18.12.1978
Neðri deild: 35. fundur, 100. löggjafarþing.
Sjá dálk 1700 í B-deild Alþingistíðinda. (1222)

39. mál, kjaramál

Árni Gunnarsson:

Herra forseti. Í þingflokki Alþfl. hef ég marglýst því yfir og einu sinni í umr. hér á þingi, að ég væri andvígur afturvirkni í álagningu skatta. Ég tel slíka afturvirkni óeðlilega og óskynsamlega eins og hún kemur fram í 8. og 9. gr. þess frv. sem hér liggur fyrir. Það má vera að það megi finna þess stað í lögum að slíkar álögur séu ekki lagabrot, en um það atriði eru skiptar skoðanir og lögfróðir menn hafa um það deilt. Allur almenningur gerir ráðstafanir og skipuleggur fjármál sín eftir að hafa fengið álagningarseðla skatta í hendur. Það er því minn skilningur að slíkir bakreikningar eins og hér um ræðir séu brot í samskiptum ríkisvaldsins við almenning. Ljóst er að skattgreiðendur eiga í erfiðleikum með að greiða þann skattauka sem brbl. kveða á um. Það sannfærir mig enn betur um óréttmæti þessarar skattaálagningar sem kom skattgreiðendum í opna skjöldu.

Þá er ég einnig þeirrar skoðunar, að samþykkt þessarar afturvirkni í skattalögum sé hættulegt fordæmi er geti haft afdrifaríkar afleiðingar. Samkv. þessu fordæmi getur ríkisvaldið á hverjum tíma lagt á skattauka aftur í tímann ef fjármagn skortir og erfiðleikar steðja að. Á þessu er því meiri hætta þegar frágangur fjárl. er ekki nægilega vandaður. Ég mun því sitja hjá við atkvgr. um þetta mál.