16.12.1978
Sameinað þing: 36. fundur, 100. löggjafarþing.
Sjá dálk 1652 í B-deild Alþingistíðinda. (1181)

54. mál, fjárlög 1979

Sighvatur Björgvinsson:

Herra forseti. Ég vil í stuttu máli gera grein fyrir fyrirvara fulltrúa Alþfl. í fjvn. með nál. meiri hl. fjvn. og þeirri afstöðu sem þingflokkur Alþfl. hefur tekið til fjárlagafrv. og meðferðar þess nú við 2. umr.

Eins og segir í fyrirvara okkar, sem prentaður er í nál. meiri hl. fjvn. á þskj. 201, höfum við Bragi Sigurjónsson, hv. þm., sem eigum sæti í fjvn. af hálfu Alþfl., tekið fullan þátt í störfum n. og öllum undirbúningi tillögugerðar n. til 2. umr. og erum að sjálfsögðu aðilar að þeim ákvörðunum sem n. hefur tekið í því sambandi. Við erum einnig aðilar að því meirihlutasamstarfi, sem er í fjvn., höfum setið alla meirihlutafundi og berum jafna ábyrgð öðrum meirihlutamönnum í fjvn. á þeim ákvörðunum sem meiri hl. hefur lagt til að teknar yrðu.

Eins og fram hefur komið hér á hinu háa Alþ. hefur Alþfl. nú alveg nýverið kynnt ríkisstj. till. sínar í frv. til l. um jafnvægisstefnu í efnahagsmálum og um samræmdar aðgerðir gegn verðbólgu. Í samþykkt flokksstjórnar Alþfl. um frv. segir að flokksstjórnin leggi áherslu á að núv. stjórnarflokkar afgreiði þær till., sem í frv. felast, áður en fjárlagafrv. og lánsfjáráætlun verða endanlega afgreidd. Þessi mál eru nú til umfjöllunar í ríkisstj. En till. Alþfl. í umræddu frv. eru byggðar á grg, með frv. til l. um tímabundnar ráðstafanir til viðnáms gegn verðbólgu sem ríkisstj. bar fram á Alþ. nú í haust. Sú grg. er væntanlega samþ. af ríkisstjórnarflokkunum öllum, allténd af öllum ráðh. ríkisstj., enda grg. með stjfrv., og ber því að skoða hana sem almenna stefnumörkun ríkisstj. í efnahagsmálum á næsta ári.

Við fulltrúar Alþfl. í fjvn. og þingflokkur Alþfl. hefðum kosið að unnt hefði verið að geyma 2. umr. um fjárlagafrv. um skeið á meðan ríkisstj. og flokkar hennar fjalla um till. okkar í efnahagsmálum, þannig að afgreiðsla ríkisstj. á þeim hefði getað mótað fjárlagagerðina þegar við 2. umr. Á hitt er að líta, að áður en samþykkt flokksstjórnar Alþfl. var gerð hafði fjvn. lokið tillögugerð sinni til 2. umr. Fyrir okkur hafði verið lagt nál. meiri hl., við höfum samþ. það efnislega og 2. umr. fjárlagafrv. að öllu leyti verið undirbúin og þeim undirbúningi lokið af hálfu fjvn. Það er ekki kostur sökum tímaskorts að fresta þessari umr., og fulltrúar Alþfl. í fjvn. vilja ekki standa í vegi fyrir því, að 2. umr. geti farið fram, og koma þannig í veg fyrir að þær till. fjvn., sem öll n. hefur samþykkt, geti fengið þinglega meðferð. Við viljum ekki koma þannig í veg fyrir þinglega meðferð till. sem fjvn., sem skipuð er fulltrúum bæði stjórnar og stjórnarandstöðu, hefur afgreitt fyrir allnokkru.

Hins vegar er það alveg ljóst, að sumar þær afgreiðslur, sem till. er nú gerð um af n. allri, kunna að þarfnast endurskoðunar varðandi meðferð till. Alþfl. um ríkisfjármál o.fl. sem eru til meðferðar í ríkisstj. En það er líka jafnljóst, að ef svo er að endurskoða þarf slíkar till. og þær ákvarðanir sem hér eru teknar, þá gefst að sjálfsögðu tími til þess að koma þeirri endurskoðun fram áður en 3. umr. hefst og afgreiðslu frv. lýkur.

Afstaða sú sem við þm. Alþfl. höfum mótað er eftirfarandi:

Við hv. þm. Bragi Sigurjónsson, sem stöndum með öðrum fulltrúum í fjvn.till. fjvn. sem hér hafa verið fram lagðar á sérstöku þskj., munum að sjálfsögðu fylgja þeim till. við atkvgr. við lok 2. umr. Þm. Alþfl. hafa fjallað um sumar þessar till. í kjördæmahópum og bera hver og einn í sínum kjördæmisþingmannahópi ábyrgð á þeirri afgreiðslu sem þar hefur verið gerð. Þeir munu að sjálfsögðu standa við þá afstöðu sína í atkvgr. hér í þinginu þegar þær till. verða bornar upp. Að öðru leyti munu þm. Alþfl. láta afgreiðslu málsins fram hjá sér fara.

