24.10.1978
Sameinað þing: 7. fundur, 100. löggjafarþing.
Sjá dálk 110 í B-deild Alþingistíðinda. (119)

321. mál, jarðakaupalán

Fyrirspyrjandi (Pálmi Jónsson):

Herra forseti. Á þskj. 17 hef ég leyft mér að bera fram fsp. til hæstv. landbrh. um jarðakaupalán.

Lán til jarðakaupa hafa til síðustu áramóta verið veitt af Veðdeild Búnaðarbanka Íslands. Afgreiðsla hefur farið fram á hverju ári og stundum nokkuð jöfnum höndum eftir því sem lánshæfar umsóknir hafa borist. Í lok síðasta Alþingis var lögum um Stofnlánadeild landbúnaðarins breytt m.a. á þá lund, að Stofnlánadeildin tók við því hlutverki að veita lán til jarðakaupa. Þrátt fyrir þessa lagabreytingu hafa engin jarðakaupalán enn verið veitt af Stofnlánadeild landbúnaðarins á þessu ári og ekkert hefur verið upplýst um hvort eða hvenær verður unnt að afgreiða þær umsóknir sem þegar liggja fyrir hjá Stofnlánadeildinni um þessi lán.

Nú liggja fyrir hjá Stofnlánadeild landbúnaðarins 90 lánshæfar umsóknir um jarðakaupalán. Búast má við að fleiri umsóknir berist til áramóta, en þetta er þó svipuð tala lánsumsókna og þurft hefur að sinna á undanförnum árum, en tala jarðakaupalána hefur oftast verið frá 80–120 talsins á ári hverju. Það er augljóst, að það er mjög bagalegt hversu dregist hefur að afgreiða þau lán sem umsóknir liggja fyrir um. Enn verra er þó að vita ekki hvort um afgreiðslu verður að ræða á lánsumsóknum sem borist hafa á þessu ári. Þeir, sem fest hafa kaup á jörðum á þessu tímabili, hafa gert kaupsamninga í trausti þess, að lánin yrðu afgreidd, og er nauðsynlegt að upplýsa hvers þeir mega vænta, hvort lánin verða afgreidd eða ekki. Hér oftast um að ræða frumbýlinga og er vandi þeirra ærinn þó að leyst væri úr því að veita jarðakaupalán með eðlilegum hætti, hvað þá ef það verður ekki gert.

Það er svo annar þáttur þessa máls og ekki síður mikilvægur, hvaða kjör verða á jarðakaupalánum ef afgreidd verða. Ljóst er að fjármagn, sem lagt er í jarðakaup til venjulegrar búvöruframleiðslu, skilar yfirleitt seint arði. Þess vegna er ákaflega erfitt að hugsa sér að jarðakaupalán geti borið mjög erfið lánakjör eins og nú eru víðast á lánum.

Ég skal ekki að þessu sinni fara lengra út í þennan þátt þessa máls. Ég hef talið nauðsynlegt að fá það upplýst í upphafi þessa Alþingis, vegna fjölmargra fsp. sem ég hef fengið um þessi efni, hvort unnt verður að veita þessi lán, hverjar fyrirætlanir ríkisstj. eru. Fyrir því hef ég lagt fram þá fsp. sem hér er á dagskrá og hljóðar svo, með leyfi hæstv. forseta:

„Hvenær má vænta þess að afgreidd verði jarðakaupalán vegna umsókna, sem borist haf til Veðdeildar Búnaðarbanka Íslands og Stofnlánadeildar landbúnaðarins á þessu ári?“