16.12.1978
Sameinað þing: 36. fundur, 100. löggjafarþing.
Sjá dálk 1659 í B-deild Alþingistíðinda. (1184)

54. mál, fjárlög 1979

Vilmundur Gylfason:

Herra forseti. Ég hafði talað fyrir og mætt með allnokkrum breytingum í niðurskurðarátt á því frv. til fjárlaga sem hér er verið að ræða. En þar sem ég lít svo á, að meginþungi þeirra umr. muni fara fram við 3. umr. um þetta frv., tel ég nægjanlegt að vinna að þessum till. á milli 2. og 3. umr. og flytja þær að öðru leyti þá.

Sighvatur Björgvinsson, hv. þm., formaður þingflokks Alþfl., hefur lýst afstöðu þingflokks okkar að því er tekur til afstöðu til þessarar umr. Eins og öllum þingheimi er um kunnugt, hefur flokksstjórn Alþfl. samþ. frv. til l. um jafnvægisstefnu í efnahagsmátum og samræmdar aðgerðir gegn verðbólgu og jafnframt hefur flokksstjórnin ályktað að ríkisstjórnarflokkarnir taki afstöðu til þessa frv., móti afstöðu til þess og samþ. frv. þessa efnis áður en afgreiðslu fjárlaga sé lokið eða fyrir 3. umr. fjárlaganna. Ég geri ráð fyrir að í það verði lögð vinna nú á milli 2. og 3. umr. þessa fjárlagafrv. að vinna slíkt frv., leggja það fram og marka þar með efnahagsstefnu til næstu tveggja ára. Jafnframt er augljóst að nái þessi vinnubrögð fram að ganga, þá verður ríkisstj. að standa fyrir allverulegum breytingum á fjárlagafrv. í niðurskurðarátt og þar með skattalækkunarátt, til þess að stefna í verðbólgumálum sé mörkuð nokkuð önnur en nú hefur verið gert um sinn.

Ég vil sérstaklega þakka hæstv. forsrh. mjög vinsamleg ummæli og mjög vinsamlegar undirtektir sem frumvarpsdrög okkar jafnaðarmanna fengu í ræðu hans hér á Alþ. í gær. Einnig vegna þess er auðvitað fullkomlega ástæðulaust annað en að láta umr. fjárl., sem er tæknilegs eðlis fyrst og fremst, fara fram, en hinar veigamiklu ákvarðanir um framhald efnahagsstefnunnar verði síðan teknar á milli 2. og 3. umr. Mér þótti hæstv. forsrh. taka ákaflega viturlega á þessum málum í gær, og það er augljóst að hann hefur á því fullan skilning af hverju við leggjum til að þessi leið sé farin. Ég vil samt fara um það nokkrum orðum, af hverju við leggjum til að þessi leið sé farin.

Það er alveg ljóst, að við í Alþfl. höfum lagt þunga áherslu á að verðbólguvandinn sitji í fyrirrúmi og jafnvel að öðrum markmiðum sé fórnað að hluta a.m.k. til þess að ná markmiði í verðbólgumálum. Það er líka ljóst, að það hefur orðið nokkur uppsöfnun í fjárlagafrv. nú á allra síðustu dögum og í endanlegri mynd eru ríkisfjármálin engan veginn fullnægjandi og eiginlega langt frá því að því er tekur til að ná verulegum árangri í verðbólgumálum. Hins vegar er alveg nauðsynlegt að stefnan í verðbólgumálum verði mörkuð frá og með gerð fjárlaganna, því að ef það er ekki gert eiga stjórnvöld ekki nema einn kost, — ef þessi stefna er ekki mörkuð með ríkisfjármálum, fjárfestingarmálum og í peningamálum, þá eiga stjórnvöld ekki nema einn kost, og það er að koma til launafólks dagana fyrir 1. mars og biðja launafólk enn að gefa eftir án þess að sjáanlegur árangur hafi náðst á öðrum sviðum sem ríkisvaldið ræður betur við. Og engin ríkisstj. og allra síst ríkisstjórn sem byggir tilveru sína að mjög verulegu leyti á náinni samvinnu við og stuðningi frá samtökum launafólks getur farið svona að, að biðja samtök launafólks enn um tilslökun án þess að nokkurt sjáanlegt fordæmi ríkisvaldsins sjálfs sé til.

