18.12.1978
Efri deild: 34. fundur, 100. löggjafarþing.
Sjá dálk 1697 í B-deild Alþingistíðinda. (1216)

23. mál, tímabundið vörugjald

Iðnrh. (Hjörleifur Guttormsson):

Herra forseti. Það er ljúft og skylt að greina hv: þd. og hv. þm. Ragnhildi Helgadóttur frá því í aðalatriðum, hvernig staðið hefur verið að því máli sem hún spyr um, til hvaða aðgerða ríkisstj. hafi hugsað sér að grípa til verndar íslenskum iðnaði nú þegar samkeppnisaðstaða hans versnar frá því sem verið hefur við lækkun tolla, næstsíðasta þrep tollalækkana samkv. samningum við EFTA og EBE.

Ég vil, áður en ég vík að þessu, minna á það, að fyrrv. ríkisstj. hafði ekki uppi, svo að mér sé kunnugt, nein áform um að ná fram frestun tollalækkana við þessi bandalög sem Ísland hefur gert samninga við og er að hluta aðili að. Hins vegar var á það knúið við myndun núv. ríkisstj., að tekið yrði til athugunar að fresta tollalækkunum, sem koma áttu til framkvæmda um næstu áramót, og Alþb. tók mjög undir þá stefnu, en iðnrekendur og samtök þeirra höfðu knúið á um það á undanförnum mánuðum og reyndar um lengri tíma að þetta mál yrði tekið til endurskoðunar og frestað yrði tollalækkunum um næstu áramót. Óskir iðnrekenda að þessu leyti voru rökstuddar fyrst og fremst með því að ekki hefði tekist að búa iðnaðinn í landinu sem skyldi undir harðnandi samkeppni á þeim mörkuðum sem hér er um að ræða, harðnandi samkeppni við innfluttan iðnvarning. Fyrrv. ríkisstj. hafði að mínu mati ekki staðið sem skyldi í ístaðinu í sambandi við iðnþróunaraðgerðir til þess að auðvelda íslenskum iðnaði þessa vaxandi samkeppni, og gagnrýni iðnrekenda beindist því ekki síst að skorti á aðgerðum að þessu leyti. Nú er ekki um það að sakast lengur, eða það er tilgangslaust að sakast um það, hvað ekki var gert á undanförnum árum, og eðlilegt að að því sé spurt, hvað núv. ríkisstj. hyggist gera í þessum efnum.

Hv. þm. vita hvaða meðferð fyrirhuguð frestun tollalækkana fékk í ríkisstj. Þar náðist ekki samstaða um þetta atriði. Ráðh. Alþb. stóðu einir fast við þá stefnumörkun að fresta ætti tollalækkunum, en ráðh. samstarfsflokka okkar tveggja töldu ekki fært að standa við þá stefnu og því var frá henni horfið. Því var hins vegar jafnframt heitið, þegar þetta mál var til meðferðar í ríkisstj., að gripið skyldi til aðgerða, ríkisstj. mundi beita sér fyrir aðgerðum sem vægju upp á móti harðnandi samkeppni og versnandi samkeppnisaðstöðu iðnaðarins vegna þeirrar stefnubreytingar sem í þessu fólst. Og það var jafnframt samþykkt af ríkisstj. að stefna að því að taka upp samninga við EFTA og EBE um að fá fram frestun á síðasta þrepi tollalækkunar í ársbyrjun 1980.

Eins og hér hefur komið fram hefur verið starfandi sérstök nefnd eða starfshópur á vegum rn. til þess að fjalla um það og gera um það till. til ríkisstj., hvaða aðgerðir helst komi til greina til verndunar iðnaðinum. Nokkuð er umliðið síðan þessi starfshópur skilaði áliti sínu og það hefur verið til athugunar á vegum ríkisstj. Þar er um að ræða hugmyndir, bæði almenns eðlis, sem varða iðnaðinn í heild, en einnig ábendingar um vissar sértækar aðgerðir til stuðnings einstökum iðngreinum sem eiga í erfiðleikum að mati manna, og hvort tveggja er til athugunar.

Þegar fjallað var um tekjuöflun fyrir ríkissjóð í tengslum við afgreiðslu fjárlagafrv. kom vissulega til athugunar hvort tengja ætti þessa tekjuöflun við álögur, sem verkuðu til verndar iðnaðinum um leið, t.d. hvort fara ætti út í það að hækka jöfnunargjald það sem lögleitt var á s.l. vori, sem leggst á ýmsar iðnaðarvörur, tiltekinn innflutning, og hefði vissulega í því falist ákveðin vernd fyrir samkeppnisiðnað okkar. Það varð hins vegar ekki að ráði að tengja tekjuöflun þá, sem grípa þurfti til, við þetta, heldur að leggja til hækkun á vörugjaldi, en það gjald snertir að mjög litlu leyti innfluttar iðnaðarvörur frá þeim löndum, sem eru í EFTA og EBE, og sneiðir einmitt hjá varningi sem þaðan kemur.

Það mun hafa komið fram í umr. um þetta mál fyrir helgi hér í hv. þd., að ríkisstj. hafi hugsað sér að grípa til annarra aðgerða til verndar iðnaðinum. Það er rétt. Ég hef sem iðnrh. talið mér skylt að ýta á eftir þessu máli innan ríkisstj., og ég vænti þess, að nú fyrir áramótin verði tekin afstaða til tiltekinna till. sem þar liggja fyrir. Félag ísl. iðnrekenda hefur lagt fram sínar óskir og sínar till. fyrir nokkru og einnig óskað viðræðna um það mál. Ég hef átt viðræður við forustumenn úr Félagi ísl, iðnrekenda og frá fleiri samtökum iðnaðarins, en ríkisstj. í heild hefur ekki fram til þessa átt sérstakar viðræður við þá um hugmyndir þeirra.

