16.12.1978
Sameinað þing: 36. fundur, 100. löggjafarþing.
Sjá dálk 1662 í B-deild Alþingistíðinda. (1186)

54. mál, fjárlög 1979

Matthías Bjarnason:

Herra forseti. Ég hef leyft mér að flytja eina brtt. við 4. gr, frv., 109. tölul. ásamt hv. 3. þm. Vestf. og 5. þm. Vestf. Brtt. er þess efnis, að framlag til Hólmavíkur hækki úr 3 millj. í 15 millj. vegna heilsugæslustöðvar.

Okkur er ljóst að það eru miklir erfiðleikar á að skipta því fjármagni sem fjárlagafrv. gerir ráð fyrir og yfirleitt hafa menn sætt sig við þá skiptingu fjvn. Og ég vil gjarnan að það komi hér fram, að þetta er í fyrsta skipti sem ég flyt brtt. við fjárl. hér í þingi um hækkun framlags í það kjördæmi sem ég er fulltrúi fyrir. Hún er heldur ekki stór, heldur er fyrst og fremst verið með þessu að reyna að ná um það samkomulagi, að það megi fara á stað með framkvæmd á þessum stað, með sökkul og plötu. Það er mikill áhugi á því og var á s.l. ári sömuleiðis, því að þá var tekið inn smávegis framlag til endurbóta og síðan til undirbúnings að þessari heilsugæslustöð. Fólki á þessu svæði, sem er jafnafskekkt í þessum efnum sem öðrum, finnst vera nægir fjármunir fyrir hendi þegar lögð eru fram stór framlög, upp á marga tugi millj., til heilsugæslustöðva þar sem eru aðeins örfáir km á milli. Er því eðlilegt að þetta fólk segi: Er nú ekki röðin komin að okkur að fara af stað með þessar framkvæmdir?

Ég fyrir mitt leyti er eftir atvikum fyllilega sáttur um skiptingu fjvn. á fjármagni bæði í þennan lið og ýmsa aðra í fjárlagafrv. og tel að n. hafi, eftir því sem hún frekast getur, sýnt sanngirni. En við lögðum á það áherslu, að þetta yrði tekið inn, þó krafa heimamanna hafi verið um 45 mill j., þannig að þetta fólk finni að það eigi a.m.k. eitthvað að fara af stað með þessar framkvæmdir. Því flytjum við þessa till. í trausti þess, að hæstv. fjmrh. og stjórnarflokkarnir vilji athuga þetta mál betur áður en til atkvgr. um till. kemur.

Hv. 9. þm. Reykv. sagði í ræðu sinni áðan að hann hefði ekki skilið til hlítar ræðu hv. 4. þm. Vestf., og það er auðvitað leitt til þess að vita þegar stjórnarþm. skilja ekki hverjir aðra, hvað þeir eru að fara. Mér kom þó enn meira á óvart ræða hv. 7. þm. Reykv. áðan, þar sem hann vitnaði til hæstv, forsrh. og sagði að forsrh. væri eiginlega yfir sig hrifinn af frv. sem Alþfl. hafi lagt fram til úrlausnar í efnahagsmálum. Mér hefur skilist aftur á forsrh. að hann legði mjög mikla áherslu á að afgreiða fjárlagafrv. nú fyrir jólin, og sýnist mér að þá sé mörkuð — a.m.k. á það að heita svo — einhver stefna í fjármálum ríkisins fyrir árið 1979. Forsrh. sagði hér í gær, að ekki ynnist tími til að taka þetta frv. Alþfl. til efnislegrar meðferðar fyrr en eftir áramót eða í janúarmánuði, að mér skildist.

Er það þá ætlun þeirra og eru þeir sammála, hv. 7. þm. Reykv. og hæstv. forsrh., ef þeir eru báðir svona hrifnir af þessu frv., að það eigi að gerbreyta stefnunni um miðjan janúarmánuð. Til hvers erum við þá að pæla í þessu fjárlagafrv.? Þetta finnst mér vera ákaflega óglöggt og miklu ógleggra það sem hv. 3. þm. Vestf. sagði og hv. 9. þm. Reykv. skildi ekki.

Ég tek undir margt af því sem hv. 3. þm. Norðurl. e. sagði áðan varðandi sparnað og varðandi niðurskurð. Við getum auðvitað ekki skorið niður fyrirvaralaust, hvorki ákveðnar stofnanir né ákveðna málaflokka. Til þess þarf auðvitað töluverðan aðdraganda. En ég vil benda mönnum á það, að þeir flokkar, sem standa að núv. ríkisstj., hafa marglýst yfir að þessi ríkisstj. sé aðhaldsstjórn sem vilji vinna að samdrætti — markvisst ætlaði hún að vinna að samdrætti og sparnaði í ríkiskerfinu. Ef menn tækju sig til nú í miðri jólaösinni og færu í gegnum bunkann á borðinu hjá sér um allar samdráttaraðgerðirnar sem stjórnarþm. hafa flutt frá því Alþ. kom saman í haust, þá er þar ekki um samdrátt að ræða, heldur aukaútgjöld — ekki upp á nokkur hundruð millj., heldur upp á milljarða. Mér finnst að þetta tal um aðhald, sparsemi og samdrátt sé ekki hægt að taka neitt alvarlega á meðan þessum frv, rignir hér yfir okkur þm. (Gripið fram í: Ég hef ekki flutt neitt slíkt.) Nei, ég veit það. Það er aðallega um eignarnám. Það er annars eðlis.