Það er því ljóst, að við þm. Alþfl. munum standa við þær ákvarðanir sem við höfum þegar tekið og bundið okkur til að fylgja. Hins vegar er það ljóst, eins og ég tók fram áðan, að vera kann að eftir þá meðferð, sem till. okkar kunna að fá í ríkisstj., þarfnist þær afgreiðslur, sem gerðar verða eftir 2. umr., endurskoðunar áður en frv. til fjárl. er afgreitt.

Sama máli gegnir að sjálfsögðu um þau tekjuöflunarfrv. sem fylgja fjárlagaafgreiðslunni. Við munum ekki standa í vegi fyrir því, að þau fái eðlilega þinglega meðferð, en endanlega afstöðu munum við að sjálfsögðu taka til þeirra tekjuöflunarfrv. og fjárlagadæmisins í heild eftir því hvaða niðurstaða verður í hæstv. ríkisstj. varðandi þær till. sem við höfum þar lagt fram. Við viljum gefa hæstv. ríkisstj. og samstarfsflokkum okkar þann tíma sem ríkisstj. og samstarfsflokkar okkar þurfa til þess að skoða þessi mál. Á meðan munum við ekki standa gegn því, að þingleg vinnubrögð verði viðhöfð hér í þinginu, enda væri það óeðlilegt. En endanleg afgreiðsla af okkar hálfu mun ekki fara fram fyrr en niðurstaða liggur fyrir af þeim athugunum sem væntanlega eiga sér stað hjá samstarfsflokkum okkar og í hæstv. ríkisstj. á þessum till. Náist ekki samkomulag er þannig ljóst að það yrði vegna efniságreinings, en ekki af þeim völdum að við Alþfl.-menn ætluðum með einum eða öðrum hætti að standa gegn eðlilegri þinglegri afgreiðslu og meðferð mála hér í þinginu.

Herra forseti. Baráttan gegn verðbólgunni, trygging atvinnu og verndun kaupmáttar táglaunafólks er meginviðfangsefni þessarar hæstv. ríkisstj. Þau mál hafa m.a. verið leyst, þ.e.a.s. fyrst og fremst verðbólgumálin, til skamms tíma með ýmsum aðgerðum, þ. á m. með samkomulagsaðgerðum við verkalýðshreyfinguna um að hún gefi nokkuð eftir. En það þarf að sýna meira en óskir til verkalýðshreyfingarinnar um eftirgjöf af kaupi. Ríkisvaldið verður líka að sýna vilja sinn og getu til þess að mæta fólkinu a.m.k. á miðri leið. Það verður að koma fram í afgreiðslu á ríkisfjármálum fyrir næsta ár og þeirri stefnumörkun sem þar er ákveðin um þjóðhagsstærðir á árinu 1979. Ríkisstj. verður að sjálfsögðu undir slíkum kringumstæðum að vera við því búin að beita aðhaldi; m.a. að fórna framkvæmdasjónarmiðum. Ráðh. verða þar að beita sjálfa sig aga. Ef það er ekki gert er hætt við því, að verðbólguvandinn verði annaðhvort ekki leystur eða leystur svo til alfarið á kostnað launþega.

Við Alþfl.-menn erum algerlega andvígir því, að slík staða komi upp. En vera kann að menn eigi aðeins um þetta að velja og hver orrusta, sem tapist í þessum málum, sé ekki töpuð fyrir stjórnmálaflokk eða stjórnmálamenn, heldur fyrst og fremst fyrir launafólkið í þessu landi. Við erum andvígir því, að verðbólgan verði alfarið leyst hér eftir, eins og oft hefur verið, fyrst og fremst á kostnað launastéttanna í landinu. Við viljum að ríkisvaldið og Alþ. gangi á undan með góðu fordæmi.

Herra forseti. Það á ekki að skipta þm. mestu máli hversu lengi þeim gefst kostur á að gegna þingmannsstörfum, heldur hitt, hvernig þeir haga viðleitni sinni hér á Alþ. svo lengi sem þjóðin sýnir þeim trúnað til þeirra starfa. „Að skiljast við ævinnar æðsta verk í annars hönd, það er dauðasökin,“ segir í kvæðinu Einræður Starkaðar eftir Einar Benediktsson. Í kosningabaráttunni í vor hétum við frambjóðendur og nú þm. Alþfl. því að beita okkur af öllum mætti í baráttunni gegn verðbólgu. Það má segja að það sé okkar æðsta verk hér í þingsölum, og við viljum ekki, herra forseti, skilja við það í annars hönd, a.m.k. ekki að óreyndu.