18.12.1978
Efri deild: 34. fundur, 100. löggjafarþing.
Sjá dálk 1689 í B-deild Alþingistíðinda. (1203)

145. mál, almannatryggingar

Félmrh. (Magnús H. Magnússon):

Herra forseti. Ég þakka forseta og þessari hv. d. fyrir að samþykkja að það lagafrv., sem hér er til umr., skuli tekið á dagskrá þótt ekki hafi unnist tími til þess að dreifa því fyrr en nú í byrjun fundar. En það er nauðsynlegt að afgreiða það samtímis öðrum lögum um tekjur ríkissjóðs fyrir árið 1979.

Í frv. til fjárl. fyrir árið 1979 er gert ráð fyrir því, að á því ári verði lagt á sjúkratryggingagjald með sama hætti og gert var árið 1978 á grundvelli laga nr. 70 frá 1977. Er í fjárlagafrv. gert ráð fyrir að álagt gjald nemi 6 milljörðum 350 millj. kr. og gefi 5.6 milljarða kr. í innheimtar tekjur ríkissjóðs.

Með 2. gr. laga nr. 103 frá 1978 lofaði ríkisstj. að lækka skatta lágtekjufólks um sem næmi 2% af verðbótavísitölu þeirri sem gilti fram að 1. des. s.l. og þá miðað við skattalækkun frá forsendum fjárlagafrv. Till. ríkisstj. um skattalækkun eru tvíþættar. Annars vegar er lagt til að skattvísitala hækki frá því sem ráð var fyrir gert í fjárlagafrv., en hins vegar er lagt til að sjúkratryggingagjald lækki, og felst sú lækkun í lagafrv. þessu. Til að tryggja að lækkun sjúkratryggingagjalds komi lágtekjufólki og þeim, er hafa lágar miðlungstekjur, fyrst og fremst til góða er lagt til að sjúkratryggingagjald verði stighækkandi, þannig að 1.5% leggist á gjaldstofn hjá einstaklingum allt að 3 millj. 450 þús. kr., en á gjaldstofn hjóna allt að 4.6 millj. kr. Af gjaldstofni umfram fyrrgreind mörk verði gjaldið 2%, en hingað til hefur það numið 2% af öllum gjaldstofninum. Enn fremur er lagt til að frádráttur elli- og örorkulífeyrisþega umfram það að undanþiggja sjálfan elli- og örorkustyrkinn þessu gjaldi skuli hækka úr 300 þús. í 450 þús. hjá einstaklingum og úr 500 þús. í 750 þús. kr. hjá hjónum. Auk þess er lagt til í frv. til 1, um breytingu á tekjuskattslögum, sem lagt er fram samhliða frv. þessu, að ónýttur persónuafsláttur gangi til greiðslu sjúkratryggingagjalds áður en hann gengur til greiðslu útsvars, en það ákvæði er nýmæli í lögum.

Ætla má að þessar breytingar rýri innheimtar tekjur ríkissjóðs af sjúkratryggingagjaldi um 1450 millj. kr. frá því sem áætlað er í fjárlagafrv., þannig að tekjur ríkissjóðs af gjaldinu verði 4 milljarðar 150 millj, kr. í stað 5.6 milljarða kr. sem áætlað var. Af þessum 1450 millj. kr. ganga 1250 millj. kr. til lækkunar gjaldhlutfalls á lágtekjur, en 200 millj. kr. ganga til þess að láta ónýttan persónuafslátt mæta sjúkratryggingagjaldi.

Herra forseti. Ég leyfi mér að leggja til að þessu frv. verði að lokinni þessari umr. vísað til 2. umr. og heilbr.- og trn. þessarar hv. deildar.