18.12.1978
Efri deild: 34. fundur, 100. löggjafarþing.
Sjá dálk 1688 í B-deild Alþingistíðinda. (1200)

95. mál, leiklistarlög

Frsm. meiri hl. (Helgi F. Seljan):

Herra forseti. Það þurfa ekki að vera mörg orð. Hér er verið að gera mikið mál úr litlu. Ég fagnaði því svo sannarlega að fá konu hér inn í karlaveldið hjá okkur í Ed., en það hryggir mig að sá einhugur, sem í d. var um þetta mál á sínum tíma, skuli einmitt vera rofinn af þessu fagnaðarefni mínu.

Þannig var mál með vexti í sambandi við þetta á sínum tíma, að Ed. var algerlega sammála um þetta mál og um þetta leiklistarráð urðu ekki þær geysilegu vangaveltur sem ég viðurkenni að voru auðvitað í fleiri flokkum en í flokki hv. þm. Ragnhildar Helgadóttur, í mínum flokki einnig, um þá ógn og vá sem gæti stafað af t.d. orðunum: og stuðla að stefnumótun á því sviði.“

Ég vil taka það fram, af því að ég var að tala um að ég óttaðist nokkuð um fjárveitingar til óperustarfseminnar, að það geri ég einfaldlega vegna þess að styrkurinn til áhugaleikfélaganna, þ.e.a.s. á þessu ári, er 220 þús. kr. í hámarki. Ég stórefa að styrkur til flutnings verks eins og hv. þm. er að fara fram á í sambandi við óperustarfsemina yrði mjög til þess að hjálpa þeim sem þar að stæðu. En þetta er hámarksstyrkurinn sem áhugaleikfélögin fá í dag.

Ég vil taka það fram í sambandi við ráðið og það, sem hefur verið rætt um það, að reiknað er með því að framkvæmdaráð þessa leiklistarráðs, þessi þriggja manna stjórn, fái þóknun, ekki leiklistarráðið sjálft. Það er stjórn þess aðeins sem laun skal taká. Það kom mjög skýrt fram þegar lögin voru sett.

Reykvíkingar óttast alltaf þegar utanbæjarmenn fá einhvern dvalarkostnað greiddan ef þeir koma til Reykjavíkur, vegna þess að þeir þurfa að sækja yfirleitt allar ráðstefnur hingað, og það verður sjálfsagt eins með þetta leiklistarráð. Vegna þess að í ráðinu eiga sæti Reykvíkingar að öðru leyti en því að þar sitja þrír utan af landsbyggðinni, og þar tel ég mig m.a.s. með, sem er nú í Reykjavík nokkurn veginn meiri hlutann af árinu, þá held ég að þar verði ekki um stóran bagga að ræða af þessum tveimur hinum sem utan af landi eru í þessu leiklistarráði nú. Ég held að það verði ekki þungur fjárhagslegur baggi af þeim. Og stjórnarmennirnir í framkvæmdastjórninni, sem eiga að fá einhverja þóknun, ég hef ekki heldur áhyggjur af þeim þrem mönnum sem þar eru.

Það er rétt, að þetta frv., sem hér liggur fyrir, er að efni sama frv. og ég flutti í fyrra, og ég tók fram við 1. umr. málsins, en hv. þm. hefur e.t.v. ekki verið viðstödd þá, að væri það hið sama. Hins vegar held ég að ég hafi, þó að ég hafi nefnt Alþýðuleikhúsið í framsögu minni fyrir því máli þá og eins við 1. umr. nú, nefnt einnig aðra hópa, t.d. þá hópa sem kynnu að verða myndaðir af hálfu þess fólks sem er að koma út úr Leiklistarskóla ríkisins, og ég nefndi einnig leikhús sem hér hefur starfað, Ferðaleikhúsið, þannig að þetta var ekki við Alþýðuleikhúsið eitt einskorðað.

Það er alveg rétt, að mér er þjóðfélagsleg leiklist að skapi. Hins vegar vona ég að það hafi ekki farið fram hjá hv. þm., að ég sagði að þrátt fyrir það mundi ég beita mér fyrir því innan leiklistarráðsins að engin ein stefna yrði þar ofan á, við færum sérstaklega að styrkja þá leiklist annarri fremur, þó að við hefðum til þess vissa löngun, enda hefur leiklistarráðið enga möguleika til þess. Og ég endurtek að leiklistarráðið er komið inn samkv. ábendingu áhugaleikfélaganna, sem óskuðu eftir því á sínum tíma að fá vettvang til að ræða við atvinnumennina. Við vildum gjarnan fá það lögfest, að við hefðum slíkan viðræðuvettvang m.a. og þá fyrst og fremst til þess að knýja á atvinnuleikhúsin, og þá Þjóðleikhúsið alveg sérstaklega, að veita áhugaleikfélögunum þann ótvíræða stuðning sem Þjóðleikhúsið á að gera, en hefur ekki gert nema að mjög litlu leyti enn í dag. Þetta átti þess vegna að vera vettvangur til þess að reyna að knýja það fram, að Þjóðleikhúsið styddi í raun áhugastarfsemina, en ekki með þeim vettlingatökum sem það hefur gert hingað til. Sannleikurinn er sá, að þrátt fyrir öll ákvæði í lögunum varðandi Þjóðleikhúsið er það svo, að ef til Þjóðleikhússins er leitað um leikara eða leikstjóra, þá hefur það hingað til bæst ofan á sem aukakostnaður áhugaleikfélaganna, en ekki það, að Þjóðleikhúsið léði þessum áhugaleikfélögum starfskrafta sína, eins og það ætti í raun og veru að gera, öðruvísi en með þeim aukakostnaði sem því fylgir að fara ú á landsbyggðina og setja þar upp leikrit. Það var af þessari ástæðu fyrst og fremst, til þess lágu engar pólitískar ástæður að neinu leyti, að þessari stefnumótun var að komið. Ég skýrði það áðan. Þetta átti að vera vettvangur og ég vona að það verði það.

Ástæðan til þess, að þetta ráð hefur ekki komið saman, er ekki sú, að áhugaleikfélögin hafi ekki tilnefnt sína aðila. Þau gerðu það strax og þeim var það heimilt. En ýmsir aðrir aðilar, sem hafa auðvitað minni áhuga á þessu, hafa ekki tilnefnt sína aðila, ég held jafnvel ekki enn þá, og það er af þeirri ástæðu einni sem leiklistarráð hefur ekki verið kallað saman. Við viljum fá það fullskipað áður en það er kallað saman. Þessir aðilar hafa vitanlega ekki mikinn áhuga á því að fara að ræða við okkur áhugamennina í þessu efni, a.m.k. ekki sumir hverjir, um það, hvernig þeir geti liðsinnt okkur í menningarstarfsemi okkar víðs vegar úti um landsbyggðina.