18.12.1978
Neðri deild: 35. fundur, 100. löggjafarþing.
Sjá dálk 1716 í B-deild Alþingistíðinda. (1243)

138. mál, skattur á skrifstofu- og verslunarhúsnæði

Sighvatur Björgvinsson:

Herra forseti. Sá mæti maður Hannibal Valdimarsson sagði einhvern tíma að það væri stór kostur á andstæðingi ef honum dytti aldrei neitt í hug. Það má segja um þá hv. sjálfstæðismenn, að það er eins og þeim geti ekki dottið nokkur skapaður hlutur í hug sjálfum og þurfi alltaf að leita svara hjá öðrum. En það verður að ætlast til þess, að þingreyndur maður eins og hv. síðasti ræðumaður sé nú orðinn þess umkominn að detta sjálfur í hug svör við spurningum sínum af þessu tagi og þurfi ekki að leita svara við þeim á Alþingi.

En á hitt er að líta, að við Alþfl.-menn viljum að sjálfsögðu þrautreyna samkomulag við samstarfsflokka okkar um þessi mál. Við lítum svo á að sú tilraun sem við höfum gert nú í desembermánuði, á elleftu stundu, ég skal fúslega viðurkenna það, sé tilraun til að bjarga þessari ríkisstj. til að koma því í framkvæmd að hún geti starfað ekki út árið 1979, heldur allt kjörtímabilið og náð árangri. Og við hættum ekki við þennan björgunarleiðangur á miðri leið.