Hæstv. landbrh. sagði að nú hefði verið dregið um 10% úr jarðræktarstyrkjum. Það er verið að stórauka niðurgreiðslur á vöruverði. Það er verið að borga matinn ofan í marga núna. Er það ekki komið núna hátt í 1800 kr. sem samfélagið borgar með hverju smjörkílói? Það er eitthvað til þess að fólk fari að halda í við sig í smjörátinu — eða hitt þó heldur. Þessi stefna er auðvitað eins snarvitlaus og nokkur stefna getur verið. Og hvað er gert í því að draga úr búskap ríkisins? Þurfum við allar þessar tilraunastöðvar og þurfum við þetta tilraunaeldi? Hvað ætli séu mörg þúsund fjár á fóðrum hjá ríkinu sem kjötið af er síðan greitt niður? Er þetta allt bráðnauðsynlegt vísindanna vegna? Er ekki kominn tími til að draga þarna verulega úr? Væri ekki hægt að spara þarna allmarga milljónatugi sem víða annars staðar?

Við vitum það og erum sammála um að það er offramleiðsla á landbúnaðarvörum. Ég sé ekki minnstu ástæðu til þess, að ríkið standi í harðri samkeppni við bændur að framleiða meira af vöru sem er offramleiðsla á, til þess svo að borga hana aftur niður. (Gripið fram í.) Hv. þm. segir að það verði að sitja jarðirnar. Það verða líka einhverjir að vera til innan tíðar sem geta staðið í því að borga þessi ósköp öll. Menn lifa ekki á því að sitja bara jarðir eða sitja í sínum húsum.

Ég vildi mjög gjarnan koma lítillega inn á eitt alvarlegt mál í fjárlagafrv., verulegan niðurskurð á framlagi ríkissjóðs til Byggðasjóðs í þeirri mynd, að til þess að ríkið leggi fram framlag sitt til Byggðasjóðs gerir hæstv. fjmrh. ráð fyrir að Byggðasjóður taki sjálfur lán upp á 1130 millj. kr., og síðan er gert ráð fyrir að Byggðasjóður taki að sér að greiða vexti og afborganir af byggðalínum fyrir þessa sömu upphæð. Ég tel að hér sé um lækkun á fjárframlagi ríkissjóðs að ræða um 1130 millj. kr. Ég er ekki ósammála fjmrh. um að það verði að grípa til einhverrar lækkunar á framlagi til Byggðasjóðs, en ég held að það sé miklu hreinna og eðlilegra að vera ekki að blanda þessu nýja verkefni saman víð Byggðasjóð, heldur breyta þá lögum um framlag til Byggðasjóðs.

Ég vil þó minna á það, að svona mikill niðurskurður hlýtur að koma niður á atvinnuvegunum og öllum þeim fjölda aðila, sem sækja um lán og fyrirgreiðslu til Byggðasjóðs, þegar er um svona mikinn niðurskurð að ræða. Ég flutti ásamt Jóni G. Sólnes á stjórnarfundi Framkvæmdastofnunar ríkisins í gær till. sem þar var samþ. Að vísu voru þar mættir tveir ráðh. sem eiga sæti í stjórninni, en þurftu að fara áður en sú till. kom til afgreiðslu og atkvgr. Hún er á þá leið, að stjórn Framkvæmdastofnunar ríkisins fer þess á leit við hæstv. ríkisstj., að hún endurskoði ákvörðun sína um skerðingu á ráðstöfunarfé Byggðasjóðs árið 1979 svo sem fram kemur í frv. til fjárl. sem nú liggur fyrir Alþ. Stjórnin telur að svo mikill niðurskurður á ráðstöfunarfé sjóðsins muni verða honum alvarlegur fjötur um fót að sinna nauðsynlegri fyrirgreiðslu til eflingar atvinnuvegunum í landinu. Þá vill stjórn Framkvæmdastofnunar vekja athygli á 32. gr. laga stofnunarinnar, þar sem lántökuheimild Byggðasjóðs er takmörkuð við lántöku að hámarki 600 millj. kr. á ári, en skv. frv. til fjárl. er sjóðnum ætlað að taka lán að fjárhæð 1130 millj. Enn fremur fer stjórnin fram á það við hæstv. ríkisstj., að hún endurskoði þá áætlun sína að skerða framlag sitt til Byggðasjóðs á þessu ári um 75 millj. Slíkur niðurskurður svo seint á ári gerir sjóðnum erfitt um vik að standa við skuldbindingar sínar.

