18.12.1978
Neðri deild: 35. fundur, 100. löggjafarþing.
Sjá dálk 1716 í B-deild Alþingistíðinda. (1242)

138. mál, skattur á skrifstofu- og verslunarhúsnæði

Gunnar Thoroddsen:

Herra forseti. Það kemur þingheimi og þjóðinni ekkert á óvart þó að hv. þm. upplýsi að Alþfl. vilji temja sér og halda áfram að sýna samstarfsflokkunum alveg sérstaka kurteisi og háttvísi. Þetta veit auðvitað þjóðin öll. En ég fékk ekki svar við spurningu minni um það, hvort Alþfl. mundi leggja frv. fram á Alþ. Það er á honum að skilja að fyrst verði samstarfsflokkarnir að taka afstöðu til frv. Hér er nefnilega um að ræða gátu sem mönnum gengur dálítið erfiðlega að ráða, hvort Alþfl. ætlar að sýna þann manndóm að leggja frv. fram hér á Alþ. og freista þess hvort hann geti fengið það lögfest eða hvort hann ætlar að bíða um ótiltekinn tíma eftir afstöðu hinna stjórnarflokkanna. Í því sambandi má geta þess, að svo var að skilja á hæstv. forsrh. fyrir helgi, að ríkisstj. mundi ekki geta fjallað um þessi mál eða athugað þetta að nokkru ráði fyrr en eftir áramót. Það er þetta dæmi sem stendur dálítið óskýrt fyrir þjóðinni, að ég ætla.

Það eru sett þau skilyrði, að fyrir liggi afstaða stjórnarflokkanna til þessa frv. Alþfl. áður en fjárlög og tekjuöflunarfrv. verði afgreidd. Það er ætlun hinna tveggja stjórnarflokkanna að afgreiða þessi mál nú fyrir jól, en frv. verður ekki athugað í alvöru fyrr en eftir áramót að sögn hæstv. forsrh. Hvernig gengur þetta dæmi upp? Gæti ekki hv. þm., formaður þingflokks Alþfl., hjálpað mönnum til að ráða þessa gátu?