18.12.1978
Efri deild: 34. fundur, 100. löggjafarþing.
Sjá dálk 1692 í B-deild Alþingistíðinda. (1208)

23. mál, tímabundið vörugjald

Fjmrh. (Tómas Árnason):

Herra forseti. Ég gerði grein fyrir því við 1. umr. sem nú fer fram í Nd. um frv. um breyt. á l. um tekju- og eignarskatt, hvaða mál það væru sem lægju fyrir þinginu í sambandi við og í tengslum við fjárlagafrv. Þ. á m. er þetta mál sem hér er til umr. Ég lýsti því yfir þar og mun gera það hér þegar þessi mál koma hingað, að ákveðið er að fram fari á næsta ári endurskoðun á þeim tollvöruflokkum sem um er að ræða í þeirri upptalningu sem greinir um það, á hvaða vörur og flokka hið sérstaka tímabundna vörugjald leggst.

Ég vil ekki á þessu stigi málsins gefa neinar yfirlýsingar um það, hvernig þessi endurskoðun verður. Hún fer fram og ég álít að það þurfi að gera á þessu lagfæringar og við það mun verða staðið. En ég hef ekki aðstöðu til þess nú að gefa neinar yfirlýsingar um einstök atriði í þessu sambandi þar sem þetta snertir allt saman tekjuöflunarmöguleika ríkissjóðs.