18.12.1978
Efri deild: 34. fundur, 100. löggjafarþing.
Sjá dálk 1694 í B-deild Alþingistíðinda. (1215)

23. mál, tímabundið vörugjald

Ragnhildur Helgadóttir:

Herra forseti. Ég vildi óska þess að hv. 5. þm. Vesturl. hefði endað ræðu sína á því að segja einungis að þetta mál þyrfti að bíða betri tíma. Ég skil það á málflutningi hans og annarra hv. stjórnarsinna, að tími þeirra sé svo erfiður nú að þeir geti ekki einu sinni fylgt jafnsjálfsögðum menningarmálum og því sem hér er um fjallað og stjórnarandstæðingar fluttu till. um með góðum hug. Þegar stjórnarandstæðingar heyrðu að um stuðning væri að ræða af hálfu sjálfs menntmrh., þá var auðvitað sjálfsagt að gefa honum kost á að styðja slíka till. Við skiljum það ósköp vel, að hæstv. ráðh. er sjálfur í þeirri aðstöðu að það væri erfitt fyrir hann gagnvart meðráðh. sínum að fara að taka slíkt mál eitt út úr og flytja um það till. En vegna þess að hlýhugur kom fram í máli hans til þessara efna, þá þótti sjálfsagt að flytja þessa tillögu.

En það er rétt, eins og hv. 5. þm. Vesturl. sagði, og ég er tilbúin að skilja það sem röksemd af hálfu hv. stjórnarsinna, að það er slæmur tími. En athugun málsins þarf hins vegar ekki að bíða, henni er lokið. (Gripið fram í: Henni er lofað.) Henni er lofað, en till. liggur fyrir fullundirbúin, athuguð af sérfræðingum sjálfrar ríkisstj., svo að ég sé ekki að málið þurfi frekari athugunar við, ekki að því er varðar þennan málaflokk. Hitt er rétt, sem kom fram í máli hv. 4. þm. Norðurl. e., að auðvitað eru fjölmargir málaflokkar eða fjölmargir vöruflokkar sem við vildum hafa lægra gjald á til aukinnar menningar í landinu og ekki síst til aukins hreinlætis — svo dýrt er orðið að halda húsum sínum og sjálfum sér hreinum nú til dags, eftir að hæstv. ríkisstj. lagði ýmis gjöld á þær vörur sem við nútímafólk erum farin að trúa að teljist allt að því nauðsynlegar. Það virðist teljast til munaðar að halda sér hreinum, að ég tali ekki um sæmilega snyrtum fyrir utan grundvallarhreinlæti. Ég nefni nú ekki ýmiss konar krem og krukkur, púlver og pómaði og slíkt, sem er náttúrlega þvílíkur lúxus að maður má ekki um það tala — og allra síst kvenmaður, þá þykir það auðvitað sérdeilis hégómlegt. (Gripið fram í.) En ég er ósköp fegin því, að hæstv. ríkisstj. ætlar nú að taka til gaumgæfilegrar athugunar bæði menninguna og hreinlætið á útmánuðum.

Að því er varðar þessa sérstöku till. um hljóðfærin, þá held ég að hún sé alveg í því standi að hægt sé að samþykkja hana strax.

Annars var annað mál, mjög stórt, sem tilefni er til að spyrja um áður en afgreiðslu þessa máls er lokið. Ástæðan til þess, að við fjöllum hér um frv, um sérstakt vörugjald, er, að því er talsmaður hæstv. ríkisstj. segir og að því er við öll vitum, ekki síst sú, að ríkið verður af allmiklum tekjum nú um áramótin vegna niðurfellingar tolla á EFTA-vörum. Það lá að vísu fyrir sérstök yfirlýsing í stjórnarsamningnum um að stefnt væri að því að fresta þessari tollalækkun. Ekki hefur orðið úr því. Ég gagnrýni það út af fyrir sig ekki. Mér er mætavel ljóst, að á því hefðu orðið mikil vandkvæði, og ég tel að við hefðum legið undir ámæli fyrir að ganga á svig við gerða samninga ef við hefðum gripið til einhliða aðgerða um frestun tollalækkana. Ef um það hefði átt að semja, eins og nú er komið, hefði öll framkvæmd ýmissa mála og samninga, sem við höfum hagsmuni af, frestast mjög og við orðið að leggja það fyrir þjóðþing allra EFTA-landanna, hvort breyta ætti grundvallarsamningum að þessu leyti eða ekki vegna efnahagsörðugleika Íslendinga.

Hins vegar er þetta mál sem séð var fyrir fyrir mörgum árum og ýmsar aðgerðir voru í frammi hafðar, m.a. fjárhagsstuðningur, til þess að búa okkur undir þessa breytingu. Þær aðgerðir miðuðust ekki við ríkissjóð fyrst og fremst, heldur þá atvinnugrein sem þér er fyrst og fremst um að tefla, iðnaðinn í landinu. En nú bregður svo. við, þegar til kastanna kemur, að það er einungis ríkissjóður sem menn hafa í huga. Víst skal það ekki vanmetið, ríkissjóði veitir auðvitað ekki af öllu því fé sem hann hefur til umráða og meira til, en það heyrist náttúrlega oft, bæði nú og fyrr og síðar, að ekki er okkur sama til hvaða ráða er gripið í því skyni að afla fjár fyrir ríkissjóð. Þegar hér er um það að ræða að tollalækkanir tiltekinna vara bitna á ríkissjóði, þá grípur ríkisstj. til þess ráðs að leggja á nýtt gjald til þess að fá í hirslur ríkisins þá peninga sem þar tapast, án þess að grípa um leið til aðgerða til þess að styðja þá atvinnugrein sem vissulega á enn erfiðara af þessum sökum nú en áður, og var þó orðið ærið fyrir því miður. Hér er um atvinnugrein að ræða þar sem 16.3% þjóðarinnar vinna, og það er því heldur ekki lítið atvinnuspursmál fyrir Íslendinga að sæmilega sé frá þessum málum gengið.