Það er af þessum ástæðum sem við í Alþfl. höfum gert frumvarpsdrög um jafnvægisstefnu í efnahagsmálum og samræmdar aðgerðir gegn verðbólgu. Við viljum að stefnan á öllum meginsviðum efnahagsmála sé mörkuð fyrst með ríkisfjármálunum, að launafólkið í landinu hafi á eitthvað að treysta, hafi að treysta á frumkvæði ríkisvaldsins sjálfs þegar frekari samningar þurfa að fara fram á næsta ári um aðra þætti þessa máls, þar með talin peningalaun. Við teljum að það væri gersamlega ábyrgðarlaust af ríkisvaldinu að ganga ekki á undan með neinu fordæmi í verðbólgumálum, við vitum hvað slík spenna mundi þýða á næsta ári, en ætla síðan að koma til launafólks á dögunum fyrir 1. mars og biðja það eitt um tilslökun. Launþegahreyfingin hefur reynt slík vinnubrögð, og það hafa allir af slíkum vinnubrögðum slæma reynslu. Þess vegna förum við svona að. Við viljum að framkvæmd sé stefna okkar og stjórnarinnar allrar, sem hún raunar setti fram í grg. með frv. fyrir 1. des., að tekin væri um það ákvörðun fyrir lokaafgreiðslu fjárl. og fjárl. síðan sniðin eftir slíkum hugmyndum og jafnframt verði í lögum fundnar aðrar meginbreytingar á umgjörð efnahagsmálanna fyrir árin 1979 og 1980. Ég er þeirrar skoðunar, að einungis sé þetta gert svona geti ríkisvaldið komið til samtaka launafólks og haft til þess raunverulega ástæðu að biðja um nána samvinnu um efnahagsmál, og ég þykist vita og heyrði það raunar í gær, að alla vega hæstv. forsrh. líkar þessi vinnubrögð, hvernig að þessu er staðið, og ég marka svo undirtektir hans hér í gær.

Það er alveg augljóst af hverju við viljum fara svona að. Það er alveg augljóst hvern ofurþunga við leggjum á árangur í verðbólgumálum af ástæðum sem varla þarf að minna á. Ég minni þó aðeins á eitt, að enga leikur óðaverðbólga eins illa og láglaunafólkið í þessu landi. Af hverju er þetta svo? Þetta er m.a. svo vegna þess, að það er einmitt fólkið sem lægst hefur launin sem síst eða ekki getur bjargað sér á flótta undan verðbólguskriðunni með því að fá lán í bönkum, fá ódýr lán undir kostnaðarverði í bönkum. Verðbólgumarkmiðin hafa af þessum ástæðum ekki síst forgang. Ríkisvaldið ræður yfir stýritækjum til þess að ná árangri í verðbólgumálum. Eitt af helstu stýritækjunum er einmitt til umr. hér, það er frv. til fjárlaga. Ríkisvaldinu ber beinlínis siðferðileg skylda til þess að ganga á undan með þessi verðbólgumarkmið að leiðarljósi. Af þessari ástæðu höfum við lagt til að svona verði farið að: 2. umr. fari fram, en hins vegar áður en 3. umr. og endanleg afgreiðsla gerist, þá vitum við, vonum og treystum að samstarfsflokkar okkar í ríkisstj. hafi tekið jákvæða afstöðu til almennrar stefnumörkunar sem taki til allra meginþátta íslenskra efnahagsmála. Með því að gera svo sníðum við fjárlagafrv. í þessa veru, í þessa átt, eins og þarna er lagt til, og höldum síðan inn í betri tíð með sterkari hagstjórn á árunum 1979 og 1980, og ekki eitt augnablik er ég í vafa um að samtök launafólks í landinu muni verða fyrst til þess að hafa nána samvinnu við ríkisvald sem svona fer að. Það skiptir miklu máli í þessu samhengi, ég endurtek það enn, hversu vinsamlegum orðum hæstv. forsrh. fór um þessar hugmyndir og þessar aðferðir héðan úr ræðustól í gær. Við munum ekki standa í vegi fyrir að 2. umr. um fjárl. eigi sér stað. Ég veit að samstarfsflokkar okkar munu ekki heldur standa í vegi fyrir því, að á milli 2. og 3. umr. verði slík heildarstefna mörkuð sem hér er verið að leggja til. Þá verður brautin og ekki síst samvinnubrautin við samtök launafólks greiðari og markaðri fyrir næsta ár, og þetta hygg ég að sé viturlegasta leið sem núv. ríkisstj. getur farið. Með því mun hún ekki aðeins lengja og tryggja eigin lífdaga, heldur ráðast til atlögu við hin raunverulegu vandamál í íslenskum efnahagsmálum.