18.12.1978
Neðri deild: 35. fundur, 100. löggjafarþing.
Sjá dálk 1716 í B-deild Alþingistíðinda. (1244)

138. mál, skattur á skrifstofu- og verslunarhúsnæði

Albert Guðmundsson:

Herra forseti. Ég vil ítreka það sem hefur komið fram hjá hv. þm. Alþfl., að þeir munu ekki samþykkja það frv. til fjárl., sem nú liggur fyrir, nema samstarfsflokkarnir samþykki verulegar breytingar á því í þá átt sem birtist í stefnumótun flokksstjórnar Alþfl. Það þýðir einfaldlega, að augljóst er að það er ekki meiri hl. á Alþ. fyrir samþykkt fjárl. eins og þau liggja fyrir. Fyrr en það liggur ljóst fyrir, hvort stjórnarflokkarnir koma sér saman um fjárlög sem þeir treysta sér til að koma í gegn með atkvæðamagni sem á bak við þá er ef þeir standa saman, er tilgangslaust að ræða fjárlagafrv., því að það er ekki nokkur leið að vita hvaða fjárlagafrv. við erum að ræða. Hér liggur fyrir fjárlagafrv. kynnt af ríkisstj. sem hefur ekki meiri hl. þm. að baki. Ég get ekki séð annað en það sé tilgangslaust að eyða tíma í frekari umr. fyrr en flokkarnir allir, sem standa að hæstv. ríkisstj., leggja fram nýtt fjárlagafrv. sem þm. standa að, stuðningsmenn þessarar ríkisstj., en ekki bara ráðh. Þess vegna tek ég undir ósk hv. 7. þm. Reykv. um að fresta þessum umr. Ég gat ekki betur skilið en hann væri að fara þess á leit að umr. yrði frestað, því að það er ekkert til að afgreiða fyrr en vitað er hver niðurstaðan verður milli þm. stuðningsflokka ríkisstj., þingflokkanna í heild. Ég ítreka þessa ósk mína um að umr. um fjárl. verði frestað þangað til fyrir liggur einhver sameiginleg niðurstaða þess meiri hl. sem stendur að myndun núv. ríkisstj.