfur á að nú sæki í fyrra horf að þessu leyti og fjárl. verði því verra tæki til þess að stjórna ríkisfjármálum en verið hefur.

Öll er meðferð og afgreiðsla þessa fjárlagafrv. með endemum. Óvissa hefur verið um það fram á síðustu stundu, hvort eða hvenær 2, umr. færi fram. Umr. er að lokum ákveðin á síðustu stundu með fárra klukkustunda fyrirvara. Einn stjórnarflokkanna hefur allsherjarfyrirvara um stuðning við frv. Í þessu sambandi vil ég gjarnan taka það fram, að mér er næsta óskiljanlegt hvernig hv. Alþfl.-menn standa að fyrirvara sínum við meirhlutaálit hv. fjvn. Í fyrirvara Alþfl. segir:

„Hins vegar er ljóst, að sumar þær afgreiðslur, sem till. hefur verið gerð um, þarfnast endurskoðunar varðandi meðferð till. Alþfl. um ríkisfjármál o. fl. sem eru til meðferðar í ríkisstj.

Sem sagt, þær till., sem fjvn. hefur gert sameiginlega og hv. fulltrúar Alþfl. hafa staðið að í fjvn., þarfnast endurskoðunar samkv. þessu, og um það gerir Alþfl. till., að það verði leiðrétt sem hann er búinn að gera í tillögugerð til 2. umr, við afgreiðslu þessa máls, eftir því sem ég skil þennan fyrirvara. Ég lít svo á sem þetta sé enn furðulegri fyrirvari heldur en hér hefur áður komið fram um afstöðu þessara hv. þm. við fjárlagaafgreiðsluna.

Tekjufrv., sem fylgja áttu frv. til fjárl., hafa ekki sést fyrr en nú í gær. Stefnt er að gífurlegri skattheimtu. Engin tilraun er gerð til þess að draga úr ríkisbákninu, og mýmörgum viðamiklum útgjaldaliðum er slegið á frest vegna ósamkomulags innan ríkisstj. Enginn veit því hver örlög þessa fjárlagafrv. verða, en frv. og meðferð þess á þingi verður óbrotgjarn minnisvarði um stjórnarsamstarf sem þjóðinni verður því meiri ráðgáta sem lengri tími liður.