24.10.1978
Sameinað þing: 7. fundur, 100. löggjafarþing.
Sjá dálk 111 í B-deild Alþingistíðinda. (121)

321. mál, jarðakaupalán

Helgi F. Seljan:

Herra forseti. Ég fagna þessari yfirlýsingu hæstv. landbrh. Það er sannarlega gleðilegt, að það skyldi takast að leiðrétta reikningsskekkju Seðlabankans frá því í fyrra, sem vakin var þá margsinnis athygli á, að um hreina skekkju í útreikningum bankans væri að ræða varðandi þá tölu sem var sett í lánsfjáráætlunina. Þar var bent á þrjár áberandi villur sem væri hægt að rekja lið fyrir lið, en ekki fékkst það leiðrétt og hefur ekki tekist fyrr en nú að fá á hreint að þessi göfuga stofnun hafi reiknað vitlaust. En ég fagna því sem sagt að það er nú komið á hreint.

Ég tek það hins vegar fram, að það er ekkert nýtt að jarðakaupalán hafi verið vandræðamál. Jarðakaupalán síðari hluta s.l. árs voru í algerri óvissu alveg fram undir áramót og þá vissu menn ekkert hvernig um þau færi. Búnaðarbankinn sjálfur hafði áður hlaupið þar undir bagga til þess að hægt væri að afgreiða þau lán, þannig að hér er ekki um nýjan vanda að ræða. En sem sagt, nú á næstu dögum mun fást úr þessu skorið og ber að fagna því. En ég fagna hinu alveg sérstaklega, að það skyldi takast að fá leiðréttingu á þessu, sem ég margbenti á, t.d. í Ed. í fyrra við afgreiðslu lánsfjáráætlunar þá, að var um augljósar reikningsskekkjur að ræða.