16.12.1978
Sameinað þing: 36. fundur, 100. löggjafarþing.
Sjá dálk 1672 í B-deild Alþingistíðinda. (1192)

54. mál, fjárlög 1979

Friðrik Sophusson:

Herra forseti. Ég lofaði því að vera mjög stuttorður og skal gjarnan vera það. Ástæðan fyrir því að ég kem hér í ræðustólinn er að spyrjast fyrir um ákveðið mál. Ég veit að hæstv. fjmrh. kemur til með að tala hér á eftir og væri þess vegna æskilegt að fá um það upplýsingar sem nú verður spurt.

Þannig er að í fyrirliggjandi fjárlagafrv., í aths. á bls. 193, er sagt frá liðnum um Lánasjóð ísl. námsmanna, og þar kemur fram að gert er ráð fyrir 2.2 milljörðum, en til viðbótar því er gert ráð fyrir lántökuheimild að upphæð 400 millj. Nú hefur komið í ljós og er viðurkennt af öllum aðilum, að til þess að hægt verði að lána námsmönnum með sama hætti og gert hefur verið undanfarin ár, þ.e.a.s. brúa um 85% af umframfjárþörf námsfólks með sömu reglum og áður hafa verið notaðar, þá vanti 700 millj. til þess að dæmið geti gengið upp. Til viðbótar þessu hafa námsmenn lagt á það áherslu, að reglum um úthlutun úr þessum sjóði verði breytt þannig að tekið verði tillit til barnafjölda námsmanna við úthlutunina. Það mundi þýða að mati þeirra sem gerst vita, að um 200 mill j. þyrfti til viðbótar.

Á námsmannafundi, sem var mjög fjölmennur og haldinn var um daginn, þar sem m.a. mættu hæstv. fjmrh. og sérstakur fulltrúi hæstv. menntmrh., hv. þm. Kjartan Ólafsson, var hæstv. fjmrh. spurður að því, líklega fjórum sinnum og gaf jafnoft svör við þeirri spurningu, hvað hann hygðist gera í þessu máli. Hæstv. ráðh. svaraði ávallt á sömu leið: hann mundi sjá til þess, að hægt væri að brúa 85% umframfjárþarfarinnar. Hins vegar nefndi hann aldrei hvaða upphæð hann ætlaði sér að leggja til, en auðvitað er það sitt hver upphæðin eftir því hvernig úthlutunarreglurnar eru.

Ég vek athygli á þessu máli vegna þess að hæstv. núv. menntmrh. hefur á undanförnum árum sýnt námsmönnum ákaflega mikinn áhuga í þessum málum og m.a. flutt um það till. hér á þingi og sagt frá því, að hann stefndi að því sem allra fyrst að það ætti ekki aðeins að brúa 85%, heldur ætti að fara upp í 100%. (Menntmrh.: Það gera líka lögin.) Lögin gera það, en ráðherra hefur sagt frá því, þ. á m. í stúdentablaði, að hann muni berjast fyrir því. Nú situr hann í valdastól. Nú er hann maðurinn sem hefur reglugerðarvaldið. Með einu pennastriki á einni mínútu getur hæstv. menntmrh. breytt reglugerð um úthlutunarreglur sjóðsins. Hann hefur völdin í dag, og nú reynir á það, hvort hann hyggst standa við fyrri ummæli sín. Þess vegna langaði mig til að spyrja hæstv. fjmrh. hvernig staða málsins sé í dag, hvað ríkisstj. hygðist gera í þessu máli.

Ég lýsti því yfir á þessum fundi, sem ég hef nefnt áður, að ef till. kæmi fram hér um að hækka fjárveitinguna um þessar 200 millj. kr., þá skyldi ég greiða atkv. með slíkri till. Hins vegar sagði ég á þeim fundi, að ég mundi aldrei gera það sem aðrir menn hafa gert í stjórnarandstöðu, þeir menn sem stundum telja sig ábyrga, en eru kannske óábyrgastir, að leggja til að útgjöld verði aukin í þessu skyni, vegna þess að þeir tímar geta komið að maður sjálfur verður að bera ábyrgð á eigin orðum.

Ég minnist á þetta núna vegna þess að mér þætti vænt um að fá að vita hvernig þetta mál stendur. Ég minni jafnframt á í þessu sambandi, að reglum um úthlutun námslána hefur verið breytt og var breytt fyrir nokkrum árum á þann veg, að nú eru endurgreiðslurnar með verðbótum þannig að þær skila sér mun betur en verið hafði um mörg undanfarin ár, þegar þessi lán voru nánast styrkur til námsmanna vegna þess að þau brunnu upp í verðbólgubálinu. Ég vænti þess, að hæstv. ráðh. geri þingheimi og jafnframt þúsundum námsmanna, sem bíða eftir svari, grein fyrir því, hvað það þýðir þegar talað er um að brúa 85%. Miðast það við það, að tekið sé tillit til barnafjölda námsmanna eða ekki? Miðast það við að það séu 700 millj. sem eigi að koma til viðbótar eða 900 millj., eins og þyrfti að koma ef stefna hæstv. menntmrh., þegar hann var utan stjórnar, ætti að ná fram að ganga. En ég get því miður ekki ábyrgst hver stefna hans er í þessu máli í dag.