24.10.1978
Sameinað þing: 7. fundur, 100. löggjafarþing.
Sjá dálk 110 í B-deild Alþingistíðinda. (120)

321. mál, jarðakaupalán

Dómsmrh. (Steingrímur Hermannsson):

Herra forseti. Stofnlánadeild landbúnaðarins voru ætlaðir 2 milljarðar 222 milljónir kr. til útlána á þessu ári samkv. lánsfjáráætlun síðustu ríkisstj. Í ljós kom hins vegar fljótlega að ekki mundi þetta fé allt nást eftir þeim leiðum sem ráðgert hafði verið. Einkum var ljóst að fjármagn frá Lífeyrissjóði bænda yrði stórum minna en gert hafði verið ráð fyrir. Ég setti þegar í byrjun september í gang athugun á þessu og fékk Seðlabankann til að kanna þetta mál, enda hafði Seðlabankinn haft vissa forustu um ákvörðun á lánsfjáráætlun á s.l. vetri, eins og hv. þm. er kunnugt. Staðfest var af Seðlabankanum, að fjárskortur Stofnlánadeildar landbúnaðarins næmi 320 millj. kr. Ég leitaði þá þegar til Framkvæmdasjóðs um útvegun á þessu fjármagni. Stjórn Framkvæmdasjóðs samþykkti fyrir um það bil tveimur vikum að verða við þeirri beiðni. Ég hef síðan fengið þær upplýsingar frá Stofnlánadeild landbúnaðarins, að um það bil helminginn af þessu fjármagni verði unnt að greiða Stofnlánadeildinni nú innan örfárra daga, þannig að ég geri fastlega ráð fyrir að úr þessu muni rætast mjög fljótlega.

Ég tek undir það með hv. fyrirspyrjanda, að kjörin eru stórt atriði, og þarf ekki að endurtaka það sem hann sagði um þau. Hins vegar get ég upplýst að stjórn Stofnlánadeildarinnar mun halda fund um lánskjörin í þessari viku og gera tillögur um þau til landbrn., sem þá verða að sjálfsögðu athugaðar þar án tafar.