16.12.1978
Sameinað þing: 36. fundur, 100. löggjafarþing.
Sjá dálk 1667 í B-deild Alþingistíðinda. (1188)

54. mál, fjárlög 1979

Jósef H. Þorgeirsson:

Herra forseti. Ég hef ásamt hv. 2. þm. Vesturl. flutt brtt. á þskj. 210 er varðar Fjölbrautaskólann á Akranesi. Fjölbrautaskólinn á Akranesi er ung stofnun, tók til starfa haustið 1977, og þessi skóli er hugsaður sem aðalframhaldsskóli fyrir allt Vesturlandskjördæmi. Það er því ákaflega nauðsynlegt að vel sé að þessum skóla búið þegar í upphafi, því ella er veruleg hætta á að hann koðni niður þegar á fyrstu missirum og nái ekki þeim tilgangi sem að er stefnt.

Bæjarstjórn Akraness hefur sent fjvn. erindi um fjárveitingar til þessarar stofnunar, samtals að fjárhæð 127 millj. 606 þús. kr. Um undirtektir er það helst að segja, að í fjárlagafrv., eins og það var lagt fram, var gert ráð fyrir aðeins 15 millj. kr. fjárveitingu til stofnkostnaðar í þennan skóla, en fjvn. hefur síðan gert till. um að þessi upphæð hækki í 30 millj. kr.

Hér er að vísu komið eilítið til móts við þær beiðnir sem fyrir lágu, en þó með algjörlega ófullnægjandi hætti. Ég geri mér fulla grein fyrir því, að það er ákaflega örðugt um allar fjárveitingar eins og á stendur í þjóðfélaginu, en hitt er ljóst, að tillögugerð af þessu tagi nær allt of skammt og mikil nauðsyn á því, að reynt verði að auka við ef nokkur kostur er. Þess vegna höfum við leyft okkur að flytja till. um að þessi fjárveiting til stofnkostnaðar vegna Fjölbrautaskólans á Akranesi verði 50 millj. kr.

Ég vil leggja áherslu á það, að Fjölbrautaskólinn á Akranesi er hugsaður sem fjölbrautaskóli fyrir allt Vesturland, og hefur verið unnið að uppbyggingu þessa skóla í náinni samvinnu við aðra skóla á Vesturlandi og í náinni samvinnu við fræðsluráð Vesturlands, sem gerði einróma á fundi sínum hinn 23. maí s.l. ályktun um þetta mál þar sem m.a. segir:

„Fundur fræðsluráðs Vesturlands leggur áherslu á að framhaldsdeildum verði gert kleift að starfa í héraðinu að loknu grunnskólanámi. Fræðsluráð telur eðlilegt að fjölbrautaskóli verði starfræktur fyrir allt héraðið á Akranesi í fyrstu. Þó telur ráðið sjálfsagt að staðsetja einstakar námsbrautir framhaldsskóla við fjölmennustu skólana annars staðar í héraðinu þar sem hagkvæmt þykir, t.d. í Reykholti, Borgarnesi og í þorpunum á Snæfellsnesi og e.t.v. víðar.“

Hér er sem sagt að því stefnt, að meðal allra meiri háttar skóla á Vesturlandi verði tekin upp samvinna um námsefni, um próf og annað sem að þessum málum lýtur, en það nám, sem ekki er hægt að stunda í heimabyggð, verði svo stundað í Fjölbrautaskólanum á Akranesi. Það er því ákaflega brýnt að komið verði til móts við þær fjárveitingabeiðnir, sem skólinn sendir frá sér, eins og nokkur kostur er. Þetta er ekki eingöngu málefni fyrir Akranes. Þetta er málefni sem allt Vesturland stendur að.