Nú keyra úr öllu hófi ýmiss konar álögur á atvinnurekstur í landinu, hverju nafni sem nefnist, og þá ekki síst iðnaðinn vegna ýmiss konar fjárfestinga sem hann hefur þurft að standa í. Allar þær álögur koma mjög illa við þessa atvinnugrein. — Þess vegna var eðlilegt að þingheimur fengi að vita nú til hvaða aðgerða ríkisstj. ætlaði að grípa till þess að vinna gegn áhrifum tollalækkana á innfluttum iðnaðarvörum, — aðgerða sem hljóta að verða að koma til framkvæmda núna um áramótin. Það segir sig sjálft, að þar verður enn þá erfiðara um að fjalla ef það er látið bíða fram yfir þann tíma, en eðlilegustu tímamörkin væru nú um áramótin. Í aths. við fjárlagafrv. sagði svo, með leyfi hæstv. forseta:

„Í frv. er gert ráð fyrir lækkun aðflutningsgjalda í samræmi við samning um aðild Íslands að EFTA og samning við EBE. Í samstarfssamningi stjórnarflokkanna er gert ráð fyrir „að samkeppnisaðstaða íslensks iðnaðar verði tekin til endurskoðunar og spornað með opinberum aðgerðum gegn óeðlilegri samkeppni erlends iðnaðar, m.a. með frestun tollalækkana.“ Ekki er fullráðið með hvaða hætti þetta verður gert. Sérstök nefnd þriggja rn. hefur málið til athugunar.“

Það er eðlilegt að spurt sé: Hvað verður gert í framhaldi af starfi þessarar sérstöku nefndar? Það er ekki vitað einu sinni hvað þessi sérstaka nefnd lagði til. Sagt er að hún hefði helst í huga innflutningsgjald á sælgæti og sérstakt gjald á innflutt húsgögn. Ekki veit ég hvað rétt er í því, en það hefur verið mjög gagnrýnt af hálfu þeirra, sem að iðnaðinum standa, að taka út úr tvær tilteknar greinar iðnaðarins án þess að rök séu færð fram fyrir því, hvort þær fremur en aðrar hafi orðið fyrir barðinu á óeðlilegri samkeppni erlendis frá.

Hinn 1. nóv. s.l., þegar fjárlagafrv, var lagt fram, birti málgagn hæstv. iðnrh. viðtal við formann Alþb. um fjárlagafrv., þar sem hann sagði m.a. orðrétt, með leyfi hæstv. forseta: „Loforð hefur hins vegar verið gefið um það, að við afgreiðslu frv. verði tekinn upp nýr tekjuliður sem samsvarar þessari tollalækkun og sem mundi þjóna því að vernda íslenskan iðnað í samkeppni við innfluttar vörur.“ — Þetta undirstrikar þá nauðsyn sem er á því að fá að vita hvað þarna er um að ræða.

Það er kannske rétt að minna á það einnig í þessu sambandi, að Félag ísl. iðnrekenda ritaði hæstv. forsrh., Ólafi Jóhannessyni, bréf 1. nóv., þar sem stjórn félagsins óskaði eftir sérstökum fundi með forsrh. og öðrum ráðh. úr ríkisstj. sem fjalla um málefni tengd iðnaði, þar sem rætt verði um hvernig ríkisstj. hyggst standa við það ákvæði samstarfsyfirlýsingar sinnar sem ég hef vitnað í í ræðu minni. Og formaður Félags ísl. iðnrekenda hefur upplýst að ríkisstj. hafi hvorki talað við Félag ísl. iðnrekenda út af þessu máli né svarað bréfinu. Það er nú langt um liðið frá því er iðnrekendur óskuðu viðræðna við ríkisstj. til þess að fá upplýst hvaða ráðstafanir yrðu gerðar nú fyrir áramót. Hér er um að ræða mikið grundvallaratriði fyrir tilveru og þróunarmöguleika íslensks framleiðsluiðnaðar þar sem mikill fjöldi Íslendinga starfar. Í framleiðsluiðnaðinum munu starfa um 12 þús. manns.

Ég hef, herra forseti, fært rök fyrir því, af hverju ég tel nauðsynlegt að því sé svarað af hálfu hæstv. ríkisstj., um leið og fjallað er um þetta mál, til hvaða aðgerða til stuðnings iðnaðinum í landinu ríkisstj. hyggst grípa. Hér fjöllum við um frv., sem á að vinna upp um helming af tekjutapi ríkisins, ef að lögum verður. En hvað á að gera til þess að styðja þessa mikilvægu atvinnugrein í landinu, sem við öll viljum að vaxi og verði fjölbreyttari og eflist svo að hún geti orðið megnugri þess að afla gjaldeyris og spara gjaldeyri?