Hugmyndir Félags ísl. iðnrekenda fela það fyrst og fremst í sér að hækkað verði jöfnunargjald það, sem lögleitt var á þessu ári, úr 3% í 9.1%, en að auki verði lagt á sömu tollskrárnúmer og þetta gjald varðar sérstakt innflutningsgjald upp á 6%. Í þessum till. er nánast um það að ræða að hækka jöfnunargjaldið, eða gjald sem svarar til þess, um hvorki meira né minna en rösk 12%.

Ég þarf ekki að lýsa því fyrir hv. þm. hvaða áhrif álag af þessu tagi hefði á verðlagsþróun í landinu. Reiknað hefur verið út af Hagstofu íslands, að hvert prósent í þessu jöfnunargjaldi svari til um 0.1% í verðbótavísitölu, þannig að gjaldtaka að þessu marki hefði veruleg áhrif á vísitölu og til hækkunar á vöruverði. Ég vil einnig minna á það, þó að ég sé engan veginn að kveða upp dóm um að þær leiðir, sem Félag ísl. iðnrekenda er hér að leggja til, séu ófærar, að eftir að jöfnunargjaldið hafði verið lögleitt s.l. vor af hv. Alþ., þá var að því fundið af EFTA, en alveg sérstaklega þó af Efnahagsbandalagi Evrópu, að það skyldi á lagt, þó að ekki væri gripið þar til neinna aðgerða gegn Íslendingum vegna þessa og látið sitja við mótmælin ein. Þetta hljótum við að hafa í huga þegar um þessi mál er fjallað.

Ég tel hins vegar að það komi vel til álita, og það hefur verið til athugunar og er til athugunar, að hækka að einhverju marki umrætt jöfnunargjald og að þær tekjur, sem af því fengjust, rynnu til iðnþróunaraðgerða, til framleiðniaukandi aðgerða og til markaðseflandi aðgerða og annarra þátta sem mættu verða iðnaði okkar til stuðnings. Þetta er eitt af þeim atriðum sem nú er verið að líta á og með hvaða rökum hægt sé að lyfta þessu gjaldi að einhverju marki, þannig að við það verði unað af þeim aðilum sem við erum bundnir samningum við í sambandi við fríverslun.

Ýmsir fleiri þættir eru til athugunar hjá ríkisstj. og þeir snerta almennar aðgerðir, eins og ég vék að áðan, þ. á m. lánamál iðnaðarins, stefnu opinberra aðila um innkaup á iðnvarningi og fleira af því tagi, en einnig einstakar iðngreinar, eins og eitthvað hefur komið fram um í fjölmiðlum að undanförnu.

Hv. þm. Ragnhildur Helgadóttir gagnrýndi það hér, að til tals hefði komið að taka út úr sérstakar greinar og grípa til sérstakra verndaraðgerða hvað þær snertir, þ. á m. sælgætisiðnað og kexiðnað í landinu, húsgagnaiðnað o.fl. sem nefnt hefur verið í þessu sambandi. Ég get ekki tekið undir gagnrýni af þessu tagi. Ég tel að jafnframt því sem hafa beri iðnrekstur okkar almennt í huga og samkeppnisiðnaðinn alveg sérstaklega, þá hljótum við að gera úttekt á einstökum iðngreinum, kanna stöðu þeirra og grípa til nauðsynlegra aðgerða, — aðgerða sem réttmætar eru taldar til að vernda tilteknar iðngreinar tímabundið og stuðla að bættri framleiðni og bættu skipulagi í þessum iðngreinum, þannig að þær geti innan ekki mjög langs tíma tekið á móti vaxandi samkeppni.

Hvað snertir umr. um sérstakt innflutningsgjald á sælgæti og brauðvörum, þá hafa engar ákvarðanir verið teknar um það. Hugmyndir, sem fram hafa komið um þetta, ganga út frá því, að innflutningur á þessum vörum verði gefinn frjáls. Ef til sérstaks innflutningsgjalds kæmi, þá yrði þessi innflutningur jafnhliða gefinn frjáls og hætt yrði niðurgreiðslum á aðföngum þessa iðnaðar hér innanlands, sem yrði þá sparnaður fyrir ríkissjóð, þó að það yrði þá jafnhliða að vera tryggt að þessar iðngreinar fái aðföng sín sem næst á heimsmarkaðsverði eða hliðstæðu verði, þannig að þeir, sem að þeim standa, búi við svipaða aðstöðu hvað þetta snertir eftir sem áður.

Ég held að það sé ekki ástæða til að fara miklu fleiri orðum um þetta nú. En eins og ég hef greint frá, er þetta til meðferðar á vettvangi ríkisstj., og ég vænti þess að hægt verði að greina frá ákveðnum aðgerðum til verndar íslenskum samkeppnisiðnaði fyrir áramótin, því að ekki er óeðlilegt að á það sé knúið af þeim, sem bera hag iðnaðarins fyrir brjósti, að fá úr því skorið, hvert ríkisstj. hyggst stefna í þessum efnum. Ýmislegt mun þó óhjákvæmilega bíða fram á næsta ár og er auk þess þannig vaxið að það mun taka nokkurn tíma að koma því í höfn. Þar nefni ég m, a. lánamál iðnaðarins, opinber innkaup og aðgerðir af því tagi sem unnið verður að í áföngum.