Hér er um að ræða tilmæli til ríkisstj., aðallega þau að skerða ekki svo mjög framlagið til Byggðasjóðs, því skv. þessu orðalagi teljum við, sem flytjum þessa till., og vafalaust einnig þeir, sem greiddu henni atkv., ekki óeðlilegt að einhver niðurskurður eigi sér stað, og þess vegna mun ég ekki setja mig upp á móti því eins og ástand og horfur eru.

Hitt atriðið, varðandi niðurskurðinn á framlaginu á þessu ári um 75 millj., kemur svo seint á árinu að það er, eins og hæstv. fjmrh. er manna best kunnugt, búið að ráðstafa miklu af ráðstöfunarfé sjóðsins þegar sú ákvörðun er tekin, sem var auðvitað ekki hægt að taka fyrr af núv. hæstv. ríkisstj. en hún gerði.

Þriðja atriðið í sambandi við þessa ályktun er þess efnis að benda á 32. gr. laga varðandi lántökuheimild, en sú túlkun er m.a. höfð uppi, að þar sem stofnunin hafi ekki notað þessa lántökuheimild á undanförnum árum þurfi ekki lagabreytingu til. Ef það stenst og ef það er álit lögfróðra manna, þá er þessi ábending óþörf. En ef það er eitthvert vafamál að dómi lögfræðinga, þá auðvitað þarf að fá lagaheimild.

Þetta vildi ég aðeins gera hér að umræðuefni í trausti þess, að hæstv. fjmrh. sjái sér fært að svara því, hvort hann áliti einhverjar breytingar komi þarna til greina frá því sem nú er.

Þá vil ég vekja athygli á framkvæmdum í símamálum, að þær eru skornar mjög niður. Till. þeirrar stofnunar eru verulega skornar niður af rn. og fjvn., sem bitnar á framkvæmdum þessarar stofnunar. Vitaskuld er það hárrétt að skera eins og hægt er niður framkvæmdir, bæði hjá þessari stofnun og öðrum. Ég ætla ekki að vera með neinar ádeilur í þeim efnum. En það eru auðvitað til framkvæmdir sem ekki þola bið. Síminn er það mikilvægt tæki að það getur ekki gengið að hundruð manna, eins og hér á þéttbýlissvæðunum, bíði eftir síma mánuðum og jafnvel árum saman. Og nauðsynlegar framkvæmdir, sem verður að ráðast í vegna þess að símasamband er mjög stopult víða úti um land, þola ekki bið.

Það kemur því að mínum dómi mjög til athugunar, hvort ekki sé ekki hægt að breyta tollum og söluskatti á innfluttu efni til símans til þess að hægt sé að fara í frekari framkvæmdir en nú er gert ráð fyrir. Ef ríkisstj. heldur sér við þennan niðurskurð, þá fær auðvitað ríkið ekki tolltekjur af því sem ekki verður framkvæmt. En tollur, vörugjald og söluskattur af símaefni eru gífurlega há upphæð, t.d. af öllum símabúnaði fer hann upp í 122%, af radíóbúnaði í 114%, einangrunarvír í 77% og í jarðstrengjum 91%. Ég er mjög hræddur um að ef verður haldið við þessa áætlun algjörlega, þá verði víða bágt ástand í símamálum. Hins vegar verður auðvitað að meta og vega hvað er hægt að láta bíða og hvað er ekki hægt að láta bíða, en ekki skera niður framkvæmdir sem er ekki nokkur leið að láta bíða í heilt ár eða lengur. Á þetta vildi ég leggja áherslu, þó ég taki undir þá stefnu og þá viðleitni að framkvæmdum sé öllum mjög stillt í hóf.

Ég ætla ekki að ræða fjárlagafrv. ítarlega, það hefur verið gert ítarlega af frsm. minni hl., hv. þm. Lárusi Jónssyni, og mér finnst vænt um að heyra það sem gamall fjvn.-maður, að sama góða samvinnan ríkir innan þeirrar n., enda hefur þar aldrei borið skugga á árum saman. Það er sú n. sem mest vinnur að öllum þn. öðrum ólöstuðum, og við vitum að það er vandamál fyrir menn að stýra þeirri n. og þó alveg sérstaklega þegar litlu er að skipta eins og nú er í sambandi við fjárlög.

Ég ætla ekki á þessu stigi að fara að tala um tekjuhlið fjárlagafrv. Það verður vafalaust gert við 3. umr. fjárlagafrv. og sömuleiðis við þær umr. sem fram fara næstu daga varðandi þau frv. sem ríkisstj. hefur lagt fram til þess að jafna fjárl. Þó vil ég aðeins segja það, að ósköp finnst mér það dapurleg niðurstaða sem hæstv. ríkisstj. hefur komist að með þeim hætti sem hún leggur til að hafður sé á, og ég er hræddur um að skattþegnum þessa þjóðfélags hafi þótt byrðarnar æðiþungar fyrir, þó ekki sé bætt jafnmiklu á og þessi frv. gera ráð fyrir.